Endurskoðun EES-samningsins

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 11:02:52 (6503)

2002-03-22 11:02:52# 127. lþ. 103.94 fundur 424#B endurskoðun EES-samningsins# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[11:02]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Hér er til umræðu endurskoðun á EES-samningnum og ég rifja það upp að ákveðnar pólitískar forsendur voru til staðar þegar EES-samningurinn var gerður. Þessar forsendur voru í fyrsta lagi að það væri viðunandi þátttaka í undirbúningi löggjafar á þessu sviði. Og er þá ekki nauðsynlegt af okkur að halda þannig á málum að við reynum að styrkja þá þátttöku?

Í öðru lagi var tveggja stoða kerfið með ákveðnu jafnræði og verkaskiptingu forsenda fyrir þessum samningi. Þetta tveggja stoða kerfi hefur verið að veikjast. Er það þá ekki pólitískt verkefni okkar að reyna að styrkja það?

Í þriðja lagi var það forsenda að fullkomið samræmi væri í allri löggjöf sem varðar innri markaðinn. Það er ekki til staðar fullkomið samræmi í þessari löggjöf í dag. Er það þá ekki viðfangsefnið að bæta úr því?

Síðan var það jafnframt forsenda að það væri mögulegt að aðlaga löggjöf okkar að ESB-löggjöf með því að taka upp mál, t.d. að fá undanþágu frá ákveðnum tilskipunum. Það hefur reynst afskaplega erfitt.

Í síðasta lagi var það pólitísk forsenda að mögulegt væri að hafna ESB-löggjöf. Það hefur reynst afskaplega erfitt og hefur í reynd reynst fræðilegur möguleiki en ekki raunverulegur möguleiki. Ég sem utanrrh. hef tekið þetta mál upp á þessum pólitísku forsendum og ég hef talið það skyldu mína. Felst í því eitthvert stefnuleysi? Ég get ekki að því gert þó að ekki leggi allir sama mat á það. Auðvitað er ekki stefnuleysi í því heldur skylda til þess að fylgja þessu máli eftir á þeim forsendum sem Alþingi samþykkir, herra forseti.