Endurskoðun EES-samningsins

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 10:30:59 (6491)

2002-03-22 10:30:59# 127. lþ. 103.94 fundur 424#B endurskoðun EES-samningsins# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[10:30]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. sagði í fjölmiðlum í gær að tengsl Íslands við Evrópu væru langmikilvægasta málið sem Íslendingar stæðu frammi fyrir. Ég er honum sammála um það.

Hæstv. viðskrh. sagði í gær að til greina kæmi að Íslendingar gerðust aðilar að ESB og tækju upp evruna. Ég er einnig sammála henni um það. Ég tel, herra forseti, að við þurfum umræðu af þessu tagi. Við þurfum upplýsingu og að lokum að taka ákvörðun um hvernig við eigum að haga tengslum okkar við Evrópu. Sú ákvörðun snýst ekki um annað en hvort við ætlum að sækja um aðild að Evrópusambandinu eða hvort við ætlum að dragast hægt en bítandi aftur úr öðrum Evrópuþjóðum hvað velsæld varðar. Þetta eru kostirnir og þeir sem halda öðru fram gera það ekki með rökum.

Sannarlega hefur EES-samningurinn dugað okkur vel. Enginn hefur þó bent á það af jafnmikilli elju og hæstv. utanrrh. að hann hefur veðrast og trosnað. Þróunin sýnir að með tímanum muni hann ekki þjóna þörfum okkar jafn vel og í upphafi. Þetta speglast mjög vel í tengslum við stækkun Evrópusambandsins sem núna er á fullu skriði.

Við Íslendingar höfum gert fríverslunarsamninga í gegnum EFTA við tíu lönd sem eru núna að ganga í ESB. Um leið og þessi lönd ganga inn falla fríverslunarsamningarnir úr gildi. Þetta veldur því að nauðsynlegt er að breyta samningnum þannig að staða Íslands og EFTA-ríkjanna versni ekki hvað fríverslun áhrærir þó að Evrópusambandið stækki. Þetta er viðurkennt af ESB sem á síðasta ári opnaði fyrir viðræður um endurskoðun á EES-samningnum.

Þessir fríverslunarsamningar hafa að geyma ákvæði um fríverslun fyrir fisk sem eru okkur ákaflega mikilvæg. Ég tel því eðlilegt að viðræður um endurbætur á EES-samningnum taki líka á tollfríðindum með fisk og þar með á hinni svokölluðu bókun 9. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann sé mér sammála um þetta.

Nú hafa þau slæmu tíðindi borist að ESB hefur kippt að sér höndunum. Viðræður munu ekki hefjast fyrr en núverandi stækkun ESB er lokið en þangað til getur liðið langur tími eins og hæstv. ráðherra hefur bent á. Á meðan má segja að stækun ESB hafi reist nýjar viðskiptahömlur gagnvart EFTA-ríkjunum sem geta verið ákaflega neikvæðar fyrir þjóð eins og okkur sem þarf að auka útflutning á unnum fiski.

Fyrr í þessari viku áttum við þingmenn Íslands sem sitjum í EES-nefnd EFTA gagnlegar viðræður við fulltrúa Dana sem nú eru að taka við formennsku ESB. Þegar ég spurði þennan fulltrúa formlega á fundinum hverju þessi langa töf sætti sagði hann einfaldlega: Það er ekki hægt að ræða breytingar á EES-samningnum nema fyrir liggi tillögur frá EFTA. Í dag liggja engar tillögur fyrir.

Ég held því fram, herra forseti, að í þessu felist mikill veikleiki hjá EFTA. Samtökin sem nú eru undir stjórn Norðmanna gátu ekki mótað sameiginlega stefnu þegar tækifæri gafst, m.a. um hvernig ætti að taka á tollfríðindum varðandi fisk. Mér finnst af þessu tilefni nauðsynlegt að segja að ég tel að samtökin skorti skýra sýn og forustu. Ég tel að þennan veikleika hafi ESB notað til að loka á viðræður um breytingar á EES-samningnum til ærið margra ára. Það opnaðist gluggi um stund en hann lokaðist aftur. Ég vil því líka spyrja hæstv. utanrrh.: Voru uppi mismunandi viðhorf milli Norðmanna og Íslendinga um hvort freista ætti þess að láta viðræðurnar ná til almennrar fríverslunar á fiski? Var það ástæðan fyrir því að ekki hefur náðst að móta sameiginlega stefnu EFTA í málinu?

Eftir stendur svo þetta: Það mun líða langur tími þangað til Evrópusambandið er reiðubúið að ræða við okkur um breytingar á samningnum og við höfum enga hugmynd um það í dag til hvers þessar viðræður kunna að lokum að leiða. Meginspurning mín til hæstv. ráðherra er því þessi: Getum við beðið þangað til án þess að fara sjálf að undirbúa umsókn um aðild að ESB með því t.d. að skilgreina á vettvangi ríkisstjórnarinnar þau samningsmarkmið sem þarf að hafa á hreinu ef það þjónar hagsmunum okkar að ganga til viðræðna með skömmum fyrirvara? En ég tel að margt bendi til að svo kunni að fara.