Endurskoðun EES-samningsins

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 10:35:46 (6492)

2002-03-22 10:35:46# 127. lþ. 103.94 fundur 424#B endurskoðun EES-samningsins# (umræður utan dagskrár), utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[10:35]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er nauðsynlegt að taka fram í upphafi að aðildarviðræður eru ekki á stefnuskrá núverandi ríkisstjórnar. Þar af leiðandi er ekki verið að undirbúa slíka umsókn.

Að því er varðar EES-samninginn hefur farið fram mjög mikil vinna bæði á vettvangi EFTA og á vettvangi landanna þriggja í tengslum við þá erfiðleika sem þar blasa við. Ljóst er að mikil þörf er á að aðlaga samninginn þeim breytingum sem hafa orðið á löggjöf Evrópusambandsins. Um það ríkir samstaða milli ríkjanna og Evrópusambandið viðurkennir líka að slíkar breytingar séu nauðsynlegar.

Hins vegar liggur það líka fyrir að Evrópusambandið er ekki tilbúið að fara í þá vinnu fyrr en að lokinni stækkun. Einnig er ljóst að Norðmenn hafa ekki talið rétt að angra framkvæmdastjórnina of mikið með það og hafa verið tilbúnari en við að sætta sig við að sú endurskoðun fari ekki fram fyrr en að loknu stækkunarferlinu. Ef það verður niðurstaðan er alveg ljóst að það mun taka mörg ár. Það liggur hins vegar fyrir, er viðurkennt af öllum aðilum, að slíkar breytingar eru nauðsynlegar og auðvitað verður þá reynt að hraða því eins og kostur er.

Að því er varðar önnur atriði, t.d. þátttöku í nefndum, hefur Evrópusambandið neitað því. Þar skortir lagagrunn til að við eigum aðgang að tilteknum nefndum. Það er mikilvægt fyrir okkur að verja þá stöðu sem við höfum á þessu sviði og halda áfram að reyna að ná aðgangi að nefndum sem eru okkur mikilvægar til þess að geta haft nauðsynleg áhrif á löggjöf. Að þessu munum við vinna áfram.

Hins vegar er alveg fullreynt að við fáum ekki meiri aðgang að valdastofnunum Evrópusambandsins sem hafa fengið meiri völd en áður var, t.d. og ráðherraráðinu og ákveðnum stofnunum sem hafa verið settar á fót og hafa yfirtekið hlutverk framkvæmdastjórnarinnar að nokkru leyti. Það liggur alveg ljóst fyrir að við fáum ekki meiri aðgang að þeim stofnunum en hins vegar er nauðsynlegt fyrir okkur að rækta góð samskipti við þær hvort sem það er í gegnum ráðherraráðið eða Evrópuþingið. Við höfum að sjálfsögðu möguleika til þess án þess að þar sé um formlegan aðgang að ræða.

Að því er varðar bókun 9 og tollaréttindi er þar ekki beint um breytingar á EES-samningnum að ræða heldur endurskoðun á bókun 9 sem við höfum margoft farið fram á. Nú er það svo að Norðmenn hafa annarra hagsmuna að gæta en við í því sambandi. Þau mál verða því líklega rekin tvíhliða, þ.e. annars vegar af Norðmönnum um sín mál og okkur um okkar mál.

Það er ljóst að með nýjum fríverslunarsamningum sem við höfum náð höfum við náð mjög miklum réttindum í Mið- og Austur-Evrópu. Þessi réttindi falla niður og við leggjum á það áherslu að þau verði óbreytt. Við höfum haldið því til haga að við komum til með að áskilja okkur rétt til að reka þau mál á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Við viljum vinsamlega lausn við Evrópusambandið um þau mál en þeir hafa algerlega hafnað því að þetta mál geti heyrt undir Alþjóðaviðskiptastofnunina. Við höfum hins vegar haldið þessu til haga. Það hefur ekki orðið nein hreyfing í þessu máli enn sem komið er af hálfu framkvæmdastjórnarinnar en við munum leggja mikla áherslu á að viðhalda réttindum okkar á þessu sviði að því er varðar tollfrjálsan aðgang með fiskafurðir okkar í Mið- og Austur-Evrópu en því miður liggur ekkert fyrir um það enn sem komið er.