Sjálfstæði Palestínu

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 11:10:09 (6506)

2002-03-22 11:10:09# 127. lþ. 103.2 fundur 336. mál: #A sjálfstæði Palestínu# þál., Flm. ÞSveinb (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[11:10]

Flm. (Þórunn Sveinbjarnardóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um sjálfstæði Palestínu. Flutningsmenn eru allir þingmenn Samfylkingarinnar, 17 að tölu. Í tillgreininni stendur, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að Ísraelsmenn dragi heri sína frá hernumdu svæðunum í Palestínu, í samræmi við friðarsamkomulagið sem gert var í Ósló árið 1993, og geri þannig Palestínumönnum kleift að lifa sem frjáls þjóð í eigin landi.

Alþingi lýsir yfir að þjóðum heims beri að stuðla að því að Palestínumenn og Ísraelsmenn leysi úr ágreiningsmálum sínum á grundvelli alþjóðaréttar, samþykkta Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasamninga.

Alþingi styður hugmyndir um að alþjóðlegt gæslu- og eftirlitslið verði sent á vettvang til að koma í veg fyrir vopnahlésbrot.``

Herra forseti. Þessi tillaga var lögð fram í lok nóvember og síðan eru liðnir tæpir fjórir mánuðir. Margt hefur gerst í Ísrael og Palestínu frá þeim tíma og því miður hefur þar flest færst til verri vegar. Þar er mikið ofbeldi, dauðsföll, sjálfsmorðsárásir, árásir ísraelska hersins á hernumdu svæðin og þessu virðist ekki ætla að linna, herra forseti.

Ástandið sem Palestínumenn búa við er að sjálfsögðu með öllu óviðunandi. Ófriðarbálið hefur magnast og þar með hörmungar hins almenna borgara, ekki síst barna og ungmenna. Heilar kynslóðir Palestínumanna alast upp í flóttamannabúðum og sjá ekki annan tilgang með lífinu en að ganga ofbeldi og hryðjuverkum á hönd. Eina leiðin út úr ógöngunum og til að stöðva mannréttindabrotin, ofbeldið og hryðjuverkin er að gera palestínsku þjóðinni kleift að lifa sem frjáls þjóð í eigin landi. Þar getur frumkvæði og stuðningur Íslendinga skipt miklu. Ísland, sem eitt elsta lýðræðisríki veraldar, nýtur virðingar á alþjóðasviðinu langt umfram það sem stærð lands og þjóðar gefa tilefni til. Okkur ber skylda til þess sem frelsisunnandi lýðræðisþjóð að beita áhrifum okkar í þágu friðar fyrir botni Miðjarðarhafs, og vera frumkvöðlar og brautryðjendur á sviði friðar og mannréttindamála í heiminum. Baráttan fyrir því að gera palestínsku þjóðinni kleift að lifa frjálsri í eigin landi fellur undir hvort tveggja.

Herra forseti. Intifata hin síðari hefur nú staðið í eitt og hálft ár. Meira en þúsund manns hafa týnt lífi, tugþúsundir hafa örkumlast, gífurleg eyðilegging hefur átt sér stað á Gaza og Vesturbakkanum og í raun er búið að eyðileggja innviði samfélagsins á hernumdu svæðunum. Heilsugæslustöðar eru sprengdar upp, skólar lagðir í rúst, lögreglustöðvar og samgöngumannvirki. Skotið er á sjúkraflutningamenn sem eru að reyna að aðstoða sært fólk. Konur í barnsnauð komast ekki á spítala og börn með slöngvubyssur eru skotin á færi.

Þjáning og sorg palentínsku þjóðarinnar og ísraelsku þjóðarinnar verður aldrei mæld. Um það snýst ekki þetta mál. En við sem hér inni erum vitum að þetta ofbeldi mun engan vanda leysa. Sagan hefur ekki verið palentínsku þjóðinni hliðholl undanfarna rúma hálfa öld. Við stofnun Ísraelsríkis árið 1948 sem við Íslendingar studdum dyggilega var 700 þúsund flóttamönnum stökkt á flótta frá Ísrael og Palestínu. Í dag er talið að flóttamenn frá Palestínu séu um 4 milljónir. Í sexdagastríðinu árið 1967 hófst hernámið sem enn í dag er í fullu gildi. Í júní nk. verða 35 ár liðin frá sexdagastríðinu og hernámi Vesturbakkans og Gaza. Þrátt fyrir friðarsamningana, þrátt fyrir viðræður í Madrid árið 1991 og Óslóarsamningana 1993 þá hefur það því miður gerst að stjórnvöld í Ísrael undir forustu Likud-bandalagsins, og skiptir þá engu hvort forsætisráðherrann heitir Nethanyahu, Barak eða Sharon, hafa virt Óslóarfriðarsamkomulagið að vettugi. Þeir hafa í raun verið því algjörlega andsnúnir.

Herra forseti. Það er ljóst að hernáminu verður að ljúka skilyrðislaust. Annars er ekki hægt að semja um frið á milli Ísraels og Palestínu. Ísraelsmenn verða að draga heri sína burt frá hernumdu svæðunum. Það hlýtur að vera upphafspunktur friðarumræðna eða upphafsstaða þeirra umræðna og þeirra samninga sem þarf að uppfylla. Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, og Samfylkingin öll að það sé mjög mikilvægt að Alþingi Íslendinga sendi skýr skilaboð til heimsbyggðarinnar, álykti um þetta mál, samþykki þá þáltill. sem hér er lögð fyrir og sendi þar með skýr skilaboð ekki bara hér á landi heldur til bandamanna okkar á Vesturlöndum og til Ísraels og Palestínu.

Við vitum að það er svo, herra forseti, að það er hlustað á það sem hér er sagt. Það er mark á okkur tekið og það er auðvitað ekki að ástæðulausu. Við höfum stutt Ísrael og baráttu Palestínumanna dyggilega og við skulum halda því áfram og þetta er liður í þeim stuðningi.

Mustafa Barghouthi, læknir og baráttumaður, var heiðursgestur Samfylkingarinnar á landsfundi okkar í nóvember sl. Hann sagði þar, með leyfi forseta:

,,Ofbeldið og öryggisleysið eru einkennin en hernámið er orsökin. Hernámið er að verða að krabbameini sem getur orðið báðum þjóðunum að bana og breiðst út til annarra landa.``

Herra forseti. Hér er ekkert ofsagt. Það eru blikur á lofti í Miðausturlöndum. Vissulega er það svo að margir þar vilja kynda ófriðarbálið og meðan stríð geisar í Afganistan, á meðan Bandaríkjastjórn hugleiðir það í alvöru að gera árás á Írak þá er það skylda okkar að reyna með öllum ráðum að stuðla að friði milli Palestínumanna og Ísraelsmanna, koma í veg fyrir vígbúnaðaráætlanir Bandaríkjastjórnar í Miðausturlöndum og stuðla að því að stríðinu í Afganistan ljúki sem allra fyrst. Allt hangir þetta saman, herra forseti. Ekkert getur án annars verið.

Ég hygg og vona að á hinu háa Alþingi sé þverpólitískur stuðningur við ályktun af þessu tagi og geri ráð fyrir því að hún verði strax tekin til umfjöllunar í hv. utanrmn. og að fulltrúar flokkanna þar geti sammælst um að afgreiða hana sem allra fyrst, herra forseti.