Réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 17:34:16 (6591)

2002-03-25 17:34:16# 127. lþ. 104.3 fundur 629. mál: #A réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum# (EES-reglur, heildarlög) frv. 72/2002, félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[17:34]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

Frumvarp þetta er m.a. lagt fram til innleiðingar á tilskipun nr. 2001/23/EB, um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launamanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækja eða atvinnurekstrar, sbr. tilskipun nr. 77/187/EBE og tilskipun nr. 98/50/EB um sama efni. Fól gerð frv. því jafnframt í sér endurskoðun á gildandi lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 77/1993, sem lagt er til að verði felld úr gildi. Þær breytingar sem frv. felur í sér á gildandi lögum eru sambærilegar þeim breytingum sem tilskipun nr. 98/50/EB hafði á efni eldri tilskipunar.

Reglur frv. taka til réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti á grundvelli framsals eða samruna. Eðli aðilaskiptanna, þ.e. hvort þau verða t.d. fyrir sölu eða leigu á fyrirtæki, er ekki aðalatriðið í þessu tilliti heldur skiptir meginmáli að nýr vinnuveitandi komi að rekstri fyrirtækisins í stað hins fyrri. Er talið nægjanlegt að nýr aðili verði ábyrgur fyrir rekstri fyrirtækis og teljist því vinnuveitandi starfsfólksins.

Gert er ráð fyrir að réttindi og skyldur framseljanda samkvæmt ráðningarsamningi eða ráðningarsambandi sem fyrir hendi er á þeim degi sem aðilaskipti eiga sér stað færist yfir til framsalshafa. Skal framsalshafi virða áfram launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi með sömu skilyrðum og giltu fyrir framseljanda þar til kjarasamningi verður sagt upp eða hann rennur út eða þar til annar kjarasamningur öðlast gildi eða kemur til framkvæmda.

Gert er ráð fyrir að gildissvið frv. taki bæði til einkafyrirtækja og opinberra fyrirtækja án tillits til þess hvort þau eru starfrækt með það að markmiði að afla eigendum hagnaðar. Þá eru lagðar til tvær undanþágur frá gildissviði frv. Að því er varðar opinbera aðila er gert ráð fyrir að frv. gildi ekki um breytingar á skipulagi og starfsháttum stjórnvalds eða tilfærslu á verkefnum milli stjórnvalda. Þá er gert ráð fyrir að gildissvið þess taki jafnframt ekki til hafskipa.

Hugtökin framseljandi, framsalshafi, fyrirtæki og aðilaskipti eru sérstaklega skilgreind en hugtakið aðilaskipti var skýrt nánar í tilskipun 98/50/EB með tilliti til túlkunar Evrópudómstólsins og 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 77/187/EBE. EFTA-dómstóllinn hefur í dómum sínum vísað til dóma Evrópudómstólsins um túlkun á þessari tilskipun.

Frv. hefur að geyma nánari reglur um upplýsingar og samráð vinnuveitanda gagnvart starfsmönnum samanborið við ákvæði gildandi laga til viðbótar þeim upplýsingum sem vinnuveitanda er skylt að láta trúnaðarmanni starfsmanna í té eða starfsmönnum sjálfum sé trúnaðarmaður ekki fyrir hendi samkvæmt gildandi lögum og lagt er til að hann gefi upplýsingar um dagsetningu aðilaskiptanna eða fyrirhugaða dagsetningu þeirra, ef svo ber undir. Enn fremur er að finna í frv. nánari ákvæði um upplýsingaskyldu framseljanda og framsalshafa gagnvart trúnaðarmönnum starfsmanna eða starfsmönnum sjálfum sé trúnaðarmaður ekki fyrir hendi.

Ákvæði 7. gr. frv. eru nýmæli, en þar er kveðið á um að þær skyldur sem hvíla á vinnuveitanda um upplýsingar og samráð gildi án tillits til þess hvort ákvörðun um aðilaskipti er tekin af vinnuveitanda sjálfum eða fyrirtæki sem vinnuveitandi heyrir undir.

Komi fram staðhæfing um brot á kröfum um upplýsingar og samráð er lagt til að það verði ekki talin nægjanleg réttlæting á ætluðu broti vinnuveitanda að honum hafi ekki borist nauðsynlegar upplýsingar frá fyrirtækinu þar sem ákvörðun um aðilaskipti var tekin.

Í frv. er enn fremur lagt til það nýmæli að vinnuveitandi, hvort heldur framseljandi eða framsalshafi, geti orðið skaðabótaskyldur samkvæmt almennum reglum brjóti hann gegn ákvæðum laganna, verði frv. þetta að lögum. Á það sérstaklega við þegar vinnuveitandi virðir ekki launakjör og starfsskilyrði þeirra starfsmanna, verndina gegn uppsögnum og skylduna til upplýsinga og samráðs.

Frv. er því til þess að tryggja réttarstöðu starfsmanna og ég tel að brýnt sé að gera það. Mikið er um að fyrirtæki sameinist eða skipti um eigendur og þá þarf að tryggja að sómasamlega sé komið fram við starfsmennina.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði vísað til hv. félmn. til skoðunar.