Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 19:04:13 (6613)

2002-03-25 19:04:13# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[19:04]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vek athygli hv. þingmanns á því að bændur eru þegar peningalega farnir að njóta þessa samnings í stórum stíl. Þó að staða þeirra sem stéttar sé veik liggur það a.m.k. fyrir.

Ég verð að segja um fullyrðingar þess efnis að samningurinn standist ekki GATT, WTO, standist ekki stjórnarskrána --- hverjum dettur í hug að landbrh. og fjmrh. --- ríkisstjórnin --- komi hér að öðruvísi en að fullsannað sé að svona samningur standist þá alþjóðlegu samninga? Og yfir það var verulega vel farið með utanrrn. þannig að ég vísa því á bug.

Hv. þm. vissi vel, eða á að vita vel, hve margir bændur tóku þátt í atkvæðagreiðslunni, 85%. Af þeim samþykktu samninginn 66% þannig að þetta var mikil þátttaka. Er það ekki mikil þátttaka, hv. þm., ef 85% stéttar taka þátt í að segja álit sitt?

Ég geri mér grein fyrir því að 1/3 er á móti. Ég hef auðvitað áhyggjur af sumum þeirra sem ekki hafa haldið á penna í kringum sína sauðfjárrækt, ekki haldið skýrslur, ekki verið í fjárræktarfélagi, ekki starfað eftir almennum reglum. Ég hef áhyggjur af þessu fólki. En ég tel að námskeiðið eigi að hjálpa því og að við eigum frekar að fá það með en hrekja það frá okkur, fá það til að taka þátt. Ég segi fyrir mig: Ég treysti bændum í Norður-Þingeyjarsýslu sem fengu það sameiginlega verkefni að keyra eftir gæðahandbókinni, taka þátt í að breyta henni og þróa hana. Þeir segja mér að skýrsluhaldið sé ekki flókið heldur mjög auðvelt í framkvæmd. Þessum bændum verð ég að treysta. Þeir hafa prófað þetta kerfi þannig að það liggur fyrir.

Að öðru leyti trúi ég því að hv. þm. sem hefur í ræðum sínum í þinginu og í sjálfri landbn. oft kallað eftir svona gæðaeftirliti og gæðakerfi fagni þessu.