Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 18:40:28 (6611)

2002-03-25 18:40:28# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, KVM
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[18:40]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Það sem er mikilvægast í sambandi við framleiðslu á lambakjöti er að afurðirnar séu góðar og að þeir sem kaupa vöruna séu þess vissir að varan sé góð. Hér er verið að leggja fram frv. til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum, sem felur í sér aukna gæðastýringu. Þetta mun fela í sér marga þætti og aukna skriffinnsku eins og fram hefur komið. Gert er ráð fyrir níu tegundum af skýrslum, ef svo má að orði komast. Þar sem talað er um grunnupplýsingar segir í greinargerð, með leyfi forseta:

,,Þessi þáttur felur í sér að ákveðnum staðreyndum um reksturinn er safnað saman og þær geymdar í gæðahandbókinni.``

Meira er sagt til að útlista þetta. Síðan kemur, herra forseti, atburðaskráning sem er byggð upp eins og útdráttur úr dagbók. Svo kemur sauðfjárskýrsluhald. Svo kemur landnýting og beitarskráning og einnig skjalfesting jarðræktarupplýsinga. Síðan á að vera skráning um uppskeru og fóðrun sem eru tveir liðir, þá aðbúnaðurinn og heilbrigði. Hér er hæstv. landbrh. búinn að rétta mér þessa ágætu möppu, gæðahandbók. (JB: Fyrsta bindi.) Fyrsta bindi, segir hv. þm. Jón Bjarnason, leiðbeiningar um notkun. Auðvitað er nauðsynlegt að vel sé gert í öllum landbúnaði. En þess þarf að gæta að skýrsluhald og bókhald verði ekki svo mikið að það muni bera framleiðsluna eða vinnsluna í kringum þetta ofurliði.

Ég tek undir orð hv. þm. Drífu Hjartardóttur sem hefur talað um að margir bændur hafi kvartað undan þessu. Þeir hafa haft samband við mig sem nefndarmann í hv. landbn. og kvartað undan því að þetta geri of miklar kröfur um skýrsluhald, og einnig telja þeir þá aðgerð ekki sanngjarna að taka af beingreiðslum þeirra sem ekki fara í gæðastýringu og setja yfir á hina sem fara í hana.

Ég legg á það áherslu, herra forseti, þegar við ræðum þessi mál að það mikilvægasta er, eins og ég sagði, að varan sem kemur frá bændunum sé góð og að fólkið sem kaupir vöruna og neytir hennar viti að hún sé góð og að hún sé búin að fá viðurkenningu frá vinnslustöðvunum. Þetta er það sem ég tel að skipti meginmáli. En ég ætla líka að lýsa yfir undrun minni á þessari áköfu andstöðu hv. formanns landbn. við þetta stjfrv., og þykir mér nokkrum tíðindum sæta að það skuli gerast hér í hinu háa Alþingi að ekki skyldi hafa verið búið betur um hnútana --- nema þessi mótmæli bænda hafi komið hv. formanni landbn. algjörlega í opna skjöldu. En eins og ég segi hefur það komið mér nokkuð á óvart líka hversu margir bændur og hópar bænda hafa lýst yfir óánægju með þetta fram komna frv.