Umhverfisstofnun

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 15:13:29 (6552)

2002-03-25 15:13:29# 127. lþ. 104.1 fundur 427#B Umhverfisstofnun# (óundirbúin fsp.), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[15:13]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég minni hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur á, af því að hér var Náttúruverndarráð dregið inn í umræðuna, að allir þingmenn studdu það að leggja niður Náttúruverndarráð, líka hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, þannig að það var mjög framsýnt mál. Ég á von á því að allir þingmenn samþykki þá aðgerð að stofna nýja umhverfisstofnun. Þannig er mál með vexti að umhvrn. er yngsta ráðuneytið í stjórnsýslunni, er um 12 ára gamalt, og þegar það var stofnað voru teknar stofnanir frá öðrum ráðuneytum. Nú er kominn tími til að fara yfir það svið til að sjá hvar við getum sótt fram. Fyrsta skrefið viljum við gjarnan taka núna með því að sameina Hollustuvernd ríkisins, Náttúruvernd ríkisins, veiðistjóraembættið, dýraverndarráð og hreindýraráð í eina öfluga stofnun af því að við teljum að við náum meiri árangri þannig fyrir umhverfismálin til framtíðar heldur en að vera með margar minni og veikburða stofnanir, að við getum með þessu haft stjórnsýsluna einfaldari og skilvirkari þannig að við getum sótt betur fram.

Það er búið að kynna þetta mál fyrir forstöðumönnum, og af því að nefnt var að halda þyrfti forstöðumannafund sé ég alls ekki að það hefði þurft að taka upp í þeim hópi. Við ræddum við alla forstöðumenn sem viðkoma þessu máli, forstöðumenn stærri stofnananna, og þeir eru jákvæðir gagnvart þessu og sjá mikil sóknarfæri. Ég hef haldið starfsmannafundi með viðkomandi starfsmönnum langflestum, þeim sem eru á höfuðborgarsvæðinu, og á þeim var afar góður andi þannig að ég tel að breið samstaða ríki hjá starfsmönnum gagnvart þessari sókn í umhverfismálunum. Þeir munu allir geta haldið störfum sínum, þ.e. fá forgang að störfum í nýrri umhverfisstofnun. Hins vegar er rétt að það er óvissa um rannsóknarstofuna og ég get kannski komið að því í seinna innleggi mínu.