Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 21:05:53 (6628)

2002-03-25 21:05:53# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[21:05]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér hefur löngum verið ljóst að það er ekki hið sama að hafa vit á fé og hafa vit á sauðfé. Ræða hv. þm. kemur mér því ekkert á óvart. Henni fylgja auðvitað ákveðnir útúrsnúningar.

Ég vil spyrja hv. þm.: Getur ekki orðið ,,við`` þýtt þjóðin? Getur ekki verið að þjóðin græði á því að eignast góða markaði þar sem vara hennar selst dýrum dómum? Ef við sjáum í hornið á mörkuðum sem vilja borga, eins og hv. þm. fullyrti, 3 þús. upp í 6 þús. kr. fyrir kíló af lambakjöti þá eigum við ekki að yfirgefa það. Í þessu tilfelli getur einfaldur landbrh. átt við, þegar hann segir ,,við``, ekki bara þingið heldur þjóðina. Ég vil spyrja hv. þm. um þetta.

Nú er það svo að hv. þm. er mikill metnaðarmaður á mörgum sviðum og þekktur í rekstri og gæðastýringu á enn fleiri sviðum. Gerir hann sér ekki grein fyrir því að á námskeið þýðir að menn koma saman, gleðjast og fara yfir stöðu atvinnugreinarinnar, gera plön um markaðinn? Það er mikilvægt líka fyrir sauðfjárbændur. Engir menn eru skemmtilegri fundarmenn á Íslandi en íslenskir sauðfjárbændur. Þar njóta þeir sín og þeir hafa gaman af að koma saman á námskeið og kvarta ekki yfir því, enda hafa 1.630 bændur sótt þau námskeið sem þegar hafa farið fram og haft af því gagn og gaman.

Það er nú einu sinni svo að maður er manns gaman og í öllum greinum atvinnulífsins, hvort starfið snýst um vexti og gróða af peningum eða hamingju í kringum sauðfé, er gaman að koma saman og ræða málin þó menn séu ekki eins glaðbeittir og þeir sem vaxtaokrinu stjórna.