Sjálfstæði Palestínu

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 11:51:59 (6513)

2002-03-22 11:51:59# 127. lþ. 103.2 fundur 336. mál: #A sjálfstæði Palestínu# þál., KolH
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[11:51]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Orð hæstv. utanrrh. í ræðustóli áðan eru í fullu samræmi við tímamótaályktun Alþingis frá 18. maí 1989 og það er ástæða til að þakka það hvernig hæstv. ráðherra undirstrikaði afdráttarlausa stefnu Alþingis og ríkisstjórnar en sú stefna er efnislega sú sama og orðuð er í þeirri þáltill. hv. samfylkingarþingmanna sem hér er rædd.

Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs styður þessa stefnu. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs styður það að ályktunin verði afgreidd frá utanrmn. og síðan á Alþingi Íslendinga.

Fyrir fáum dögum, herra forseti, barst sú frétt frá ófriðarsvæðunum fyrir botni Miðjarðarhafsins að ísraelskar hersveitir hefðu verið kallaðar frá borgunum Betlehem og Beit Jala. Þetta virtust hinar jákvæðustu fréttir í fyrstu en síðan þær bárust hefur auðvitað komið í ljós að ísraelskar hersveitir hafa eingöngu hörfað frá þeim borgum sem hafa þurft að þola mestu hernaðarátökin upp á síðkastið en umkringja auðvitað enn allar palestínskar borgir og þorp á Vesturbakkanum og Gaza-svæðinu. Þannig má segja að ísraelskar hersveitir séu nú staðsettar þannig að þær eigi auðvelt með að ráðast að nýju inn í allar palestínskar borgir og þorp þegar merki um slíkt berst. Þessar sömu hersveitir, herra forseti, halda áfram að hefta frjálsa för Palestínumanna um eigið land auk þess sem vöruflutningar eru heftir og jafnvel för lækna og hjúkrunarliðs. Þannig hefur þessi frétt um brotthvarf ísraelskra hersveita ekki sagt allan sannleikann, staðan er enn þá sú að Palestínumenn hafa eingöngu takmarkaða heimastjórn á rúmum 17% lands á Vesturbakkanum. Þar að auki heldur ísraelski herinn áfram að banna umferð palestínskra bifreiða um Vesturbakkann og Gaza.

Herra forseti. Nýr sendiherra Ísraels, Liora Herzl, var stödd hér á landi fyrr í mánuðinum og af því tilefni var haft við hana viðtal í Morgunblaðinu. Það var eitt öðru fremur sem vakti athygli mína í því viðtali. Það var setning sem tekin var út í stækkuðu letri á miðri síðunni og hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Við buðumst til að leggja niður um það bil 80% af landnemabyggðunum, þar á meðal allar byggðirnar á Gaza.``

Ég kann, herra forseti, auðvitað ekki allan sannleikann um Camp David samningana undir lok valdatíma Clintons þegar Ehud Barak var enn við völd í Ísrael en veit þó það að landið sem Barak bauð í þeim viðræðum átti að vera sundurbrytjað og umkringt svokölluðum öryggissvæðum undir stjórn Ísraela þar sem ljóst var að þeir mundu koma fyrir skriðdrekum og hersveitum til svokallaðrar öryggisgæslu. Slíkt víggirt land átti að umkringja landamæri Palestínumanna við Jórdaníu. Þannig hefðu eiginleg landamæri breyst í hernaðarlega víglínu. Þetta var það sem í boði var, nokkur afmörkuð svæði sem hvert um sig átti að vera herkví.

Auðvitað höfnuðu Palestínumenn þessu boði, boði um að lifa fangelsaðir í hersetnu landi sínu. Þetta boð stóð raunar ekki lengi því að auðvitað hafnaði Sharon þessum hugmyndum Baraks um leið og hann komst til valda eins og hann hefur hafnað öllum raunhæfum tilraunum til að koma á friði eða friðarumleitunum á svæðinu.

Herra forseti. Í ljósi þessa má kalla það skrýtið að ísraelski sendiherrann skyldi nefna þetta atriði sem dæmi um samningsvilja Ísraelsmanna. Í ljósi þess sem hún sagði samt í viðtalinu um að Palestínumenn fengju auðvitað sitt ríki að lokum skulum við halda þeirri setningu á lofti. Kröfurnar sem hljóma í dag eru þær sömu og hljómað hafa frá 1949, þær snúast um sjálfstætt ríki Palestínu, sjálfsákvörðunarrétt Palestínumanna og rétt palestínskra flóttamanna til að snúa heim aftur. Sá réttur á raunar að vera tryggður í öllum mannréttindasáttmálum en hefur ekki náð fram að ganga gagnvart palestínskum flóttamönnum. Síðast en ekki síst verða Ísraelsmenn að skila herteknu svæðunum frá 1967. Þessum kröfum hefur Vinstri hreyfingin -- grænt framboð haldið á lofti frá stofnun hreyfingarinnar og þessum kröfum, herra forseti, þurfa íslensk stjórnvöld að fylgja fast eftir enda eru þær forsendur þess að friður komist á í Palestínu og Ísrael.