Tekjustofnar sveitarfélaga

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 16:07:43 (6573)

2002-03-25 16:07:43# 127. lþ. 104.2 fundur 616. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (grunnskólabyggingar) frv. 60/2002, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[16:07]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir er lagt fram til að tryggja að unnt verði að ljúka átaki til einsetningar grunnskólans sem er auðvitað göfugt markmið í sjálfu sér og ætla ég ekki að fara að mótmæla því. Þetta frv. felur í sér aukin fjárframlög til verkefnisins frá því sem áður var ákveðið og ekki getur maður annað en fagnað því.

En mig langar í tilefni af því að frv. er lagt hér fram að minnast á yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaganna á sínum tíma og hversu illa grundaðir þeir útreikningar voru sem lágu til grundvallar. Það er alveg deginum ljósara að sveitarfélögin fóru illa út úr þessu dæmi og sá tekjuauki sem þeim hafði verið reiknaður til að koma á móti yfirfærslu grunnskólans var allsendis ónógur. Auðvitað breyttust forsendur mjög mikið eftir því sem leið á þann tíma sem t.d. einsetningin átti að framkvæmast á, og þegar samningarnir voru gerðir voru aðstæður ríkisins til að koma þessu af sér mjög hagstæðar. Samningar kennara voru í algjörum botni. Laun til kennara hafa aldrei nokkurn tíma verið eins lág og þegar þessir viðmiðunarsamningar voru gerðir. Fleiri atriði má tilfæra sem voru reiknuð afar sérkennilega þannig að bæjarfélögin fóru fjárhagslega illa út úr þessum viðsnúningi og enn hefur ekki fengist viðurkennt að fullu hverju þarf að bæta við tekjur sveitarfélaga til að þau standi undir þessum kostnaði.

Kvaðir vegna einsetningar voru samþykktar við yfirfærsluna 1996 og kvaðir voru um að einsetningunni lyki fyrir 2002. Auðvitað tókst ekki að standa við það því þær áætlanir voru gerðar af fullkominni bjartsýni. Þetta var engin smábreyting vegna þess að allt fram til þess tíma að skólinn var færður yfir hafði í ýmsum sveitarfélögum verið litið með sérstakri velþóknun til þess að skólahúsnæðið væri sem best nýtt, eins og það var orðað. Ég kenndi t.d. í sveitarfélagi þar sem talað var um að það væri til sérstakrar fyrirmyndar hve vel nýttur skólinn var. Alveg upp í rjáfur var hann þrísetinn, blessaður, árum saman og þótti ekki ástæða til að fjargviðrast út af því. Svo auðvitað varð það þessu sveitarfélagi gríðarlega dýrt þegar það tók það á sig að standa við einsetninguna. Nú er svo komið að fjárhagnum hefur verið riðið á slig vegna þessarar skuldbindingar. Að vísu standa afskaplega góðar og vandaðar skólabyggingar eftir sem allir geta verið stoltir af en þetta hefur kostað þvílíka fjármuni sem aldrei var gert ráð fyrir þegar þau lög voru sett á sínum tíma sem kváðu á um einsetningu grunnskólans fyrir 2002. Mér svíður það ákaflega þegar svo er verið að víta þessi sveitarfélög sem hafa reynt að leggja á sig gríðarlegt erfiði til að standa við þessar kvaðir, þegar þeim er álasað fyrir skuldasöfnun vegna þess að þessi skuldasöfnun hjá umræddum sveitarfélögum er að mestu leyti komin til vegna metnaðar sem þau höfðu til að uppfylla kvaðir grunnskólalaga.

Þetta hefur nú verið framlengt. Það hefur verið viðurkennt að ekki takist í öllum sveitarfélögum að uppfylla þessar kvaðir og nú hefur þetta verið framlengt þannig að þessi byggðarlög munu njóta styrkja úr Jöfnunarsjóði til 2006 þótt að vísu sé reiknað með að framlag vegna ársins 2006 komi til hækkunar á greiðslum vegna áranna 2002--2004.

Það er eitt sem vekur sérstaka athygli mína hér, í þessu frv. er lagður sérstakur krókur á halann til að gera kleift að veita styrki til stofnframkvæmda við grunnskóla sem fjármagnaðir eru samkvæmt samningum um einkaframkvæmd. Reiknað er með að það verði allt að 65 millj. kr. á ári. Mér finnst svolítið hart að þarna sé verið að setja lög um að hygla sérstaklega þeim sveitarfélögum sem hafa farið þá leið að fara út í einkaframkvæmdir við grunnskóla, sérstaklega til að þurfa ekki að tilgreina skuldir vegna þessara bygginga í reikningshaldi sínu. Á sama tíma verða önnur sveitarfélög sem hafa tekið þessar skuldbindingar á sig og tilgreint þær að fullu í reikningshaldinu fyrir ámæli vegna skuldasöfnunar.

Ég held að einkaframkvæmdin hafi verið óheillaspor þegar sú leið var fyrst farin í byggingu grunnskóla á Íslandi. Það er sérstaklega eitt sveitarfélag sem hefur farið þar fremst í flokki, og ég held að ekki séu sérstakar ástæður til að verðlauna þau sveitarfélög sem ákváðu að haga framkvæmdum sínum með þessum hætti með fjárframlögum umfram þau sveitarfélög sem hafa þó tekið þetta allt saman á sínar herðar.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni en ég vildi að það kæmist á framfæri að ég tel að ekki sé rétt að samþykkja að verja sérstökum fjármunum til að verðlauna þau byggðarlög sem hafa farið með grunnskólabyggingar sínar í einkaframkvæmd.