Sjálfstæði Palestínu

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 11:59:41 (6515)

2002-03-22 11:59:41# 127. lþ. 103.2 fundur 336. mál: #A sjálfstæði Palestínu# þál., KF
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[11:59]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Fyrir nokkrum dögum sat ég fund ásamt fleiri þingmönnum með Omar Sapri Kittmitto, sendiherra heimastjórnar Palestínumanna á Íslandi, og var fróðlegt að heyra það sem hann hafði að segja um ástandið í landi sínu.

Ég hef eins og fleiri þingmenn komið til Ísraels. Það var árið 1989, fyrir 13 árum. Það var sérkennilegt að upplifa ungmenni á götum úti á fögrum sumarkvöldum leiðast hönd í hönd en grá fyrir járnum. Og aldrei hef ég orðið vitni að annarri eins öryggisleit á flugvelli og þar. Einum af farþegunum varð að orði, eftir að hafa undirgengist ítarlega líkamsleit, að hann byggi reyndar enn yfir nokkrum hugsunum í hjarta sínu sem ekki hefðu komið fram við leitina.

Herra forseti. Ísraelsríki var stofnað árið 1948 á landsvæði sem áður var kallað Palestína. Þar höfðu þá búið arabar í ein 1.300 ár. Palestína féll undir yfirráð Breta í fyrri heimsstyrjöldinni. Stofnun Ísraelsríkis í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar mætti mikilli andstöðu þeirra sem fyrir bjuggu á svæðinu.

Yfirráð Ísraels yfir eigin málefnum hafa ekki verið vefengd á alþjóðavettvangi og Íslendingar hafa ávallt verið hliðhollir þeim. Þó hafa aðgerðir ísraelskra stjórnvalda gegn palestínsku fólki oft verið harðlega gagnrýndar og almenningi um víða veröld blöskrað hvernig hægt hefur verið að líta fram hjá þeim hörmungum sem margar kynslóðir Palestínumanna hafa þurft að líða.

Í átökum þeim sem átt hafa sér stað síðan ríki Ísraels var stofnað hafa Ísraelar hernumið ný landsvæði og hefur þess lengi verið krafist að Ísrael léti hertekin svæði af hendi, án árangurs. Þegar sjálfsstjórnarsvæði Palestínumanna var stofnað undir lok síðustu aldar með samþykki Ísraels töldu margir stórt skref stigið og að friður hlyti að vera í augsýn. Seinna komu fram kröfur Palestínumanna um að stofna sjálfstætt ríki en þeim hefur enn ekki verið mætt þótt svo virðist sem fylgi við þá skoðun hafi farið vaxandi.

Herra forseti. Málefni Palestínu og Ísraels hafa verið í hámæli á alþjóðavettvangi í áratugi. Þar hafa stríð blossað upp margsinnis. Fátækt í Palestínu, lélegur aðbúnaður, skortur á menntun, matvælum og heilbrigðisþjónustu og þar með ónóg ungbarna- og mæðravernd með hryggilegum afleiðingum, ofbeldi og hryðjuverk hafa verið mikið áhyggjuefni. Jafnframt hefur það opnað augu manns fyrir því að við slík kjör er engum bjóðandi að búa.

Fyrr í þessum mánuði samþykkti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fyrir tilstilli Bandaríkjamanna ályktun þar sem í fyrsta sinn er talað um ísraelskt og palestínskt ríki í sömu andrá. Flestum hugsandi mönnum í heiminum hlýtur að vera sú ályktun fagnaðarefni.

Herra forseti. Deilur Ísraela og Palestínumanna verður að leysa á friðsamlegan hátt. Núverandi ástand er óþolandi og ógnar heimsfriði. Arabaríkin verða að viðurkenna Ísraelsríki og stofna þarf ríki Palestínu og viðurkenna það af heimsbyggðinni. Ég vil taka undir orð hæstv. utanrrh. hér fyrr á fundinum svo og undir ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og þá sýn að þessi tvö ríki megi þrífast hlið við hlið innan öruggra og viðurkenndra landamæra eins og haft er eftir Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Herra forseti. Sendiherra Palestínu telur meiri líkur á að menn setjist nú niður til viðræðna um frið þegar Bandaríkjastjórn hefur ákveðið að miðla málum. Hann er þess fullviss að Ísraelar muni ekki bera sigurorð af Palestínumönnum frekar en Palestínumenn geti unnið sigur á Ísraelum.