Endurskoðun EES-samningsins

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 10:58:30 (6501)

2002-03-22 10:58:30# 127. lþ. 103.94 fundur 424#B endurskoðun EES-samningsins# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[10:58]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Í raun voru miklar og hatrammar deilur í þinginu þegar aðildin að EES-samningnum var rædd og samþykkt árið 1993. Miklar hrakspár voru og mikill tilfinningahiti í umræðunni en það er alveg ljóst að samningurinn er þjóðinni afar mikilvægur. Ég hyggst leggja fram í þinginu fyrirspurn þar sem mikilvægi samningsins er vegið og metið þannig að áhrif samningsins komi í raun og veru í ljós.

Danski skattamálaráðherrann núverandi, Svend Erik Hovmand, spurði mig einu sinni að því hvað Liechtenstein og Norðmenn hefðu upp á að bjóða sem aðrar Evrópuþjóðir hefðu ekki. Það varð í raun og veru fátt um svör hjá mér.

Gallinn við EES-samninginn er reyndar sá að hann er lítið sem ekkert að þróast í augnablikinu. Í því felast auðvitað ákveðin hættumerki. ESB virðist hins vegar vera að þróast en við höfum ekki aðild að æðstu valdastofnunum þeirra samtaka. Við verðum að horfa til framtíðar með hagsmuni Íslands að leiðarljósi. Aðildarviðræður eru alls ekki á dagskrá íslensku ríkisstjórnarinnar, það er alveg ljóst.

En það er alls ekkert óeðlilegt við það að umræða fari fram, að menn velti fyrir sér kostum og göllum þeirra samninga. Vinnan er algerlega óháð því hvort við á endanum göngum í ESB eða sækjum um aðild að ESB eða ekki. Ég minni þingmenn á að orð eru auðvitað til alls fyrst og menn verða að velta fyrir sér kostum og göllum og það getur vel verið að menn komist að því að óbreytt ástand sé það sem við viljum.