Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 12:08:04 (6517)

2002-03-22 12:08:04# 127. lþ. 103.3 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[12:08]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Við höldum áfram að ræða frv. til laga um breytingar á virkjanaröð sem tekur nafn af virkjunum Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar.

Ég held að óhjákvæmilegt sé í byrjun að fara nokkrum orðum um almennar aðstæður í málinu og vinnubrögðin sem þessu hafa tengst. --- Spurning er hvort ég mætti geyma bunkann minn hérna hjá forseta og fá hann síðan til afnota. Það vantar hér alveg stórlega pláss í ræðustólnum, herra forseti, ef maður ætlar að hafa eitthvað af gögnum við höndina svo orð sé á gerandi.

Í fyrsta lagi, herra forseti, ætti þetta frv. náttúrlega ekki að vera á dagskrá. Það er algjörlega augljóst mál að veigamiklar forsendur skortir til að ræða þetta hér. Og það er ljótur svipur á því fyrir hið háa Alþingi að allir horfi upp á það að verið sé að þröngva í gegn máli sem ætti að sjálfsögðu að bíða með þangað til hlutirnir skýrast. Við getum bara sett það í samhengi við almenna vinnu hér og almennt afgreiðslu mála, ef þannig háttar til að Alþingi er með í höndunum mikilvæg viðfangsefni og svo koma upp einhverjar aðstæður sem skapa óvissu um forsendur málsins. Er það þá venjan að menn láti sem ekkert sé og keyri hlutina áfram með þeim hætti sem hér á að gera? Nei, yfirleitt mundi maður treysta því að menn dokuðu við a.m.k. og skoðuðu sinn gang. Við höfum farið fram á að það verði gert í þessu máli en á það hefur ekki verið fallist og það segir auðvitað sína sögu. Það staðfestir að þetta mál er pólitískt í grunninn, það er keyrt áfram með pólitísku valdi, pólitískri valdbeitingu þegar á þarf að halda, og lýtur ekki lögmálum faglegrar eða vandaðrar málsmeðferðar. Þetta mál sem fjárfesting eða sem fyrirtæki er ekki á markaðslegum forsendum. Það er eiginlega alveg augljóst mál að ef markaðsöflin hefðu átt að sjá um málið ein og sér þá væri það ekkert á dagskrá í dag.

Þetta er rétt að menn hafi í huga, herra forseti. Þetta er pólitískt mál, var frá byrjun og er það enn. Það var utanrrh. hæstv., 1. þm. Austurl., sem ætlaði að koma með álver í föðurhendi til Austfirðinga og leysa allan þeirra vanda þar með. Boðaði fagnaðarerindið í aðdraganda eða nokkru fyrir alþingiskosningar 1999, eins og menn muna.

Síðan hefur allmikið vatn til sjávar runnið og ekki síst í farvegi Jökulsár á Brú eða Dal, sem er nú eitt af mestu stórfljótum landsins, og ýmislegt breyst. Aftur og aftur hafa tímaáætlanir raskast og forsendur í málinu breyst, sem segir sína sögu um hversu ótrúverðugur og ótraustur málatilbúnaðurinn var í byrjun, að upphafsáformin öll eru hrunin og horfin á öskuhaug sögunnar. En það eru prjónaðar nýjar og nýjar ermar á þá peysu til að reyna að halda málinu áfram.

Þetta minnir mann á það, herra forseti, hversu ótrúlega tilhneigingu sagan hefur til að endurtaka sig. Þetta er svo nauðalíkt atburðarásinni t.d. á níunda áratugnum þegar mikið brölt stóð í kringum álver við Eyjafjörð og þá var hópur manna sem tók trú á það fyrirbæri, var á góðri leið með að sannfæra sig um að Eyjafjarðarsvæðisins biði ekkert nema niðurlæging og vesöld nema þangað kæmi álver. Hópur forustumanna í héraði og pólitískir ráðamenn lágu í ferðalögum, þeim var flogið á einkaþotum milli landa til að fá smjörþef af dýrðinni. Þetta var gert þrátt fyrir að allan tímann lægi ljóst fyrir að grundvallarforsendur málsins skorti í raun og veru.

Það skorti í fyrsta lagi stuðning heimamanna því að heiftarlegar deilur risu strax í héraði og skoðanakannanir sýndu að a.m.k. helmingur ef ekki meiri hluti Eyfirðinga var á móti því að fá stórt, mengandi álver inn í þennan þrönga, fagra og staðviðrasama fjörð. Og það skorti líka allt sem við átti að éta, þ.e. einhvern raunverulegan áhuga erlendra aðila og trúverðugar forsendur fyrir málinu, og það hrundi að lokum ofan í sjálft sig og segir ekki af því meir, sem betur fer, því að þá gátu Eyfirðingar hætt að bíða eftir álverinu sem aldrei kom og snúið sér að öðrum hlutum.

Og hvað hefur sagan sannað á Akureyri og við Eyjafjörð? Hefur hún ekki sannað að hægt er að lifa á fleiru en álverum? Hægt er að efla byggð og gera góða hluti á fleiri vegu, t.d. með því að reyna að snúa vörn í sókn í þeim undirstöðuatvinnuvegum sem fyrir eru á svæðinu, og það hefur gerst þar í sjávarútvegi og að nokkru leyti í iðnaði á nýjan leik. Hægt er að byggja á menntun, rannsóknum og sérhæfðri þjónustu, háskóla, deildaskiptu sjúkrahúsi o.s.frv.

Næsta lota í þessum málum var Keilisnesævintýrið. Hvernig byrjaði það? Það byrjaði á því að menn fóru hringinn og buðu mönnum álver. Boðið var upp á álver á Akureyri og við Eyjafjörð. Boðið var upp á álver við Húsavík, á Reyðarfirði, gott ef ekki fleiri stöðum. En að lokum var borið niður á Keilisnesi og þar átti að reisa risaálver. Og þar var nákvæmlega sama uppi á teningnum. Hópur heimamanna í héraði tók mikla trú á fyrirbærið, fasteignaverð fór að hækka á Vatnsleysuströnd og menn fóru í leiðangra. Menn fóru til Svíþjóðar að skoða aðstæður hjá Gränges. Menn fóru til Hollands að skoða hjá Hoogovens og menn fóru vestur til Kanada því að þessir aðilar ætluðu að leggja í púkk.

[12:15]

En svo fóru tímaáætlanir að bresta og það vantaði grundvallarforsendur málsins. Menn börðu höfðinu við steininn og skrifuðu jafnvel undir viljayfirlýsingar eftir að ljóst var að enginn áhugi var lengur hjá hinum erlendu aðilum á að byggja neitt álver. En sjálfsblekkingin komst á það stig að menn börðu höfðinu við steininn fram í rauðan dauðann og neituðu að horfast í augu við staðreyndir.

Svipað má svo segja að nokkru leyti um Fljótsdalsáætlanirnar, fyrstu Noral-áformin sem byggðu á hugmyndum um minna álver og virkjun Jökulsár í Fljótsdal. Það fór eins og það fór og allir muna. Og nú erum við þannig stödd að aftur og aftur bresta tímaáætlanir í þessu seinna Noral-verkefni og eina ferðina enn er komin upp óvissa um það hvort tímarammar haldi, svo ekki sé nú talað um málið sjálft, hvort raunverulega séu einhverjar efnislegar undirstöður undir því að ráðist verði í þessar framkvæmdir. Svona lítur þetta nú út, herra forseti, og áfram aðeins í sögunni.

Hv. þm. Hjálmar Árnason, formaður iðnn., hefur bæði í framsöguræðu sinni á Alþingi sem mun hafa verið flutt í gær og í fjölmiðlum farið mikinn í, svo vægt sé til orða tekið, ákaflega einhliða og einlitum áróðurssöng sínum fyrir þessari framkvæmd. Hv. þm. hefur gengið svo langt að hann hefur í raun skrifað allan hagvöxt og alla velmegun á Íslandi í ein hundrað ár á reikning þess sem hann kallar rafvæðingar landsins og stóriðjunnar. (HjÁ: Er það nú alveg rétt?) Já, það var nú nærri lagi hér í gær, hv. þm. Að vísu kom hv. þm. í ræðustól þegar honum var bent á að kannski hefði sjávarútvegurinn skipt einhverju máli og útfærsla landhelginnar og aðrir slíkir hlutir. Jú, hv. þm. tók undir það. En hann mundi lítið eftir því þegar hann fór hamförum hér í því að gylla það sögulega séð hvað stóriðjuuppbyggingin hefði verið gríðarlega mikilvæg.

Fegurstum orðum fór þó hv. þm. um byggingu Búrfellsvirkjunar og álverið í Straumsvík og hafði háðuleg orð um þá sem á sínum tíma hefðu haft efasemdir eða lagst gegn þeim áformum. Talað var um heimsósómatal eða heimsendaspár. Hv. þm. reyndi, og það hafa fleiri gert, að draga upp eitthvert samasemmerki á milli þeirra sem á sínum tíma höfðu efasemdir eða lýstu andstöðu við upphaflegu samningana um álverið í Straumsvík og byggingu Búrfells og þeirra sem nú eru í pólitík og nú eru á dögum og andæfa áformum um virkjun við Kárahnjúka. Það leyndi sér ekki að hv. þm. var að reyna að skrifa málflutning manna fyrir áratugum síðan með vissum hætti á kostnað þeirra sem nú standa kannski í sambærilegum sporum en eru að sjálfsögðu aðrir stjórnmálamenn á öðrum tíma og við aðrar aðstæður.

Þetta er nú heldur ómerkilegur málflutningur, herra forseti, því að hvert mál lýtur sínum efnislegu lögmálum og er í samhengi þess tíma sem það er statt í þannig að svona aðferð í málflutningi og röksemdafærslu dæmir sig sjálf, gefur sjálfri sér falleinkunn.

Það versta er þó ef menn vita ekki hvað þeir eru að tala um, ef menn hafa bara alls ekki þekkingu á því, hafa ekki hirt um að setja sig inn í málin, og það fullyrði ég að hv. þm. Hjálmar Árnason hafi ekki gert. Það getur ekki verið að hv. þm. Hjálmar Árnason þekki þessa sögu um Búrfellsvirkjun og álverið í Straumsvík eins og hún í reynd er, því að þá mundi hv. þm. örugglega ekki tala eins og hann gerði. Þess vegna, herra forseti, ætla ég aðeins að hlaupa yfir þessa sögu. Kannski ég fái nú bunkann minn því að ég ætla að sækja mér í hann svolítið hráefni. Ég held að það veiti ekkert af að gerð sé tilraun til þess að setja hlutina í eitthvert samhengi. Ég geri það að sjálfsögðu á minn hátt og aðrir geta þá bætt um betur eða gert athugasemdir við það, allt eftir því sem þeim finnst við eiga.

Herra forseti. Það var á miðjum eða öndverðum sjöunda áratugnum sem menn fóru að leggja drög að samningum, þ.e. að fyrirtækið Alusuisse fékk allt í einu áhuga á Íslandi. Það er til skemmtileg frásögn af því hvernig það gerðist. Tveir höfðingjar, Müller og Mayer voru staddir í flugvél sem var að fljúga yfir pólinn og þá opnaðist allt í einu gluggi niður úr skýjunum og þeir sáu land, snævi þakið og jöklum, og hugsuðu méð sér: ,,Heyrðu, það hlýtur að vera heilmikil orka þarna á þessu landi. Væri ekki sniðugt að kíkja á þetta? Það heitir víst Ísland.`` Og af því varð síðan mikil saga.

Það var farið í að skoða málið og þeir bönkuðu hér upp á, þessir menn, forstjórar eða ráðamenn fyrirtækisins Alusuisse, sem er svissneskur álframleiðandi, nokkuð stór. Og það hófust viðræður milli íslenskra aðila, viðreisnarstjórnarinnar sem þá sat að völdum og þessa erlenda álfyrirtækis og leiddu að lokum til samninga og lagasetningar á Alþingi um álver í Straumsvík og byggingar Búrfellsvirkjunar.

Hvernig var það nú, herra forseti? Var þetta svona rósum baðað eins og hv. þm. Hjálmar Árnason ímyndar sér að það hafi verið og gengur út frá í máli sínu, að þetta hafi verið svo óumdeilt og glæsilegt mál frá byrjun að ekki þurfi um að deila? Gullmola eða -kvörn held ég að hv. þm. hafi kallað Búrfellsvirkjun og fór miklum og hátíðlegum orðum um hinn góða vinnustað álverið í Straumsvík, og má til sanns vegar færa hvort tveggja.

En er ekki eitthvað fleira í þessari sögu en það að við Búrfell var hagstæður virkjunarkostur? Álverið í Straumsvík er í dag að mörgu leyti prýðilegur vinnustaður og hefur farið batnandi, verulega batnandi miðað við það sem var í byrjun þegar þar voru opin ker, mikil loftmengun og fleira mætti tína til. Jú, það er meira í þessari sögu, herra forseti. Trúboðendur stóriðju á Íslandi í dag ættu a.m.k. að varast að verða sér til skammar með því að afhjúpa algjöra vanþekkingu á bakgrunni og sögu þessara mála, en það tel ég að hv. þm. Hjálmar Árnason hafi gert.

Hv. þm. skautaði algjörlega yfir þá hluti sem lúta að viðskiptum Íslendinga og þessa álfyrirtækis, Alusuisse. Hann skautaði yfir deilurnar um raforkuverðið, yfir erfiðleika Landsvirkjunar sem var að fara á hausinn vegna þess að hún fékk svo lítið fyrir rafmagnið og hann skautaði yfir svindlið sem fyrirtækið var staðið að, þ.e. að hafa haft milljarða á núgildandi verðlagi af íslenska þjóðarbúinu í skatttekjum sem okkur réttilega báru, með því að svindla, með því að hækka aðföngin í hafi á leiðinni frá Ástralíu til Íslands og með fleiri ráðstöfunum fela hagnaðinn og koma honum með ólögmætum hætti úr landi. Við skulum aðeins fara yfir þessa sögu því að það kann að vera hollt fyrir þá menn sem véla um í dag að reyna þá að forðast að gera sömu mistökin, sömu mistökin og gerð voru í samningunum við Alusuisse á sínum tíma, 1964--1965, og reyndar sömu mistökin og gerð voru aftur í samningum við norska fyrirtækið Elkem um járnblendiverksmiðju á Grundartanga. Af því að sagan hefur þessa undarlegu tilhneigingu til að endurtaka sig þá er maður órólegur þegar maður sér menn koma gjörsamlega heittrúaða og sannfærða þannig að engar efasemdir komast að um að þeir séu að gera rétt og þeirra málstaður sé lýtalaus og óaðfinnanlegur.

Veit hv. þm. Hjálmar Árnason hvert upphafsverðið á rafmagni frá Búrfellsvirkjun til Alusuisse var? Veit hv. þm. það? Ég er ekki viss um það. Það voru 3 mill, 3/1000 úr dollara. Það var nú allt og sumt. Eru það ekki 30 aurar í dag? Jú. Vissulega hefur verið ákveðin alþjóðleg verðrýrnun á þessum tíma sem við skulum taka inn í myndina. En þá kemur nú að öðrum þætti. Samningurinn var svo forkostulega gerður að það voru engar verðtryggingar í honum, engar. Þó að hann tæki mið af dollar þá rýrnaði hann því jafnt og þétt um verðbólgu í Bandaríkjunum eða alþjóðlega verðrýrnun sem dollarinn tók á sig. 3 mill á kílóvattstund var upphafsverðið.

Þessir samningar reyndust Íslendingum svo dýrkeyptir að eins og áður sagði var Landsvirkjun við það að fara á hausinn á árunum áður en tókst að knýja þarna fram leiðréttingar. Aftur og aftur á áttunda áratugnum varð að hækka raforkuverð til almennings sérstaklega til þess að Landsvirkjun réði við skuldbindingar sínar. Þessu geta menn flett upp ef þeir trúa því ekki. Enda segir það sig sjálft að þetta hörmulega orkuverð án nokkurra verðtrygginga bar dauðann í sér.

Í tengslum við stækkun álversins í Straumsvík á árunum 1974--1975, þ.e. einum sex, sjö árum eftir að það tók til starfa --- það tók til starfa 1969 --- náðist fram hækkun á orkuverðinu í 6,5 mill. Og við það sat alveg fram um 1980 og reyndar í aðalatriðum alveg til 1984 þegar stóra stökkið náðist í leiðréttingu á orkuverðinu.

Platan hjá þeim sem vörðu þessa samninga á sínum tíma var sú að samningurinn væri svo góður, að upphafssamningurinn væri svo góður að hann mundi borga sig upp á 19 árum. Íhaldið stóð hér í ræðustólnum, hvort sem það var nú þessi eða annar og eldri panell, og þandi sig með það að samningurinn væri svo góður að Búrfellsvirkjun mundi borga sig á 19 árum. Annað kom á daginn. Landsvirkjun var að sligast undan þessum samningi enda voru hlutirnir þannig í pott búnir að þegar verst lét fóru tekjurnar sem Landsvirkjun fékk af orkusölunni til Straumsvíkur niður í 20% af heildartekjum fyrirtækisins þó að Alusuisse væri að kaupa helminginn eða meira en helminginn af orkunni. Fyrsta heila árið sem rafmagn var selt til Straumsvíkur skilaði það 55% af tekjum Landsvirkjunar. En þetta hlutfall fór niður í 20% árið 1975 og hafði þá ekki orkunotkun í landinu aukist að neinu ráði þannig að hlutföllin í orkunotkuninni voru í aðalatriðum óbreytt. Stóriðjan ein tók þessa miklu orku frá þessari langstærstu virkjun þjóðarinnar, sem var. En hún borgaði bara 20% af verðinu sem greitt var fyrir rafmagn á Íslandi árið 1975. Þetta hlutfall rokkaði þarna á bilinu kannski 20--34% á árabilinu 1973, 1974 og fram um 1980. Árið 1981 var þetta hlutfall 24,5%, tæpur fjórðungur, og um 20% aftur í árslok 1982. En þá var búið að hækka verðið til almenningsveitna ítrekað umfram verðlag til þess að reyna að rétta af stöðu Landsvirkjunar og var í reynd með því augljóslega verið að brjóta lögin sem segja og sögðu þá eins og þau gera enn í dag, að óheimilt væri að hækka verð til almennings vegna framleiðslu til stóriðju.

Upphafssamningurinn um Búrfell var þannig að hann var til mjög langs tíma, sumpart til 45 ára ef ég man rétt. Alla vega man ég að í ræðustóli á Alþingi gerði Einar Olgeirsson þá athugasemd að hann teldi að Alþingi hefði ekki leyfi til þess að hneppa þjóðina í slík ólög til svona langs tíma. Önnur ákvæði samningsins voru til 25 ára. Ég held að raforkuverðið hafi a.m.k. verið alveg bundið í 25 ár og það var þetta hörmulega lága upphafsverð sem ég hef hér farið yfir.

Það er ekki fyrr en ný ríkisstjórn er tekin við völdum 1980 að skriður kemst á þessi mál enda sáu allir að það var algjörlega knýjandi og brýnt að ná þarna breytingum fram. Almennir orkunotendur í landinu voru að kikna undan byrðunum af því að borga niður fjárfestingarnar vegna stóriðjunnar. Og þá gerist það að það tekst að sanna á fyrirtækið þetta svindl. Það kemur í ljós að fyrirtækið er ekki barasta að fá niðurgreiðslur á orkunni í landinu heldur svindlar það og borgar ekki eðlilega skatta af þeim hagnaði sem með réttu hefði átt að telja fram hér á Íslandi. Það gerði það þannig að það falsaði tölur um verð á súráli og þegar því var skipað upp í Straumsvík og það talið fram til skatts á Íslandi þá var það orðið miklu dýrara en það hafði raunverulega verið keypt á á grundvelli leynisamninga niðri í Ástralíu. Þetta fékk á sig heitið ,,hækkun í hafi`` og varð frægt mál.

[12:30]

Á þágildandi verðlagi kom í ljós að fyrirtækið Alusuisse hafði snuðað íslenska ríkið um 10 millj. dollara. Í tengslum við þetta brot á samningnum sköpuðust aðstæður til að krefja fyrirtækið um breytingar á honum, þar með talið á raforkuverði. Fyrirtækið þverskallaðist við, málinu var skotið í gerðardóm í New York og það var orðið bundið í þessum gerðardómi sem betur fer þegar stjórnarskipti urðu 1983. Íhaldsframsóknarstjórnin sem tók við gat því ekki losað málið út úr dómnum og allir vissu að það var gjörunnið fyrir íslenska ríkið. Engu að síður valdi sú stjórn að gera dómsátt en hún fól þó í sér tvöföldun til þreföldun á raforkuverðinu sem stóð, eins og áður sagði, í 6,5 eða kannski rúmlega 7 mill, fór í 12,5--18,5 eftir því hvernig heimsmarkaðsverð á áli þróaðist.

Tvöföldun til þreföldun á beinum tekjum Landsvirkjunar vegna orkusölu til Straumsvíkur náðist í gegn þarna. Og það er einn maður öllum öðrum fremur sem á heiðurinn af því, og hann heitir Hjörleifur Guttormsson. Hann stóð í þessum slag við risann og vann. Fyrirtækið Alusuisse var neytt til þess að greiða stórhækkað raforkuverð og fara að hafa rétt við í sambandi við skattgreiðslur til íslenska ríkisins.

Þetta geta glöggir menn síðan reiknað, og það var gert fyrir allmörgum árum. Þá stóð það á þágildandi verðlagi, ef ég man rétt, í 8 milljörðum sem Landsvirkjun var búin að fá í viðbótartekjur vegna þess að það tókst að brjóta upp hörmungarsamningana frá 1965 og knýja fram hækkun á orkuverðinu. Það er sennilega á bilinu 15--20 milljarðar á núgildandi verðlagi. Ég tek þó fram að ég hef þá fyrirvara á þessum tölum að ég hef ekki haft tíma til að reikna þær nákvæmlega. En ég skýt því svona fram að það gæti a.m.k. verið af þeirri stærðargráðu sem Landsvirkjun er búin að fá í hreinar viðbótartekjur því að fasti kostnaðurinn er nákvæmlega sá sami. Til viðbótar er íslenska ríkið án nokkurs vafa búið að fá talsverðar viðbótarskatttekjur vegna þess að flett var ofan af svindlinu.

Er ekki svolítið brothætt hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni að tala eins og hann gerði í gær og hefur gert í fjölmiðlum, að láta annaðhvort eins og hann viti ekki af þessari sögu eða kannski bara að sanna að hann þekki hana ekki? Hann þekkir ekki betur en þetta til málanna sem hann er að tala um. Hann skautar yfir þetta allt. Hver er svo rúsínan í pylsuendanum, herra forseti? Hv. þm. Hjálmar Árnason er núna í Framsfl. og talar sem sanntrúaður framsóknarmaður og ekki drögum við það í efa --- það er framsóknarmaðurinn Hjálmar Árnason, þingmaður Reyknesinga, sem fór þessum hörðu orðum um þá sem höfðu efasemdir og spyrntu gegn hörmungarsamningnum um álverið í Straumsvík á sínum tíma. Munum eftir því. Rúsínan í pylsuendanum er auðvitað sú að Framsfl. var á móti samningnum 1965. Hjálmar Árnason er að reka rýtinginn í bakið á öllum þeim ágætu þingmönnum Framsfl. sem stóðu í lappirnar og greiddu atkvæði gegn hörmungarsamningnum, raforkuverðinu og öllu því á sínum tíma, undir forustu Eysteins Jónssonar. Og þá verð ég að segja að lítið verður úr kappanum Hjálmari Árnasyni þegar hann er settur í þetta sögulega samhengi og stendur eins og peð við hliðina á risanum Eysteini Jónssyni. Sá stóð í lappirnar, var framsýnn maður sem reyndi að gera Framsfl. að grænum flokki fyrir 20--30 árum. Því verki reyndi seinni formaður Framsfl., Steingrímur Hermannsson, að halda áfram. En hvar er Framsfl. nú staddur í þessum efnum?

Undirlægjan er algjör, umhverfisviðhorf flokksins eru forneskja. Framsókn er orðin að hægri sinnuðum Evrópukratastóriðjuflokki. Hann er það. Hann hefur gjörsamlega skautað yfir sögu sína og lítilsvirðir minningu fyrrverandi foringja sinna og afstöðu þeirra á Alþingi. Það gerir hv. þm. Hjálmar Árnason og það er sjálfsagt órólegt í gröfunum víða þegar hv. þm. talar um málin eins og hann gerir hér. (ÍPG: Talar fornleifafræðingur?)

Herra forseti. Árið 1965, 23. apríl, voru í þessum sal greidd atkvæði um lagafrv. um álbræðslu við Straumsvík. --- Stundum er sagt að menn snúi sér við í gröfinni, og það þykir ekki dónalegt að taka svo til orða, hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason. Það var til þess sem ég var að vísa. Mér þykir ekki ólíklegt að ýmsir framliðnir mætir framsóknarmenn næstum snúi sér við í gröfinni þegar þeir heyra fjallað um söguna með þessum hætti sem hv. þm. Hjálmar Árnason hefur gert hér. --- Þá voru þannig greidd atkvæði að þingmenn viðreisnarflokkanna, sem báru auðvitað málið fram sem stjfrv., greiddu því atkvæði en nei sögðu allir þingmenn Alþýðubandalagsins og þingmenn Framsfl. aðrir en Björn Pálsson og Jón Skaftason sem sátu hjá. En nei sögðu Ágúst Þorvaldsson, 2. þm. Suðurl., faðir núv. landbrh., Björn Fr. Björnsson, 4. þm. Suðurl., Einar Ágústsson, 11. þm. Reykv., Eysteinn Jónsson, 1. þm. Austurl., Hjörtur Eldjárn Þórarinsson frá Tjörn í Svarfaðardal sem þá sat á þingi sem varaþingmaður, Halldór E. Sigurðsson, 3. þm. Vesturl., Sigurvin Einarsson, 3. þm. Vestf., Vilhjálmur Hjálmarsson sem þá sat á þingi sem varaþingmaður fyrir Austurland og Þórarinn Þórarinsson, 5. þm. Reykv.

Þessir ágætu framsóknarmenn greiddu allir atkvæði gegn samningnum og eiga heiður skilið fyrir það. Og þeir gerðu það vegna þess að þeir sáu að hann var vondur. Hann var ekki í þágu íslenskra hagsmuna enda hefði íslenska þjóðarbúið farið illa út úr þeim hlutum ef ekki hefði, þótt seint væri, tekist að leiðrétta þessi mistök. Og það var ekki sjálfgefið að það tækist en aðstæður til þess sköpuðust vegna þess að fyrirtækið var staðið að svindli, eins og ég hef áður farið yfir.

Þarf nú ekki hv. þm. Hjálmar Árnason að endurskoða aðeins söguþekkingu sína að þessu leyti og taka öðruvísi til orða um þessi mál? Ég held það. Ég held að það væri hyggilegt af hv. þm. Út af fyrir sig getum við farið betur yfir hlutina ef hv. þm. hefur áhuga á því. Það er sjálfsagt að lengja þennan fyrirlestur, þetta smánámskeið fyrir framsóknarmenn í sögu síns eigin flokks, ef þeir vilja meira. Af nógu er að taka. Svona er þetta, herra forseti.

Í öðru lagi og þriðja, herra forseti, finnst mér nauðsynlegt í þessu máli að vera vel á verði gagnvart því hvernig hlutirnir eru lagðir upp af hálfu okkar Íslendinga. Ég er í engum vafa um að mistökin sem menn hafa aftur og aftur gert eru ekki bara vegna þess að menn eru glámskyggnir, klaufar, aular og láta plata sig í samningum. Þau eru vegna þess að nálgunin er röng, hugarfarið er vitlaust. Menn mæta á hnjánum í örvæntingu, þeirri trú að þeir verði að fara bónarveg að samstarfsaðilum sínum, biðja þá að koma, hafa allar gáttir opnar og lýsa því í raun og veru yfir fyrir fram að bara ef menn vilji vera svo góðir að koma og gera eitthvað séu þeir velkomnir. (ÍGP: Þeir eru eins og Sovét og Pólland.) Rafmagnsverðið og umhverfismálin, skattamálin og annað því um líkt séu aukaatriði.

Já, hv. þm. nefnir Sovét og Pólland. Það var gott að hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason sem mér heyrðist kominn í Evrópusambandsklúbbinn áðan --- ég get ekki óskað honum til hamingju með það enda sá ég að hæstv. landbrh. var fölur sem nár þegar menn töluðu hér, óbreyttir liðsmenn Framsfl., og virtust heldur vera að hallast að Evrópulínu formannsins. Sovét og Pólland, já. Er ekki einmitt hægt að læra ýmislegt af mistökunum þar? (ÍGP: Og leggja niður Alþýðubandalagið.) Gerðu menn ekki heilmikil mistök? Ja, það á nú að leggja niður Framsfl. líka með því að ganga inn í Evrópusambandið, það var upplýst hér áðan. Það var upplýst áðan að Framsókn mundi þá heyra sögunni til því að menn yrðu að ganga í hinn evrópska miðjuflokk.

Ég held nefnilega að þessi risaáform við Kárahnjúka og risaálverið á Reyðarfirði séu angi af nákvæmlega sömu feilhugsuninni og menn gerðu sig stundum seka um þarna eystra. Það átti að leysa hlutina með gríðarlegum verksmiðjum sem miðstjórnarvaldið tæki ákvörðun um að setja hér, eða þar. Opinbert fé væri notað eftir þörfum og pólitískt vald sömuleiðis til að drífa hlutina áfram.

Mönnum getur yfirsést og mistekist eins og dæmin sanna. Kárahnjúka- og Reyðarálsverkefnið er langstærsta ríkisframkvæmd sem verið hefur á dagskrá á Íslandi, a.m.k. á seinni áratugum ef ekki í allri sögu þess. Það er algjörlega ljóst. Og þetta er ekkert annað en pólitískt ríkisframtak. Það byrjaði þannig, það hefur verið rekið þannig áfram og ef það yrði að veruleika mundi það enda þannig. Hálfopinberir og opinberir aðilar bæru hitann og þungann af verkefninu, stæðu á bak við fjárfestinguna, væru ábyrgir, ríkið, Reykjavíkurborg, Akureyri og jafnvel lífeyrissjóðir landsmanna. Varla er hægt að geirnegla þetta betur þannig að það er svoleiðis gjörsamlega augljóst mál að hvað sem á dyndi yrðu menn að halda þessu á floti með peningum skattborgaranna eða í gegnum rafmagnsreikningana til almennings. Á þessum herðum hvílir áhættan.

Já, herra forseti, ég held að það sé hugarfarið. Ég held að það sé þessi nauðhyggja álstóriðjusinna sem villti mönnum sýn á sjöunda áratugnum og þeim áttunda þegar þeir gerðu mistökin í sambandi við upphaf samninganna um álverið í Straumsvík og hliðstæð mistök í samningum um járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga, sem hefur auðvitað borgað dapurlega lágt rafmagnsverð lengst af, og íslenska ríkið hefur þurft að endurfjármagna aftur og aftur. Það er reiknað í nokkrum milljörðum sem hefur verið borgað þangað inn. Það er vegna þess að menn nálguðust þetta frá röngum sjónarhóli og lögðu ekki réttar grundvallarforsendur undir verkefnin, að þau sem slík stæðust hjálparlaust, væru sjálfala, sjálfbær, og að ekki þyrfti að knýja þau áfram með opinberum tilstyrk eða meðgjöf.

Þetta, herra forseti, þurfum við að geta rætt einarðlega og haldið aðgreindu frá því að viðkomandi vinnustaðir eru góðir vinnustaðir í dag og þar vinnur afbragðsstarfsfólk og hefur ágæt laun. Það er bara allt annað mál. (Gripið fram í: Er það ekki slæmt?) Það er nefnilega ekki slæmt, það er gott í sjálfu sér. En sú staðreynd ein og sér, eða það mat okkar í dag, breytir ekki sögunni, breytir ekki því liðna, þeim staðreyndum sem ég hef hér farið yfir varðandi það hvernig þetta stóð gagnvart þjóðarbúinu á sínum tíma og því sem menn mættu í gegnum þessa samninga.

Auðvitað er Búrfellsvirkjun smátt og smátt sem afskrifað mannvirki að verða hin ágætasta gullkvörn. Það er að sjálfsögðu rétt þegar búið er að borga niður lánin og það hafa almennir notendur gert í verulegum mæli. Stóriðjan hefur auðvitað gert það líka, einkum eftir að tókst að hækka rafmagnsverðið. Og þannig er það náttúrlega með aðrar slíkar framkvæmdir, þegar menn hafa borgað niður stofnkostnaðinn eru þær, ef allt gengur vel, hin þörfustu og mætustu fyrirbæri. Og það er hverju orði sannara að hagkvæmar vatnsaflsvirkjanir hverra rekstur gengur vel eru einhverjar mestu gullkvarnir sem til eru. Það þekkja menn vítt um land, bændur og aðrir sem hafa reist smáar virkjanir. Eins og einn ágætur vinur minn fyrir norðan orðaði það: Eftir að ég er búinn að borga niður virkjunina þarf ég ekki að gera annað en skipta um legur á tíu ára fresti. Að öðru leyti hef ég ókeypis rafmagn.

[12:45]

Það er t.d. alveg ljóst að Laxárvirkjun var orðin að algerri gullkvörn í höndum Akureyringa þegar þeir gerðu, að mínu mati, þau reginmistök að setja hana inn í Landsvirkjun. Sogsvirkjanirnar voru geysilega hagkvæmar og þjónuðu Reykvíkingum vel, enda var auðvitað borið niður þar sem hvað ódýrast og einfaldast var að virkja. Þetta eru góðar virkjanir, beinar rennslisvirkjanir í ám með jafnt rennsli, Laxá og Soginu sem báðar eru miðlaðar gegnum stöðuvötn. Það er ekki að spyrja að útkomunni í slíkum tilvikum.

En ruglum þessu ekki saman við það að sagan geymir hluti sem við getum lært af, dýr mistök sem menn gerðu í samningum og samskiptum við erlenda aðila, blindaðir af glýjunni um að þetta væri það eina sem gæti orðið þeim til bjargar. Er nema von að þannig fari, herra forseti, þegar hugarfarið er eins og t.d. það var þegar menn gáfu út þennan bækling hér, þennan fræga bækling sem var tekinn úr umferð og er næstum því jafnverðmætur safngripur og ónefnd eintök af Speglinum, af því að höfundarnir vilja nú lítið við hann kannast. Lægsta raforkuverð í Evrópu, stendur á forsíðu: ,,Lowest energy prices in Europe``, stóð þar.

Meira var í þessum ágæta kynningarbæklingi sem Markaðsskrifstofa ríkisins eða ráðuneytis og Landsvirkjunar, eða hvað það nú var, MIL, gaf út á sínum tíma. Mér er sagt að náðst hafi að innkalla þennan bækling eiginlega alls staðar nema í sendiráðinu í Washington, þar muni eitthvert upplag hafa verið í umferð mun lengur en annars staðar. Á þessu kann ég ekki skýringar.

En í bæklingnum er gengið lengra. Því er t.d. lofað að það sé ekkert verið að þvælast fyrir mönnum með umhverfiskröfur, ef þeir vilji vera svo góðir að koma til Íslands og reisa þar stóriðju þá fái þeir ekki bara lægsta raforkuverð í Evrópu --- það er fín samningsstaða að gefa það út fyrir fram, er það ekki? --- heldur sé ,,minimum of red tape``. Það er sem sagt ekki verið að þvælast fyrir mönnum með miklum umhverfiskröfum eða öðrum kröfum sem svona starfsemi þarf að uppfylla, bara ef þið komið.

Svo er talað um launin. Það vantar nú ekki. Í boði eru einhver lægstu laun í Evrópu þannig að álfyrirtækið eða stóriðjufyrirtækið þarf ekki að hafa áhyggjur af því að kröfuharðir menn verði með kjaft og ætli að heimta hátt kaup því að það er búið að segja þeim það í bæklingnum að ef þeir komi þá fái þeir einhver lægstu laun sem þekkt séu á byggðu bóli, og að sérstaklega sé allur launatengdur kostnaður algjörlega í lágmarki, sem er út af fyrir sig rétt og liggur fyrir samkvæmt skattalögum.

Fleira er stórkostlegt í þessum bæklingi, herra forseti, eða öllu heldur sorglegt, því að auðvitað er það neðan við allar hellur að menn skuli leyfa sér að láta svona frá sér fara í nafni þjóðarinnar í raun og veru. Það er yfirgengilegt, herra forseti, að svo seint sem í janúar 1995 fór þetta í prentun, þar sem Ísland er falboðið erlendum auðhringum eins og þriðja heims ríki sem gerir hvað sem er til þess að fá einhverja erlenda fjárfestingu til sín. Það er lofað svo gott sem lægsta rafmagnsverði á byggðu bóli. Það er lofað því að vera ekki með umhverfiskröfur sem valdi mönnum erfiðleikum. Það er lofað lágum launum o.s.frv. Er þá von að menn geri góða samninga? Er ekki von að menn segi: ,,Já heyrðu, kíkjum þarna á Ísland. Það er nú ansi áhugavert. Þeir bara svo gott sem lofast til að gefa okkur rafmagnið og að vera ekkert að þvælast fyrir okkur með umhverfismál og annað í þeim dúr.``

Herra forseti. Menn byrja samningana með öðrum orðum á hnjánum. Það er auðvitað það sem hefur gerst, því miður. Aftur og aftur hafa menn gengið til svona leiks, verið búnir fyrir fram að taka sig alveg gjörsamlega niður að gólfinu.

Þessi bæklingur, þessi frægi safngripur hér var afturkallaður. Hann hvarf. Ég tel það nú ekki þakkarvert. (ÍGP: Saknarðu þess?) Menn skömmuðust til þess að taka hann úr umferð því að einhverjir urðu auðvitað til þess að benda þeim á að þetta væri nú ekki mjög gáfulegt.

En hefur svo mikið breyst? Hefur mikið breyst? Nei. Það nefnilega er það sorglega. Ég er hér með næsta eintak eða eitt af nýlegri eintökunum. Kápan er sömuleiðis mjög falleg. Það er glæsileg mynd af höfuðborgarsvæðinu á forsíðu, staðsetning á Íslandi, vaxtarmöguleikar og það er Fjárfestingarskrifstofan sem gefur út.

Ég fór að fletta þessu og bera saman, herra forseti. Það er vissulega búið að ritskoða aðeins orðalagið. Það er ekki lengur lofað lægsta orkuverði í Evrópu. En tónninn er gefinn í þá átt. Það er talað um mjög samkeppnishæft orkuverð. Svo er talað um hreint, náttúrulegt umhverfi. Því er lofað þeim sem kynnu að vilja koma til landsins og menga það svolítið. Reyndar er líka talað um lýðræðislegt og stöðugt stjórnmálaumhverfi. Það má kannski segja að það hafi verið stöðugt síðustu tíu, ellefu árin, sami forsrh. En hefur það að öllu leyti verið svo lýðræðislegt? Um það er nú deilt.

Herra forseti. Þegar þessu er flett betur sést að verið er að reyna að gera það fýsilegt á alla enda og kanta að koma til landsins og það er gengið mjög langt í því að segja það fyrir fram að Íslendingar verði nú viðráðanlegir í öllum samningum og hvað alla kröfugerð snertir. Hér er t.d. talað um umhverfismál og að það kunni að þurfa umhverfismat. ,,Environmental impact assessment may be required.`` En það er hægt að fá góða ráðgjafa til að leysa þau mál, segir svo í næstu setningu.

Nú, það vantar ekki, sem er sjálfsagt rétt að nokkru leyti, að hér sé menntað vinnuafl og mjög vinnufúst. Og svo kemur það: ,,Competitive labour costs.`` Þeir eru líka viðráðanlegir í samningum, þessir launamenn á Íslandi, ekki mjög kröfuharðir. Þar eru mjög samkeppnisfær laun, já.

Fleira er á þessum nótum, herra forseti. Orkulindir landsins bara eins og þær leggja sig eru falboðnar. Það er sagt að Ísland sé eina landið í Vestur-Evrópu sem enn þá eigi miklar orkulindir sem séu mjög hagkvæmar til að virkja og svo sé jarðhitinn þar að auki sem eigi eftir að virkja, vel að merkja, ,,remaining to be harnessed``. Það á virkja það sem sagt. Það á bara eftir að gera það. ,,Komið þið. Okkur vantar menn til að virkja.`` Það er tónninn í þessu. Aftur og aftur er talað um mjög samkeppnishæft eða samkeppnisfært orkuverð sem þegar hafi dregið að sér nokkra erlenda fjárfesta. Talað er um 30 gígavattstundir í rafmagni og síðan jarðhitann til viðbótar.

Svo kemur nú rúsínan í pylsuendanum, herra forseti, sem ágætt er að hafa í huga þegar við erum að ræða hana Kárahnjúkavirkjun með öllum þeim hrikalegu umhverfisspjöllum sem henni fylgja. Mér þykir leitt að hafa ekki haft tíma til að þýða þetta allt saman á góða íslensku. En hér segir, með leyfi forseta:

,,Bæði vatnsafl og jarðhiti eru endurnýtanleg eða sjálfbær og`` --- þetta treysti ég mér nú eiginlega ekki til að þýða. Ég held að það verði að hljóma á frummálinu --- ,,supremely environmentally friendly/,,green``.``

,,Supremely environmentally friendly/,,green````, þ.e. að orkan okkar íslenska sé ekki bara vistvæn, hún er alveg súper ... (Gripið fram í: Einkar.) einkar umhverfisvæn. Ég þakka hv. þm. Hún er einkar umhverfisvinsamleg, environmentally friendly, /græn.

Við erum með öðrum orðum að reyna að telja útlendingum trú um það t.d. að ef við færum í Jökulsá á Fjöllum eða Kárahnjúkavirkjun þá séum við með einkar umhverfisvinsamlega framkvæmd, græna framkvæmd.

Er þetta nú ekki innstæðulaust? Er þetta ekki villandi? Er ekki verið að reyna að lokka menn til landsins á fölskum forsendum? Ég segi jú. Þetta er auðvitað áfram ósæmandi framsetning mála. Ég mótmæli þessu fyrir hönd þjóðarinnar, því að þeir menn sem eru á roklaunum við að selja landið geri það með þessum hætti. Þessi bæklingur á líka að fara úr umferð og höfundarnir eiga að skammast sín. Það á ekki að standa svona að málum.

Það er allt annar hlutur að kynna Ísland og kosti þess málefnalega og heiðarlega en að lofa svona hlutum upp í ermina á sér og vera með rangar fullyrðingar af því tagi að öll íslenska vatnsorkan og jarðorkan sé einkar umhverfisvinsamleg og græn. Það er rangt. Það er það.

Mundi einhver heilvita maður reyna að halda því fram (Gripið fram í.) að ef við t.d. gengjum svo langt að taka Jökulsá á Fjöllum eða Hvítá með Gullfossi og virkja hana þá væri það einkar umhverfisvinsamlegt og grænt? Eða eru menn tilbúnir til að fara inn á sérstæðustu háhitasvæðin og reisa þar mannvirki, leggja þar vegi, leggja þar pípur o.s.frv.? Ég efast um það. (Gripið fram í: Framsókn ...) Kannski Framsóknarflokkurinn. En ég vona þá að það verði ekki fleiri sem fylgja þeim að málum.

Herra forseti. Það tel ég að eigi að hafa í huga í þessu sambandi að þessi nálgun er röng. Hún hefur leitt okkur í ógöngur aftur og aftur og við höfum því miður allt of lítið lært, eins og sést af því að enn eru bæklingarnir svona. Nú hef ég að vísu ekki ártal á þessu. Mér gekk illa að finna það, herra forseti. En þetta er tiltölulega mjög (Gripið fram í.) nýlegt rit, þykist ég vita. Og tónninn hefur þó ekki breyst meira en raun ber vitni frá því í janúar 1995.

Saga Kárahnjúkaverkefnisins hingað til, til dagsins í dag, er himinhrópandi sönnun þess hve lítið hefur í raun breyst. Valdbeiting umhvrh. þegar afdráttarlausum úrskurði skipulagsstjóra var snúið við segir sína sögu um það hvernig þessi mál standa á Íslandi enn þann dag í dag.

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill biðja hv. þm. að gera hlé á máli sínu þegar vel stendur á.)

Það stendur einstaklega vel á núna því að ég ætlaði að segja skilið við þessa sögufræðslu og upprifjun í aðalatriðum u.þ.b. núna og snúa mér að Kárahnjúkavirkjuninni sjálfri og ræða svolítið um hana sem framkvæmd. Þar af leiðandi er það alveg prýðilegt, herra forseti, ef forseti fellst á það að ég geri hlé á máli mínu einmitt núna.