Endurskoðun EES-samningsins

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 10:49:51 (6497)

2002-03-22 10:49:51# 127. lþ. 103.94 fundur 424#B endurskoðun EES-samningsins# (umræður utan dagskrár), MS
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[10:49]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Nauðsynlegt er fyrir okkur Íslendinga sem þjóð að fjalla um stöðu okkar og framtíðarmöguleika í alþjóðlegu tilliti, ekki síst út frá þeim breytingum og þróun sem á sér stað í Evrópusamfélaginu. Við Íslendingar verðum að fjalla um stöðu EES-samningsins út frá hagsmunum okkar. Það er ekki rökrétt að EES-samningurinn geti haldið gildi sínu og tryggt hagsmuni okkar óbreyttur fyrst og fremst vegna þeirrar þróunar sem á sér stað innan Evrópusambandsins og vegna fyrirsjáanlegrar stækkunar þess.

Hvers konar pólitík er það að hyggjast aðeins standa vörð um óbreytt ástand, herra forseti? Það hlýtur að vera skylda ábyrgra stjórnmálamanna að velta upp möguleikum okkar til framtíðar því að kyrrstaða í þessum efnum þjónar ekki framtíðarhagsmunum okkar. Það er alveg ljóst og upplýsta umræðu á vegum hæstv. utanrrh., Halldórs Ágrímssonar, að undanförnu ber að skilja í því ljósi. Ef breytingar á EES-samningnum nást ekki fram í samningum við Evrópusambandið hljótum við að verða að skilgreina stöðu okkar út frá því með framtíðina í huga.

Aðild að Evrópusambandinu er ekki á dagskrá núverandi ríkisstjórnar og enginn stjórnmálaflokkur hefur það á stefnuskrá sinni. (Gripið fram í: Jú, Samfylkingin.) Hins vegar er bæði sjálfsagt og nauðsynlegt að ræða málið, enda getur varla nokkur maður fullyrt nú að slíkt geti ekki komið til greina einhvern tíma í framtíðinni. Það sem við Íslendingar þurfum helst að horfa til eru áhrif evrunnar á þróun efnahagsmála í Evrópu. Tilkoma evru eftir síðustu áramót og efnahagsleg þróun í framhaldi af því er mikill áhrifavaldur sem mun án efa hafa mikil áhrif í Evrópu. Útbreiðsla og þróun evrunnar hlýtur að skipta máli fyrir okkur. Við hljótum að gefa því gaum og fjalla um stöðu okkar í því tilliti.

Framtíðin krefst þess að við sem nú störfum í stjórnmálum fjöllum um stöðu okkar og hagsmuni í Evrópusamfélaginu og veljum okkur leið með rökstuddum og málefnalegum hætti. Það gerum við best með því að stuðla að upplýstri og málefnalegri umræðu um þessi mál þar sem við fjöllum um sem flestar hliðar og leggjum okkur fram um að hafa sjálfstjórn á því hvernig við tryggjum sem best hagsmuni þjóðar okkar. Þróun EES-samningsins og þróun Evrópusambandsins og það hvernig við ákveðum að skipa málum okkar er eitt stærsta verkefni íslenskra stjórnmála í nánustu framtíð og varðar jafnframt mest framtíð íslensku þjóðarinnar.