Endurskoðun EES-samningsins

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 10:56:34 (6500)

2002-03-22 10:56:34# 127. lþ. 103.94 fundur 424#B endurskoðun EES-samningsins# (umræður utan dagskrár), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[10:56]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Haft er á orði í fjölmiðlum og í heitum pottum sundlauganna að umræðunni um aðild Íslands að Evrópusambandinu sé í raun lokið, þjóðin hafi kveðið upp sinn dóm og það þrátt fyrir að hér hafi setið ríkisstjórn sl. 11 ár undir forustu Davíðs Oddssonar sem eins og kunnugt er hefur haft lítið sem ekkert til Evrópuumræðunnar að leggja í áratug eða svo. Er það nema von, herra forseti, ef sjálfstæðismenn halda að Rómarsáttmálanum hafi ekki verið breytt í fjörutíu og eitthvað ár? Má minna á Maastricht og Amsterdam og kannski Nizza líka? (Gripið fram í: Ég veit ekkert hvað það er.)

Auðvitað er Íslendingum fullljóst að samskipti okkar við Evrópusambandið og framtíð EES-samningsins eru meðal stærstu verkefna samtímans hér á landi. Undan því verkefni verður ekki vikist og undan því verkefni hefur Samfylkingin ekki vikist, herra forseti. Innan vébanda okkar fer fram öflug og upplýst umræða um Evrópustefnuna. Þar er flokksfólki treyst til að taka upplýsta ákvörðun um aðildarumsókn á hausti komanda. Það er skylda stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna að leiða umræðuna um Ísland í Evrópu, en að mörgu leyti hafa aðrir hér á landi tekið forustuna, svo sem Samtök iðnaðarins, samtök atvinnulífsins og verkalýðshreyfingin en í raun er það svo að íslenska þjóðin hefur sjálf komist að þeirri niðurstöðu að eina vitið sé að sækja um aðild að ESB og þeirrar skoðunar er sú sem hér stendur.

Herra forseti. Það er til lítils að þrefa um aðildarsamning sem ekki er til. Tökum skrefið, sækjum um aðild að Evrópusambandinu og látum það svo í hendur íslensku þjóðarinnar að dæma um hvort niðurstaðan er henni að skapi eða ekki.