Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 15:54:28 (6543)

2002-03-22 15:54:28# 127. lþ. 103.3 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, RG
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[15:54]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er sérkennileg tilfinning að ræða það þingmál sem hér liggur fyrir eftir að hæstv. iðnrh. hefur flutt þá yfirlýsingu sem hún las áðan. Ráðherrann gefur okkur vel til kynna þær efasemdir sem á hana hafa leitað að undanförnu og það er ekki undarlegt. Á okkur hljóta einnig að leita ákveðnar efasemdir varðandi tímasetningarnar miðað við orðalagið í þessari yfirlýsingu.

Hæstv. forsrh. sagði í fréttum að það yrði ekki virkjað nema samningur um álver lægi fyrir. Við hljótum því öll að vera ringluð miðað við niðurlag yfirlýsingarinnar. Herra forseti, ég ætla að leyfa mér að lesa niðurlagið vegna þess að það hljómar e.t.v. öðruvísi þegar það er lesið eitt og og sér. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Hagsmunir íslenskra yfirvalda og Landsvirkjunar hvað varðar tímasetningar fara ekki saman við hagsmuni fjárfesta í sjálfu álverinu. Það er því skilningur þeirra sem standa að Noral-verkefninu að ríkisstjórn Íslands og Landsvirkjun hafi rétt til þess að leita nýrra samstarfsaðila að verkefninu þangað til núverandi aðilar hafa komið sér saman um nýja formlega yfirlýsingu. Þetta breytir hins vegar ekki þeim áformum allra samstarfsaðila að ganga eins skjótt og verða má frá vinnuáætlun til þess að ná endanlegri ákvörðun í Noral-verkefninu.``

Herra forseti. Ég hef talið að ég væri allsæmilega vel gefin. Þessi yfirlýsing þarna virkar mjög afdráttarlaust á mig og ég þarf afskaplega góðan vilja til að túlka hana þannig að hér hafi eiginlega ekkert gerst nema einhver smáfrestur orðið.

Herra forseti. Hér fóru fram, áður en ráðherrann las yfirlýsingu sína, orðaskipti um framtíð Austfjarða ef ekki yrði virkjað. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að það sé ekkert ósennilegt að þar eigi einmitt eftir að rísa ígildi Bang & Olufsen eða ígildi Lego. Mannvit og menntun verða þeir virkjanakostir sem í langri framtíð munu skipta mestu máli í þessu landi, hvort sem við munum þá verða búin að virkja allt sem unnt er að virkja eða höfum tekið formlega ákvörðun um að snúa okkur að öðrum þáttum og virkja það sem annars staðar rennur.

Hins vegar skulum við ekki búast við því að helsti forsvarsmaður ríkisstjórnarinnar ræði á þessum nótum um virkjanir og virkjun mannvitsins. Oddviti ríkisstjórnarinnar hefur alveg sérstakt tungutak hér í salnum þegar hann ræðir um mannvit og notar það í sérstökum tilgangi, eins og við höfum fengið að heyra allnokkrum sinnum, þegar honum er þungt í hug og það sem við segjum hentar ekki. Þá er mannviti í þessum sal ákaflega ábótavant.

Herra forseti. Á undan mér ræddi um þingmálið Steingrímur J. Sigfússon. Hann spurði þeirrar spurningar í lok ræðu sinnar, sem spannaði hátt í fjórar klukkustundir, hvort hann hefði örugglega komið skoðun sinni vel til skila. Ég ætla að svara honum í upphafi ræðu minnar sem verður mjög stutt í samanburði. Hann kom skoðun sinni vel til skila og okkur blandast ekki hugur um hvernig hann vill að þessi mál fari.

Hann drap á að Hjörleifur Guttormsson hefði haldið hér alllengri ræður og að það hefði verið mikill fróðleikur að hlusta á ræður þess manns. Já, það hef ég upplifað. Ég hef ekki alltaf verið sammála honum en það hefur líka gerst að Hjörleifur Guttormsson hafi í náttúruverndarmálum haft mjög mikil áhrif m.a. á hvernig ég greiddi atkvæði.

Ég get hins vegar líka sagt að margt af því sem var farið yfir hér í yfirgripsmikilli ræðu Steingríms J. Sigfússonar var fræðandi. Sérstaklega tók hann ómakið af mér með að fara vítt og breitt yfir víðernin með tilliti til náttúrufars og náttúrufarsbreytinga í kjölfar virkjunar, gangi virkjanaáformin eftir.

Það get ég sagt, herra forseti, að fá óbyggð svæði hafa fengið jafnmikla umfjöllun í sölum Alþingis og víðernin norðan Vatnajökuls, hvort sem mælt er í klukkustundum, í ræðutíma þingmanna, fjölda daga sem um hefur verið rætt og bara yfirleitt hvaða mælikvarða sem við notum. Auðvitað eru skiptar skoðanir um þetta svæði. Inn í þær fléttast líka heitar tilfinningar. Það fengum við að heyra í umræðunni um Eyjabakka og það hefur komið fram þegar í umræðunni um virkjun Kárahnjúkanna. Það er bara eðlilegt. Í öllum flokkum er fólk sem vill varðveita ósnortið landsvæðið á þessum slóðum. Það er svo sérstakt og er stærsta ósnortna landsvæðið í allri Evrópu sem nú er orðin svo afskaplega manngerð. Meðal kjósenda flokkanna eru jafnframt skiptar skoðanir um þetta stóra mál. Þó býst ég við að þær séu misjafnlega skiptar. Ég gæti t.d. trúað því að skiptari skoðanir séu meðal kjósenda Samfylkingarinnar en Sjálfstfl. svo ég taki dæmi.

[16:00]

Það er líka sérkennilegt að ræða virkjunarheimildina til Landsvirkjunar í þessu umhverfi, undir þeirri yfirlýsingu sem hér liggur fyrir og í því andrúmslofti sem hefur verið um þetta mál frá því að hæstv. iðnrh. flutti ræðu í fyrradag og lýsti því að málið væri í nokkru uppnámi. Ég ætla hins vegar að halda mig ótrauð við það sjónarmið sem ég set hér fram og reyna að stytta mál mitt.

Samfylkingin hefur skoðað þetta mál mjög ítarlega og fram hafa farið góðar umræður um virkjun á svæðinu norðan Vatnajökuls, fyrst þegar til stóð að virkja á Eyjabökkum og síðan núna þegar breytt áform eru og ákveðið er að virkja við Kárahnjúka. Umfjöllunin hefur verið lýðræðisleg eins og Samfylkingin vill viðhafa. Samfylkingin hefur ákveðið þannig vinnubrögð að í öllum málum, stórum og smáum, en ekki síst þeim þar sem heitar tilfinningar eru og skiptar skoðanir, fylgir mjög lýðræðisleg umfjöllun og afgreiðsla í kjölfarið í þessum flokki. Og það sem myndast meiri hluti um er stefna Samfylkingarinnar og sú stefna hefur verið kynnt hér í þessu máli. Það er stefna Samfylkingarinnar að styðja virkjun við Kárahnjúka. Þetta var ekki auðvelt mál og það er ábyggilega ekki auðvelt mál í nokkrum flokki þótt fólk beri sig mismunandi borginmannlega.

Þess vegna er það undirstrikað af minni hálfu að það er stefna Samfylkingarinnar að virkja við Kárahnjúka. En ég fylgi hvorki félögum mínum í þeirri afstöðu né ákvörðun. Ég er andvíg virkjun á svæðinu norðan Vatnajökuls og það kemur fram í máli mínu og ég kýs að láta það koma fram í þessari umræðu. Og það er bara viðurkennt af félögum mínum að þannig geti mál skipast í stórum flokki að við erum einhver í þingflokknum sem ekki erum sammála endanlegri niðurstöðu, og það eru mjög margir í okkar flokki sem ekki eru sammála þeirri niðurstöðu og örugglega mjög margir í kjósendahópi Samfylkingarinnar.

Það er afdráttarlaus afstaða mín að umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar séu óásættanleg fyrir utan þá meginstaðreynd sem hlýtur að hafa mjög mikil áhrif þegar verið er að taka lokaákvörðun í svona máli, að umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar eru óafturkræf. Því segi ég að það til dæmis að taka ákvörðun um að styðja ekki virkjun við Eyjabakka sé afturkræf ákvörðun en það að ákveða að styðja virkjun á Kárahnjúkum og verði verkefnið að veruleika er óafturkræf ákvörðun. Þetta er mjög mikilvægt.

Ég sagði áðan að sá þingmaður sem talaði á undan mér hefði farið ítarlega yfir náttúrufar á svæðinu norðan Vatnajökuls og það kom vel fram hvaða náttúruspjöll verða þar og að hvaða leyti þau eru óviðunandi. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að engin ein framkvæmd á Íslandi muni hafa önnur eins áhrif á umhverfi sitt og þessi virkjun. Það er líka skoðun mín að það sé löngu tímabært að vinna framkvæmdaáætlun fyrir virkjanir á Íslandi, virkjanir og stóriðju að því marki sem hægt er að meta seinni hlutann. Það þarf að meta hvaða ár er ásættanlegt að virkja og það að ákveða að spilla ekki núna strax stærsta hálendisvíðerni Evrópu er afstaða mín af því að ég veit að við eigum aðrar ár sem meiri sátt væri um að virkja ef við værum eingöngu að hugsa um það að virkja og skaffa rafmagn fyrir stóriðju en ekki upptekin af því á hvaða svæði sú stóriðja ætti að vera. Miðað við hversu mjög virkjunin er tengd stóriðju á Austfjörðum vil ég líka segja að ég skil afskaplega vel viðbrögð félaga míns, Einars Más Sigurðarsonar, hér áðan og hvað þetta er erfitt mál fyrir Austfirðinga, og það held ég að ég hafi látið koma fram í öllum ræðum mínum um svæðið norðan Vatnajökuls hversu ofboðslega erfitt það verður ef þetta mál endar þannig að þeir fái ekki það stóra verkefni sem álverið er.

Það er mín skoðun að það eigi að geyma þetta svæði fyrir komandi kynslóðir, að það eigi að vera síðari tíma ákvörðun hvort þessari dýrmætu auðlind verður fórnað á altari stóriðjuverkefnis. Það er líka mín skoðun að hér þurfum við að finna leiðir til að vinna ekki bara auðlindastefnu heldur auðlindamat. Samfylkingin tekur það fram í undirritun sinni á nál. meiri hlutans að mikilvægt sé að mótuð verði heildstæð auðlindastefna. Það er mjög mikilvægt að árétta það að þetta kemur fram í nál. meiri hluta flokkanna. Ég vildi óska að við hefðum haft auðlindapólitík að vinna eftir. Það hefði verið miklu auðveldara fyrir alla sem koma að málinu.

Það kom fram í framsögu talsmanns Samfylkingarinnar í þessu máli að afskaplega mikilvægt væri að fá auðlindastefnu. Svanfríður Jónasdóttir mælti fyrir nál. af okkar hálfu og hún vakti einmitt athygli á því að það væri engin samræmd stefna og fór mjög vel yfir það hvernig þetta varðar sjávarútveg, orkumálin, land og eldismál. Hún gerði það svo vel að ég vil fyrst og fremst benda á hvað hún dró það vel fram hversu ólíkt er tekið á þessum þáttum, án þess að fara nánar í það.

Virðulegi forseti. Ég á rætur í flokki sem hefur alltaf viljað nýta fallvötn, sem hefur viljað virkja og fá hingað stóriðju. Ég á heima í flokki sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vildi eiginlega nota eins og skammaryrði um Framsfl. í upphafi ræðu sinnar fyrr í dag þegar hann sagði að Framsfl. væri orðinn að eins konar krata-Evrópusinna-stóriðjuflokki. Ég er alveg viss um að það er hægt að segja það um mig að í þannig flokki hafi ég alla tíð átt heima og það er alveg ljóst að ég á í slíkum flokki rætur.

Þá vaknar spurningin: Hef ég þá færst frá þeim meginsjónarmiðum með afstöðu minni til verndar svæðisins norðan Vatnajökuls? Svarið er hreinskiptið. Það er nei. Ég mun áfram skoða virkjunarkosti með félögum mínum. Ég er áfram fylgjandi stóriðju að því marki sem unnt er að gera viðunandi samninga og að virkjanir og áhrif þeirra á umhverfið og áhrif stóriðjunnar, þar sem hún er staðsett, á umhverfið séu ásættanleg. Þetta eru bara grunnviðhorf og eiga að vera grunnviðhorf allra þeirra sem standa frammi fyrir því að taka slíkar ákvarðanir.

(Forseti (ÍGP): Má ég biðja þingmenn í hliðarsal um að gefa betra hljóð í salnum.)

Þakka forseta kærlega fyrir að ýta við forseta Alþingis í hliðarsal með þessum hætti.

Herra forseti. Ég hóf mál mitt á því að segja að við værum að ræða þetta í sérkennilegu umhverfi og spyrja má hvað sé að gerast, hvort álver komi ekki, hvort við verðum að skoða annað, hvort við verðum að skoða minni skref í að virkja og fá stóriðjuverkefni sem þá mundu e.t.v. falla betur að umhverfi og efnahagslífi okkar Íslendinga.

Af hverju segi ég minni skref? Ég hef þegar lýst því að hluta. En mér er til efs að menn geri sér almennt grein fyrir hvílíkar rosastærðir er um að tefla í þessu verkefni. Ég ætla að gera tilraun til að lýsa stærðinni.

Samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar fyrir árið 2000 er heildarfjármunaeign okkar Íslendinga 2.000 milljarðar. Heildarfjármunaeign þýðir allt sem við eigum saman, allar eignir, allar virkjanir, öll hús, sjúkrahús, atvinnuhúsnæði, heimilin okkar, íbúðarhús, hafnir, vegir, tæki og tól í atvinnulífi og einkalífi, allt. Af þessum 2.000 milljörðum í fjármunaeign eru 900 milljarðar eign atvinnulífsins. Þessir 900 milljarðar eru virkjanirnar, álverin tvö, járnblendið, allt atvinnuhúsnæði í landinu, vélar og tæki atvinnulífs, öll einakfyrirtæki, öll hús og eignir, tæki og tól í atvinnulífinu. Það eru 900 milljarðar.

Þau áform sem við erum að ræða hér þýða að það eigi að skella inn í samfélagsmaskínuna verkefni sem á verðlagi 2001 --- og ég vek athygli á því að hitt var verðlag árið 2000. En það munar ekki mjög miklu --- er 250 milljarðar kr. Við bætum inn í fjármunaeignina 250 milljarða pakka sem er liðlega einn fjórði af því sem fyrir er. Nú er ég ekki að tala um þetta fjárhagslega. Ræða mín snýst ekki um hvernig þetta verkefni er fjárhagslega. Ég veit að það eykur verga þjóðarframleiðslu um 1%. Að öðru leyti ætla ég ekkert að fara inn í efnahagsstærðir í þessu máli vegna þess að afstaða mín byggist á umhverfissjónarmiði.

En stærðin er svo rosaleg að um leið og við sjáum það í þessu samhengi vitum við að verkefnið er svo risastórt að það er engin leið og ekki leyfilegt að líta á það sem byggðaverkefni. Þetta er samfélagsverkefni af þeirri stærðargráðu að enginn má afgreiða það öðruvísi en vita um stærðina.

Herra forseti. Ef yfirlýsing ráðherrans þýðir að álverið kemur ekki, erum við þá komin að nýju ferli? Ber okkur e.t.v. að ræða málin á nýjan hátt, ekki að taka við því eina sem okkur býðst og búa til virkjun utan um það þegar verkefnin detta inn heldur reyna að ræða málin upp á nýtt með öðrum formerkjum?

Erum við komin þangað núna árið 2002, eftir þá reynslu sem við nú höfum farið í gegnum, að við eigum t.d. að ræða opið um svæði sem eigi að vernda og ræða opið um svæði þar sem megi virkja, þar sem ásættanlegt er að verði virkjað, að við séum þegar búin að taka fyrir einhver þau svæði sem eru svo manngerð að viðbætur breyti ekki miklu í ásýndinni?

Eigum við e.t.v. að skoða enn þá betur hver eigi að vera ímynd Íslands? Það hefur komið fram í þessari umræðu að ferðamenn svara í könnunum að hún sé þetta ósnortna, náttúrlegt umhverfið og þeir vilja koma aftur og aftur til að njóta þessa sem ekki fæst annars staðar.

Ég þekki þetta. Ég hef mætt frönskum ferðamönnum uppi á hálendinu og þeir hafa sagt við mig: ,,Ofboðslega auðlind eigið þið. Ofboðslega eruð þið rík. Það á enginn svona auðæfi eins og þið. Þó að þið ættuð gullnámu hér í fjallinu væri hún lítils virði miðað við þetta.``

Þetta er alveg rétt. Við erum ofboðslega rík. Við eigum svo miklar auðlindir. Samkvæmt skýrslum OECD eru þær skilgreindar þannig: Hafið, fallvötnin og náttúra Íslands. Það er auðvelt að gefa sér það þegar maður lítur á það þannig að e.t.v. verðum við að horfast í augu við að þetta þrennt, hafið, fallvötnin og náttúra Íslands, sé jafnverðmætt og við eigum að meta það þannig en ekki að leyfa einhverjum að koma að segja: ,,Halló! Ég er tilbúinn að koma hérna með rosalega stóriðju ef þið virkið hér fyrir mig.``

Spurning mín er: Þar sem víðernin verða sífellt verðmætari og Evrópa æ manngerðari, er þá ekki komið svo að við verðum að horfa á þetta frá nýjum sjónarhóli með auðlindamati og búa til auðlindastefnu og gera tilraun til að meta þessar auðlindir hverja fyrir sig og ákveða hvernig við meðhöndlum þær? Okkur ber að vera tilbúin að leggja þessa þjóðareign undir mælistiku en það er okkur ekki unnt í dag. Enginn í þessum sal treystir sér til að leggja víðernin norðan Vatnajökuls undir mælistiku.

[16:15]

Ég hef auðvitað velt því fyrir mér hvort nokkur möguleiki væri á því af minni hálfu að vera með félögum mínum í þessari ákvörðun. Er sú afstaða, að fylgja þeim ekki, óábyrg? Hef ég og fólk sem þannig tekur afstöðu gleymt upprunanum, þýðingunni sem þróun orkumála hafði á síðustu öld? Veit ég ekki að á árum áður þýddi meira rafmagn betra líf, að rafmagnið var á sínum tíma hagsældin?

Auðvitað vitum við þetta öll og ég líka, en líka að velsæld verður ekki lengur fyrst og fremst til í gegnum rafmagn. Hún verður líka til með öðrum hætti. Þess vegna munum við áfram, samhliða því að framleiða rafmagn og selja orku til eftirsóknarverðra verkefna, hlúa að hefðbundnum greinum, að menntun, að byggja upp fjölbreyttar atvinnugreinar í þéttbýli, vega þessa þætti á móti öðrum í matinu á velsæld og hvernig samfélag við byggjum. Við vitum að búskapur, ferðaþjónusta, skógrækt, landgræðsla --- allt þetta snýr að náttúrunni og landinu og dreifbýlinu. Það vegur kannski þyngra í þéttbýlinu hvernig við höldum á öðrum málum.

En að sjálfsögðu virkjum við áfram. Ég stend ekki hér og held því fram að nú sé orðið gott og hér verði ekki meira virkjað. En við eigum líka aðra kosti í stóriðjunni sem við munum skoða, aðrar virkjunarleiðir, bæði fallvötn og gufuafl. Ég hef á tilfinningunni í dag að þetta risaverkefni sé fyrir bí. Ég held að andrúmsloftið sem skapaðist í þessum sal hafi ekki farið fram hjá neinum, hvorki í fyrradag við boðaða yfirlýsingu ráðherrans --- nokkrar væntingar voru komnar um að þetta væri kannski ekki eins og það væri --- né það andrúmsloft sem hékk yfir vegna endanlegrar yfirlýsingar ráðherrans hér í dag.

Í fréttum í fyrrakvöld var einmitt farið yfir hvað biði afgreiðslu okkar í framtíðinni vegna óska og áforma þeirra tveggja álvera sem vilja stækka, og óska þeirra um raforku. Samkvæmt ýtrustu hugmyndum, og ég er búin að skoða að þetta er líka að finna í frv., er verið að tala um að fara úr 240 þús. tonna framleiðslu upp í 740 þús. tonn. Ég er alveg viss um það, og að því leyti get ég tekið undir ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að ef við klárum það verkefni sem við ræðum hér er mjög ólíklegt að við förum fljótlega í að afgreiða þessi tvö erindi og fara í önnur 500 þús. tonn í álverum. Það er meira en allt Reyðarál eins og sú beiðni liggur fyrir.

Jafnframt er fróðlegt að skoða þær töflur um virkjanir sem eru hér í frv. Þegar ég skoða það sem þar er að finna held ég að ekki verði eins sársaukafullt að fara í margt af því sem tínt er til á bls. 26 og 27 í frv. og það sem við erum að fjalla um hér. Ég veit hins vegar að Norðlingaölduveita verður mjög erfitt mál og við verðum ábyggilega með enn þá heitari tilfinningar eða jafnheitar þar og varðandi svæðið norðan Vatnajökuls. Ég býst við að Skaftárveita, ef þar á að veita á í Langasjó, verði líka mjög erfitt mál. Af því að Villinganes var nefnt hér fyrr í dag vil ég segja að ég held ekki að það sé almennt hitamál fólks af því að það snýr fyrst og fremst að ,,rafting``-ferðum, þ.e. flúðasiglingum, en ekki beinlínis að náttúruviðhorfum.

En ég tek eftir því þegar ég skoða töflur á bls. 26 og 27 í frv. að Reykjanes I og II er nefnt. Ég sé ekki að Nesjavellir séu nefndir og ég átta mig ekki á því hvort Reykjanes I og II eru í raun Svartsengi. En það eru áform uppi um að stækka Nesjavelli --- það er verkefni borgarinnar --- og áform eru uppi um að stækka Svartsengi og að því eru líka aðrir eigendur.

Getur verið að þegar fjallað verður um hugsanlegar orkuþarfir og orkugetu séu þessar veitur ekki teknar inn? Það er sannfæring mín að komi að því að við förum að reyna að afgreiða óskir álveranna sem fyrir eru um orku muni bæði Nesjavellir og Svartsengi koma mjög alvarlega upp varðandi hluta af orkunni. Þetta fannst mér fróðlegt þegar ég fór að skoða hvað fram undan er, en get líka tekið undir það og minnt á að orkuþörf vegna vetnisvæðingar er talin 4,3 teravattstundir þegar maður þýðir gwh/a. Það er hinn spennandi kostur framtíðarinnar, að fara í vetnið og að eiga orku fyrir því.

Þess vegna munum við fljótlega standa frammi fyrir spurningunni um hvað af þessu við ætlum að virkja til að vetnisvæða bíla- og bátaflota og hvað til þess að veita raforkunni í stóriðju. Þetta er spennandi umræða sem ekki hefur farið fram að neinu gagni og tengist því auðvitað að rammaáætlun um virkjanamál komi fram. En við ræðum aldrei málin í samhengi. Við ræðum málin hvert í sínu lagi, fyrst Eyjabakkavirkjun, svo Kárahnjúkavirkjun vegna Reyðaráls, svo munum við ræða einhverjar stækkanir álveranna og hvert við getum sótt raforku vegna þeirrar stækkunar sem þá verður þörf, og einn góðan veðurdag munum við ræða vetnið. Þegar þar að kemur trúi ég að almenningur verði almennt meðvitaðri um landið.

Herra forseti. Mér finnst þetta snúast um ásýnd lands, líka um framtíðina og vistvænt hagkerfi sem getur orðið hjá okkur. Erlendis hefur verið talað um Ísland með miklum fjálgleik, möguleika Íslands á að verða fyrsta hreina hagkerfið. En hér eru fyrst og fremst fyrirtæki úti í bæ að fást við vetnisáformin og það er fullkomlega óljóst hvert og hvenær orka verður sótt til þeirra verkefna.

Herra forseti. Eins og fram hefur komið byggir afstaða mín á umhverfissjónarmiðum. Ég hef að sjálfsögðu skoðun á flestu öðru sem varðar þetta en ég held mig við umhverfisþáttinn. Hér var fyrr í dag talað um Kringilsárrana, friðlandið sem fer undir lónið, setlögin, strandlengju lónsins, vatnshæðarsveifluna sem er meiri en áður hefur þekkst, þilið og líftíma virkjunarinnar. Talað var um einstæða vatnaflutninga og óleysanlegar afleiðingar af virkjun stóru jökulánna. Hugsanleg áhrif á lífríki hafsins hafa hins vegar ekki verið nefnd hér en fyrir þeim hefur t.d. Guðmundur Páll Ólafsson fært rök verði þessar virkjanir að veruleika.

Herra forseti. Ég ætla að ljúka máli mínu á því að minna á hvernig Landvernd hefur lýst því hvað gerist á svæðinu verði þessi virkjun að veruleika, með leyfi forseta:

,,Kárahnjúkavirkjun mun eyðileggja eitt stærsta hálendisvíðerni í Evrópu með mannvirkjagerð á um 1.000 km2 svæði og spilla fjölbreyttu gróðurlendi á allt að 600 km2 svæði sem er hluti af samfelldri gróðurþekju frá sjó inn til jökla. ... Ómetanlegar jarðfræðiminjar og landslagsheildir á heimsvísu yrðu eyðilagðar eða þeim raskað verulega með virkjunarframkvæmdunum.

Meira en 100 fossar yrðu fyrir röskun af völdum virkjunarinnar og sumir hyrfu alveg.

Stórfelldir vatnaflutningar einkenna virkjunina þar sem m.a. eitt stærsta vatnsfall landsins, Jökulsá á Dal, yrði flutt á milli vatnasviða og veitt í Lagarfljót.

Nánast ekkert vatnakerfi á virkjunarsvæðinu stæði eftir óraskað. Lífríki í stöðuvötnum og fjölmörgum ám mun eyðast eða raskast verulega, einangruðum stofnum verður útrýmt eða þeim blandað saman við aðra stofna.

Þýðingarmikil varpsvæði og fjaðrafellistaðir fugla eyðilegðust á sjálfu virkjanasvæðinu samfara vatnaflutningum á Úthéraði. Mikilvæg búsvæði hreindýra og sela mundu raskast eða eyðileggjast.``

Ég hvet líka þá sem heyra mál mitt að lesa upphaf skýrslu sem unnin er af umsjónarnefnd verkefnisstjórnar rammaáætlunar um mat á gildi lands norðan Vatnajökuls fyrir náttúruvernd og þjóðgarð. Ég hafði hugsað mér að lesa upphafið á þeirri skýrslu en ég ætla að lesa tvær stuttar efnisgreinar, herra forseti.

Önnur er þessi:

,,Samkvæmt matsskýrslu Landsvirkjunar felst ávinningur af Kárahnjúkavirkjun í aukinni landsframleiðslu, auknum útflutningstekjum, auknum efnahagsumsvifum á Austurlandi og aukinni atvinnu í landinu. Um 20 störf skapast vegna virkjunarinnar sjálfrar auk aðkeyptrar verktakavinnu. Góður vegur opnast úr Fljótsdal að Kárahnjúkastíflu og brú á stíflunni opnar leið ofan byggðar milli Fljótsdals og Jökuldals.``

Hin efnisgreinin er þessi:

,,Áhrif Kárahnjúkavirkjunar á gildi lands norðan Vatnajökuls fyrir náttúruvernd, útivist og ferðaþjónustu eru þau að rýra það verulega. Stærsta ósnortna víðerni landsins yrði hlutað í sundur með mannvirkjum og því yrði hæpið að markaðssetja svæðið frá Kreppu austur á Hraun sem ósnortið víðerni. Ímynd hugsanlegs Vatnajökulsþjóðgarðs í sambúð við virkjun mundi mótast af því að hann væri rammaður inn á þrjá vegu af vega- og veitumannvirkjum.``

Innihaldi þessara tveggja efnisgreina er í raun teflt hvoru gegn öðru í umræðunni hér og málið snýst um að sumir telja þetta fyrra yfirgnæfa hið seinna en aðrir telja að hið síðara sé svo stórt að ekki sé hægt að sættast á hið fyrra. Það er mikilvægt að við munum hvers vegna við erum að ræða þetta.

Í lokin á þessari fyrstu síðu segir:

,,Ekki var hægt að meta þessa gildisrýrnun náttúruauðlinda til fjár.``

Herra forseti. Lokaorð mín eru þessi: Af hverju finnst mér svæðið norðan Vatnajökuls svo einstakt? Eru það tignarleg fjöllin sem rísa upp úr víðáttunni, sum hver eins konar útverðir svæðisins, eins og Herðubreið og Snæfell? Eru það jöklarnir sem ber við himin eða skriðjöklarnir sem skríða fram og mæta fíngerðum gróðurfláka eða svörtum söndum? Er það auðnin öll og þögnin? Er það víðátta sanda og gróðurlausra landflæma? Eru það óumræðilega fallegir staðir þar sem fjallagróður og unaðsreitir takast á við sanda, björg og jökla, lækur sem liðast um afskekktan dal, heit uppspretta þar sem enginn á hennar von? Er það allt þetta og miklu meira sem saman skapar þá stórkostlegu auðlind sem við eigum að mínu mati að vernda? Já, ég held það.