Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 20:36:41 (6618)

2002-03-25 20:36:41# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[20:36]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var sannarlega gaman að heyra þegar náttúrubarnið, bóndasonurinn og bóndinn fyrrverandi náði sér á flug og lýsti í rauninni þeirri einu gæðastýringu sem hefur gert það að verkum að landbúnaður á Íslandi er í fremstu röð á svo mörgum sviðum. Þetta er nákvæmlega sú gæðastýring sem ég þekki. Í gegnum hana er fólginn sá árangur sem menn sjá til þess að fleiri og fleiri geti verið í liðinu og náð sama árangri og ég hef lýst. Gæðastýringarbóndinn hefur, sá sem skýrslurnar heldur og fer eftir leiðbeiningum skólastjórans fyrrverandi, 1 kg þyngri meðalvigt á lömbunum sínum og hálfu lambi meira á á. Það er gæðastýring. Hér stendur ekki til að nota þessa peninga flatt í álaginu út á fituflokka og lélegt kjöt þannig að þetta er ræktunarbúskapur.

Nú vil ég bara spyrja, af því að ég kem nánar að ræðu hv. þm. síðar í kvöld, hvað hv. þm. Jón Bjarnason héldi að formaður BSRB, Ögmundur Jónasson, mundi gera ef hann hefði gert kjarasamning fyrir stétt sína, kjarasamningurinn hefði gengið til atkvæða meðal félaganna, 85% tækju þátt í því, 66% segðu já og samningurinn væri samþykktur. Það væri fari ð að framkvæma samninginn í stórum stíl og bændurnir væru farnir að fá þá peninga sem í samningnum voru. Hvað heldur hv. þm. að formaður BSRB mundi gera ef hætt yrði að framkvæma samninginn og þeir sem hann samþykktu sviknir um þá peninga sem þeir ættu að fá? Væru það ekki svik? Er ekki hv. þm. lýðræðissinni eins og sá sem hér stendur og verður að hlusta grannt eftir hljóði stéttarinnar sjálfrar? Hún fékk að taka þátt í atkvæðagreiðslu og kynna sér þennan samning (Gripið fram í.) og gerði það. Ég er ekki í andsvari við hv. formann landbn. heldur hv. þm. Jón Bjarnason.