Tekjustofnar sveitarfélaga

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 17:29:22 (6587)

2002-03-25 17:29:22# 127. lþ. 104.2 fundur 616. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (grunnskólabyggingar) frv. 60/2002, GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[17:29]

Gunnar Birgisson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé um mismunun að ræða í frv. Það stendur hér með, leyfi forseta:

,,Loks skal tekið fram að ekki er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að önnur sveitarfélög en þau sem hafa fengið samþykki menntamálaráðherra til að fresta framkvæmd ákvæðis 3. gr. laga um grunnskóla um einsetningu grunnskóla muni geta sótt um styrk til framkvæmda sem hefjast á árunum.``

Ég spurði hæstv. ráðherra áðan hvort þetta gilti um þau sveitarfélög sem einsettu skólana frá 2002--2005, þ.e. sveitarfélög sem eru að byggja upp. Samkvæmt jafnræðisreglu held ég að þetta geti ekki staðist. Ég held að það þurfi að athuga þetta mál.

Í öðru lagi talaði hæstv. ráðherra um normin og kostnaðinn. Það er alveg rétt, það er vandamál hið mesta, þessi 12--14% sem sveitarfélögin fá greitt. Sveitarfélögin hafa ekki byggt eftir öðrum normum heldur en þau eiga að gera. Það sem hefur breyst er að þau hafa byggt yfir dægradvöl fyrir nemendur. Það er ekki inni í stöðlunum en það er samt mjög einkennilega og knappt reiknað. Ég skil að ríkið vilji halda vel á peningum sínum en ég held að það þurfi að skoða þetta og sveitarfélög kvarta almennt mjög undan þessu.

Ég fékk ekki frekar en hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson svar við því hvernig ætti að dreifa þessum 65 millj. eða 260 millj., hvort þær dreifðust yfir tímann eða eingöngu á þau fjögur ár sem hér um getur.

Ég vildi hins vegar leiðrétta hæstv. ráðherra með annað. Hann segir að sveitarfélögin hafi fengið meira en kostaði að reka grunnskólann áður en kom til leiðréttingar á kjarasamningum við kennara. Það er alrangt hjá hæstv. ráðherra. Það sem bjargaði málinu var gífurlegur tekjuauki og virðisauki í þessu þjóðfélagi sem hækkaði tekjur allra í landinu, þar á meðal sveitarfélaganna. Þannig sluppum við á sléttu frá málinu.