Merkingar á lambakjöti til útflutnings

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 15:27:03 (6561)

2002-03-25 15:27:03# 127. lþ. 104.1 fundur 429#B merkingar á lambakjöti til útflutnings# (óundirbúin fsp.), KVM
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[15:27]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Um helgina sem leið bárust okkur fréttir af því að yfirvöld í Danmörku, Hollandi og Englandi hefðu kvartað við Evrópusambandið vegna endurtekinna brota fjögurra íslenskra útflytjenda á lambakjöti á reglum um innflutning. Einnig hefur komið fram í þeim fréttum hjá Gísla Sverri Halldórssyni, sem vinnur hjá embætti yfirdýralæknis, að merkingar og umgangur um sendingarnar til Evrópulandanna, þeirra þriggja sem ég nefndi áðan, hafa komið því jafnvel í uppnám að við getum selt lambakjöt til Evrópu.

Við vitum að staða sauðfjárbænda hefur verið mjög slæm og erfið undanfarin ár og þegar við heyrum fréttir sem þessar, þá hlýtur okkur að bregða allverulega. Á sama tíma og við heyrum slíkar fréttir eru menn að guma af því, sem ég vona að sé fótur fyrir, að töluverð sókn sé í markaðssetningu á lambakjöti í Ameríku. En það er náttúrlega alveg skelfilegt að þurfa að heyra þetta. Það sem mig langar til að spyrja hæstv. landbrh. um er hver viðbrögð hans séu við þessu máli og hvort hann hafi ekki áhyggjur af því hvernig málum sé komið á þessu sviði og hvort hann geti séð fyrir sér að þetta verði lagað þannig að tækifæri okkar aukist frekar en hitt sem hefur birst okkur í fréttum undanfarið.