Endurskoðun EES-samningsins

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 10:47:32 (6496)

2002-03-22 10:47:32# 127. lþ. 103.94 fundur 424#B endurskoðun EES-samningsins# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[10:47]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil sjá okkur ræða um Evrópumálin eins og bandamenn í stað þess að hlusta á stöðuga sleggjudóma frá Sjálfstfl. um þau mál. Hvaða rökvísi er það í umræðum okkar um sjávarútvegsmálin að vísa t.d. á Möltu sem er með sameiginlega fiskstofna? Bað Malta um aðlögun? Malta er að sækja í styrkina.

Förum í þá vinnu að kanna hvort næst aðlögun að sjónarmiðum okkar í sjávarútvegsmálum. Við erum þjóð sem ekki deilir stærstum hluta fiskstofnanna og á trúlega rétt á að veiða afganginn samkvæmt veiðireynslu. Könnum þetta. Við erum kannski sammála um það í öllum flokkum að vera fyrir utan Evrópusambandið en þá verðum við að ræða málin á réttum nótum.

Hvaða fráleita umræða skýtur upp kollinum á Alþingi að vextir séu lægri hér en í Evrópusambandinu? Reynum að segja fólkinu með stóru lánin sem á sl. ári var með 8% verðtryggingu og 7% vexti á lánum sínum eða þeim sem borga yfir 5% hjá Íbúðalánasjóði auk verðtryggingar, auk þess að taka afföll upp á 11--12%. Hvaða rugl er þetta? Felum utanrrh. að láta skoða samanburð á vöxtum og komumst út úr þessu og ræðum hlutina nákvæmlega eins og þeir eru.

Ber okkur e.t.v., herra forseti, að breyta stjórnarskránni núna eins og aðrir hafa gert út af breytingunum á umhverfi EES, út af Schengen og öllu því sem hefur gerst síðan EES-samningurinn varð til í stað þess að tala umræðu fólksins niður sem storm í vatnsglasi og af því að það séu minnst 12 ár þangað til, ef við viljum ganga í ESB, að það geti orðið? Við viljum kannski ekkert fara í Evrópusambandið en þjóðin mun ákveða það. En væri ekki munur ef hægt væri að tala um þessi mál almennt við Sjálfstfl. og komast að raun um hvort þetta snýst um sjávarútveg, herra forseti, eða um völd?