Sjálfstæði Palestínu

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 11:38:06 (6510)

2002-03-22 11:38:06# 127. lþ. 103.2 fundur 336. mál: #A sjálfstæði Palestínu# þál., SvH
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[11:38]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Sá er hér stendur játar hreinskilnislega að það er með hálfum hug að hann blandar sér í umræður um hin skelfilegu deilumál fyrir Miðjarðarhafsbotni. Áróðursstríðið er svo heiftarlegt að menn vita vart frá degi til dags hvað upp eða niður snýr.

Hins vegar, ef okkar litla lóð er einhvers virði, eigum við auðvitað að leggja það á vogarskálina í þessum málum. Það eru að vísu betri tíðindi að austan. Af hverju skyldu þau vera betri? Af því að Bandaríkjamenn hafa breytt um stefnu eða a.m.k. um framkvæmd stefnu sinnar. Bush Bandaríkjaforseti virtist draga taum Sharons á næstliðnum mánuðum. Afleiðingin var stóraukið ofbeldi og yfirgangur Ísraelsmanna.

Oft má heyra því haldið fram að Ísraelsmenn og Palestínumenn eigi sjálfir að leysa þessa deilu. Það geta þeir ekki, ekki með nokkru móti. Í Palestínu eru um 4 milljónir flóttamanna frá gömlu heimilunum sínum sem þeir áttu þar sem stofnað var Ísraelsríkið, 4 milljónir manna og afkomenda þeirra. Forusta Palestínu getur aldrei gert samning þar sem þeir heimta ekkert af átthögum sínum aftur. Það geta þeir blátt áfram aldrei skrifað upp á og ekkert frekar Ísraelsmenn, vegna þess að þá væru þeir að leggja landið sitt niður, væru í raun að afmá það. Fyrir því er það að hér er járn í járn sem enginn getur leyst nema hinir voldugu Bandaríkjamenn, enda ber þeim skylda til þess vegna þess að hinir auðugu frændur Ísraelsmanna í Bandaríkjunum hafa vissulega séð fyrir því að þetta mikla og eldsterka herveldi er við lýði.

En hvað ætli hafi breytt stefnu Bandaríkjamanna hinar síðustu vikurnar? Það er dálítið dapurlegt og kom raunar fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að það skuli af þeim orsökum að arabaríkin eru tregari í taumi við Bandaríkjamenn til þess að hefja árásir á Írak. Ekki er þetta nú geðfellt eða skapfellilegt, eins og Vestfirðingar eru vanir að segja. Þetta er samt staðreyndin.

Það skyldi þó ekki vera beint orsaskasamhengi milli hinna skelfilegu atburðir 11. sept. í Bandaríkjunum og þessara illvígu deilna fyrir botni Miðjarðarhafs? Það skyldi þó ekki vera að ástæðurnar til þess arna séu þær að Bandaríkjamenn hafi dregið taum Ísraelsmanna og múslimar hafi verið að hefna sín þess vegna ekki síst? Þessi skoðun hefur heyrst og hana hef ég lesið á prenti, í amerískum blöðum meðal annars. Þeim mun meiri ástæða ætti að vera fyrir Bandaríkjamenn að grípa í taumana.

Málið er mjög viðkvæmt eins og menn geta rétt ímyndað sér. Þess vegna er þess að vænta að utanrmn. skoði sig vel um bekki áður en hún skilar áliti sínu, athugi þessa tilögugerð af mikilli kostgæfni, vegna þess að báðir áróðursmeistararnir munu reyna að telja fólki trú um að þessi ályktun sé þeim í vil. Ég hef samúð með Palestínumönnum. Það er eðli okkar Íslendinga að hafa samúð með þeim sem minni máttar er. En ég er ekki tilbúinn til að samþykkja tillögu sem Hamas í Palestínu mundi með einhverjum hætti geta túlkað sér í vil. Þetta bið ég hv. utanrmn. að athuga sérstaklega.

Frjálslyndi flokkurinn er sammála megintilgangi og andlagi þáltill. sem hér liggur fyrir. En það kunna að vera, bæði í andlagi hennar og greinargerð, ýmis atriði sem sérstakrar íhugunar þurfa við og því er treyst að ekkert verði látið frá okkur fara fyrr en siglt er fyrir öll sker með fingurbrjóta sem ella kynnu að finnast.