Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 18:27:54 (6601)

2002-03-25 18:27:54# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[18:27]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil í fyrsta lagi mótmæla því mjög hart sem kom fram í ræðu hv. þm. Mér finnst ekki drengilegt að fullyrða það úr ræðustól Alþingis að samningurinn hafi verið kynntur á röngum forsendum. Stjórnmálamenn komu að því að kynna þennan samning en ekki síður fulltrúar bændanna úr bændasamtökum og frá Landssambandi sauðfjárbænda þannig að hann var ekki kynntur á röngum forsendum. Ég minni hv. þm. á, þó að hún tali hér fjálglega í dag, að það eru tveir flokkar sem hafa staðið að þessum samningi. Annars vegar er það Framsfl. Hins vegar er það Sjálfstfl. Og ég minni hv. þm. á sem formann landbn. að hún hefur þegar leitt í gegnum þingið stóran hluta af þessum samningi. Eða var það kannski hv. fyrrv. þm. séra Hjálmar Jónsson sem það gerði? (Gripið fram í.) Það er búið að lögfesta álagið hvað beingreiðslur varðar og það er hvatinn í kerfinu til þess að fá menn með. Og það er samningsatriði.

Hinu atriðinu sem hv. þm. nefnir, landnotunum, er frestað til 2004 til þess að vinna tíma þannig að komið hefur verið til móts við það.

Ég er í mjög miklu sambandi við bændur þessa lands og fylgist með fundum þeirra og ég veit að þó að reynt sé að ýfa upp megna óánægju með þennan samning þá eru þeir svo drenglyndir menn að þeir virða það að 66% af stéttinni samþykktu þennan samning og gera sér grein fyrir því að þeir verða að vinna með honum og eftir honum og ætla að gera það. Það er alltaf megn óánægja og auðvitað getur maður haft áhyggjur af ýmsum þáttum í málinu. Undir það get ég tekið með hv. þm. En mér sýnist að hér sé samt sem áður skemmtilegt félagslegt verkefni sem muni styrkja bæði bændurna og ekki síður þessa atvinnugrein.

Ég ætla ekki að hafa uppi neinar fullyrðingar um önnur atriði. En ég vil koma því á framfæri við hv. þm., hæstv. forseti, að stór hluti af þessu máli er þegar lögfestur.