Tekjustofnar sveitarfélaga

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 17:18:35 (6579)

2002-03-25 17:18:35# 127. lþ. 104.2 fundur 616. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (grunnskólabyggingar) frv. 60/2002, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[17:18]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Hann var eðlilega ekki mikill, sannfæringarkrafturinn í hæstv. ráðherra, þegar hann reyndi veikum mætti að svara fyrir sitthvað sem tíundað hefur verið við þessa umræðu. Ég sagði það áðan og segi aftur að ég hef allan skilning á því. Málið er hér því miður vanreifað og erfitt viðureignar á alla lund.

Hæstv. ráðherra lét þess getið að hann væri persónulega ekkert sérstaklega hrifinn af þessari einkaframkvæmdaleið. Hins vegar var fróðlegt að heyra frá honum beint og án undanbragða, verandi æðsti yfirmaður sveitarstjórnarmála í landinu, hver stefna hans og flokks hans sé í því máli.

Í annan stað vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort honum þyki til fyrirmyndar hjá sveitarfélögum að skuldbinding upp á milli 6 og 7 milljarða kr., og þar af vegna skólabygginga upp á rúmlega helming þeirrar upphæðar, sé haldið leyndri fyrir íbúum sveitarfélaga eins og raunin er í Hafnarfirði. Nefnd hans, bókhaldsnefnd sveitarfélaga, hefur brugðist þegar henni bar að taka á því. Finnst honum það til fyrirmyndar?

Í þriðja lagi vil ég árétta það sem ég nefndi áðan og hæstv. ráðherra svaraði á lokasprettinum, hvort beri að skilja það sem svo að þær 240 millj. kr. eigi að renna á fjórum árum til Hafnarfjarðar vegna einkaframkvæmda, hvort sveitarfélagið eigi þar með að færa það teknamegin yfir rekstur, 10 millj. kr. á ári næstu 25 árin. Er það ekki hin eðlilega og sjálfsagða leið?

Ég vil líka upplýsa hæstv. ráðherra, af því að hér er talað um viðmiðunarverð, normverð eða 20% af því, að varðandi þá leið sem Hafnfirðingar fara við þann skóla sem þar er nýjastur og í framkvæmdum er framreiknaður kostnaður heilir 2 milljarðar kr. Þar með ættu framlög ríkissjóðs að vera 400 milljónir ef taka ætti mið af því. Það undirstrikar auðvitað hversu fráleit þessi leið er.