Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 21:50:51 (6488)

2002-03-21 21:50:51# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[21:50]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að í forsendum frv. er gert ráð fyrir að þessi orka verði seld til álvers á Reyðarfirði. Það er líka alveg ljóst að hluti af því hversu arðsöm og góð framkvæmd þetta er, er hversu stutt flutningsleiðin er. Ef flutningsleiðin lengist dregur úr arðseminni. Þess vegna er alveg ljóst að menn vilja nýta þessa orku á Austurlandi og forsendurnar byggja á því.

Varðandi það sem hv. þm. nefndi um trúarbrögð þá held ég að það sé alveg í góðu lagi að ég hafi þau trúarbrögð, studd góðum rökum, að hér sé um arðsama og góða framkvæmd að ræða, hafi hún rétt á öðrum trúarbrögðum sem hún hefur auðvitað. Ég trúi því að þetta verði að veruleika og það verður svo að vera hennar mat hvort hún trúir einhverju öðru.