Sjálfstæði Palestínu

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 11:44:05 (6511)

2002-03-22 11:44:05# 127. lþ. 103.2 fundur 336. mál: #A sjálfstæði Palestínu# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[11:44]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Megininntak þeirrar tillögu sem við ræðum hér er að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því á alþjóðavettvangi að Ísraelsmenn dragi heri sína frá hernumdu svæðunum, að Palestínumönnum verði gert kleift að lifa sem frjáls þjóð í eigin landi og að stuðlað verði að því að Palestínumenn og Ísraelsmenn leysi úr ágreiningsmálum sínum á grundvelli alþjóðsamninga og samþykkta.

Í lok ræðu sinnar kom hæstv. utanrrh. inn á þessa sömu þætti, þegar hann, eins og hann hefur gert áður, kvað upp úr með að Palestína yrði sjálfstætt ríki, lausnin lægi í að tryggja landamærin, að Ísraelsmenn yfirgæfu hernumdu svæðin og sneru til heimkynna sinna og þetta væri forsenda friðar. Að því leyti tók hæstv. utanrrh. undir þau meginsjónarmið sem hér eru sett fram. Ég hef auðvitað tekið eftir því að aðeins þeir sem hafa talað af hálfu stjórnarandstöðunnar hafa stutt að það verði ályktað.

Ég beini sérstaklega þeirri áskorun til formanns utanrmn., Sigríðar Önnu Þórðardóttur, sem hér hélt ágætisræðu, að hún taki þetta mál upp hið fyrsta í utanrmn. --- þar bíða eiginlega engin mál --- og að við komum okkur saman um ályktun sem innihaldi þau sjónarmið sem hér hafa verið studd af þeim sem hafa talað.

Ég gerði mér grein fyrir því að kominn væri nokkur samhljómur í umræðum um málið á Alþingi. Hann kom fram í umræðum utan dagskrár hér í byrjun mars þegar Þórunn Sveinbjarnardóttir, hv. þm. Samfylkingarinnar, vakti máls á friðartillögum Sádi-Araba. Ég vona því að tillagan sem við erum að ræða hér sé formsatriði sem þarf til að Alþingi taki málið formlega fyrir og afgreiði frá sér ályktun um þetta stóra og mikla mál.

Það skiptir mjög miklu máli í þessari umræðu að öryggisráðið hefur nú nýverið samþykkt ályktun þar sem í fyrsta sinn er talað um ísraelskt og palestínskt ríki í sömu andrá. Við verðum að gera okkur grein fyrir því hvaða gjörbreytingar hafa orðið í alþjóðasamfélaginu með því að náðst hefur samstaða um slíka ályktun, að tvö ríki, Ísrael og Palestína, þrífist hlið við hlið innan öruggra og viðurkenndra landamæra.

Bandaríkin hafa hægt og sígandi snúist á sveif með þeim sem vilja leysa deiluna á þann hátt að Palestína verði sjálfstætt ríki. Þetta er mjög mikilvægt og þessu hefur verið hreyft, eins og kom fram í máli framsögumanns, af bæði Colin Powell og Anthony Zinni. Þetta er stórmál þar sem Bandaríkjamenn hafa hingað til þaggað niður í þeim sem gagnrýnt hafa Ísrael. Mér hefur þótt sem Ísraelsmenn færu fram í trausti þess að Bandaríkjamenn beittu sér ekki gegn þeim. Það er nú breytt og ég fagna því.

Ég vil líka benda hv. þingmönnum á orð Lioru Herzl, sem var hér nýverið, og sagði í viðtali við Morgunblaðið að Palestínumenn mundu að lokum fá sitt Palestínuríki. Þetta er mjög mikilvægt.

Herra forseti. Þegar Mustafa Barghouthi heimsótti Ísland vann hann málum þjóðar sinnar fylgi með hófsamlegum en einörðum málflutningi. Hann hitti ráðamenn að máli og lýsti m.a. mikilli þörf fyrir heilsugæslustöð á hjólum í heimalandi sínu, þar sem hægt væri að aka til svæða þar sem engin heilsugæsla væri fyrir hendi. Hann hvatti til að Ísland legði af mörkum í því máli, hefði jafnvel frumkvæði eða eignaðist eina slíka stöð. Ég vil í þessari umræðu minna á þetta og þá miklu eyðileggingu sem orðið hefur síðan. Lögreglustöðvar og sjúkrahús hafa verið jöfnuð við jörðu og sjúkrabílar eyðilagðir. Skoðum hvort við getum með einhverjum hætti orðið við þessum óskum.