Tekjustofnar sveitarfélaga

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 16:53:02 (6577)

2002-03-25 16:53:02# 127. lþ. 104.2 fundur 616. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (grunnskólabyggingar) frv. 60/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[16:53]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að lengja þessa umræðu neitt að ráði. Það eru nokkur atriði sem mig langar þó að tæpa á.

Í fyrsta lagi væri fróðlegt að fá um það upplýsingar hvernig mál standa í samskiptum ríkis og sveitarfélaga að öðru leyti varðandi skiptingu tekna og slíkt, ekki síst það sem tengist yfirfærslu grunnskólans. Það er ljóst að það er ekki bara stofnkostnaðurinn þar sem stendur í mönnum. Þó að þar hafi komið til hlutir eins og einsetning skólans og ákveðin fjárfestingarþörf af þeim sökum liggur líka fyrir að ýmislegt annað af mjög skyldum toga veldur útgjöldum hjá sveitarfélögunum. Menn telja að sumpart hafi það verið fyrirsjáanlegt en sumpart ekki og halli sé á þessum samskiptum líka hvað varðar rekstrarútgjöld og kostnað við skólahald almennt.

Það munu vera einhverjar nefndir að störfum sem hafa kannski komið að þessu máli eins og fleirum. Alla vega er gjarnan vísað til nefnda þegar á þarf að halda með það, að fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga séu í skoðun og séu í nefnd. Það má þá leyfa sér að spyrja hvort einhverra tíðinda sé að vænta af samskiptum ríkis og sveitarfélaga hvað rekstrarþættina varðar í tengslum við yfirfærslu grunnskólans og svo náttúrlega almennt fjárhagsstöðu sveitarfélaganna sem er engan veginn nógu góð. Árleg hækkun rekstrarútgjalda sem hlutfall af skatttekjum síðustu 6--8 ár samfellt segir sína sögu um það. Meðaltalið á landsvísu hefur á skömmum tíma hækkað úr um 76--77%, miðað við skatttekjur, upp í 83% ef það stefnir ekki í 84 eða 85% á þessu ári. Þá gefur augaleið að ekki verður neitt óskaplega mikið eftir til annarra hluta, hvort sem er til fjárfestinga í grunnskólanum, betrumbóta í skólahaldinu eða annars.

Í öðru lagi vil ég spyrja hvort einstök sveitarfélög hafi ekki verið tekin til skoðunar vegna, mér liggur við að segja, afbrigðilegra aðstæðna sem þar er við að glíma. Ég þykist vita til þess að allmörg sveitarfélög telji sig í raun hafa lent þannig út úr þessum samskiptum, þessum verkefnatilflutningi og því hvernig þau voru á vegi stödd með fjárfestingar í skólamannvirkjum og öðrum sem áður töldust samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga, að þeirra staða sé mjög sérstök og að nánast þyrfti viðbótarheimild til að taka á einstökum, mjög sérstökum og afmörkuðum viðfangsefnum. Ég vil ekki nefna hér nein dæmi en a.m.k hef ég heyrt menn færa fyrir því rök að nokkur tilvik af þessum toga, mjög sérstaks eðlis, séu til staðar.

Ég vil svo eins og fleiri gera athugasemdir við þennan einkavæðingar- eða einkafjármögnunarlið sem hér er sérstaklega settur inn með mjög undarlegum hætti, að mér finnst. Ég hef nú ekki heyrt hvaða nákvæmnisrök eða vísindi standa á bak við að eyrnamerkja þarna nákvæmlega 65 millj. kr. Eitt væri að taka inn í frv. lagastoð, ef á hana skortir, til að láta þá mismunandi rekstrarform eða framkvæmdamáta sitja við sama borð, enda væri um að ræða hluti sem væru viðurkenndir og leyfðir af stjórnvöldum að öðru leyti. Út af fyrir sig er ég ekki að segja að með fjárhagslegri stýringu eigi að halda aftur af þessari einkavæðingarhelför, þeirri herleiðingu sem þarna er boðuð líkt og á fleiri sviðum.

Langeðlilegast væri auðvitað að taka af skarið um þetta í lögum, í grunnskólalögum og annars staðar, að grunnskólinn og skólarnir væru verkefni hins opinbera, a.m.k. hið almenna nám, grunnnám og hverfisskólar og annað því líkt. Ef þetta er leyft á annað borð og viðgengst þarf að sjá til þess að menn sitji þar eftir atvikum við sama borð. En það er ekki þar með sagt að það sé gert algjörlega skilmálalaust og skilyrðislaust. Er þetta hugsað þannig að þessir peningar verði greiddir án nokkurra skilmála eða skilyrða um hvernig þeir einkafjármögnunarsamningar eru sem sveitarfélögin hafa gert? Ég spyr t.d.: Væri ekki einfalt mál að binda greiðslur af þessu tagi því skilyrði að samningarnir væru á þeim grunni að sveitarfélögin ættu mannvirkin eftir að samningstíma lyki en það væri ekki í hina áttina? Ég geri stóran greinarmun á þeim einkafjármögnunarverkefnum, þó að ég telji náttúrlega að í hinu almenna skólahaldi eigi ekki að koma nálægt þessu. Það er þó mikill munur á hvort sveitarfélögin standa þannig að verki að þetta sé afmarkaður samningur til afmarkaðs tíma og eftir það hafi sveitarfélögin öll ráð í sinni hendi, eigi mannvirkin og geti þá látið annan einkaaðila annast rekstur þeirra eða starfsemina í þeim eða valið að gera það sjálf þegar samningstímanum lýkur.

Hin formúlan er yfirgengileg, ef sveitarfélög eru svo heillum horfin að þau láta einkaaðila byggja fyrir sig hverfisskóla, starfrækja hann og eiga skólann eftir að samningstímanum lýkur. Í hvaða stöðu eru menn þá til að taka sjálfstæðar ákvarðanir? Engri. Menn eru dæmdir til að eiga viðskipti við þennan aðila áfram, sem á eina nothæfa húsnæðið til skólareksturs í stóru bæjarhverfi.

Ég spyr hæstv. félmrh., sem hefur nú ekki verið í hópi frægustu einkavæðingarsinna hingað til nema þar sé að verða breyting á og þættu mér nokkur tíðindi: Væri hæstv. ráðherra tilbúinn til að ganga þannig frá þessu að það væri algerlega skýrt að það færu engir peningar úr sameiginlegum sjóðum af þessu tagi til að hjálpa sveitarfélögunum við uppbyggingu skólamannvirkja og einsetningu skóla nema ljóst væri að samningarnir væru a.m.k. á þessum grunni? Félmrn. hefur að mínu mati mjög sterka stöðu til að setja slíkan áskilnað vegna þess að félmrn. á einmitt að hugsa um að staða sveitarfélagsins til að sinna sínum lögbundnu skyldum sé góð, fullnægjandi, að sveitarfélögin geti aldrei lent í þvingunaraðstöðu. Það væri m.a. hægt að gera með þessum hætti.

Ef einhver sveitarfélög eru svo gjörsamlega heltekin af þessari einkavæðingaráráttu að þau vilji absalútt semja á hinn veginn, að þau selji sig algerlega í hendur einhverjum einakaðilum sem eigi mannvirkin ,,ad infinitum`` og þau séu endalaust þeim háð um að kaupa af þeim þjónustuna, þá mega þau það en þó alla vega án þess að fá til þess opinberan fjárstuðning. Ég sé ekki að það væri neitt vandamál að réttlæta það að binda hann einhverjum slíkum almennum áskilnaði af því tagi.

Mér finnst að félmrn. eigi að hafa skoðun á því og vera meðvitað um hvað er fjárhagslega skynsamlegt í þessum efnum og hvað ekki. Hefur félmrn. ekkert farið yfir það? Það hníga öll rök til þess að þessar leiðir, einkafjármögnunarleiðir, verði þegar upp er staðið dýrari fyrir sveitarfélögin. Hver er nú á bak við sveitarfélögin ef á bjátar? Það er félmrn., ríkið, sem verður þá að taka á vandanum eins og hæstv. félmrh. veit manna best, með það sem einhver kallaði hér válista. Ég vil ekki taka mér það orð í munn en hann er með lista yfir sveitarfélög sem hafa fengið athugasemdir frá eftirlitsnefnd og svo þessi stöku sveitarfélög sem eru enn verr stödd og hafa beinlínis þurft á stuðningi að halda, eru nánast í gjörgæslu eða öndunarvél.

Þessi málefni sveitarfélaganna eru beintengd ábyrgð félmrn. og því er meira en eðlilegt að spurt sé: Hefur félmrn. ekki mótað sér einhverjar áherslur í þessum efnum og farið yfir þetta? Getur það ekki haft hönd í bagga með sveitarfélögunum, að þau ani ekki út í ógöngur í þessum efnum og velji kosti sem yfirgnæfandi og mjög sterk rök sýna að verði dýrari og verri og hafi tilhneigingu til að taka af sveitarfélögunum ákveðið sjálfstæði þegar fram í sækir? Þau mundu sitja föst í fjötrum samninga og aðstæðna þar sem þeim væri nauðugur einn kostur að semja við ákveðna einkaaðila. Ég held að engan langi að sjá þeim sveitarfélögum fjölga sem dæma sig --- eða ekki sig heldur þá sem eiga að glíma við vandann þegar fram í sækir að einhverjum áratugum liðnum --- í slíkar aðstæður.