Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 21:08:07 (6629)

2002-03-25 21:08:07# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[21:08]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. landbrh. segir mig ekki hafa vit á sauðfé. Það vill svo til að ég ólst upp í sveit og ég hef farið í göngur með bændum austur í Skaftárhreppi. Mér fannst sem þeir teldu mig ekki slæman í að umgangast sauðfé. Ég hleyp hratt.

En það að gera alla þjóðina að markaðsmönnum fyrir landbúnaðinn er ótrúleg forsjárhyggja. Ætli það sé ekki best fyrir hverja atvinnugrein að þeir sem stjórna henni, þ.e. bændur sjálfir, stundi markaðsstarfið og þá með tilvísun í markaðinn sem þeir ætla að reyna að selja á? Ætli það sé ekki langbest að menn geri það sem þeir hafa vit á og kunna best og annað fólk sé ekki að segja þeim hvernig þeir eigi að selja framleiðsluna. Öll þjóðin meira að segja. Ég hugsa að bændum þætti það þokkalegt ef ég færi að segja þeim til.

Svo er afskaplega gaman að koma saman á námskeið, já, já. Það getur vel verið að einhverjum 1.630 af 4.000 bændum þyki gaman að koma á námskeið. En það eru eflaust einhverjir sem ekki þykir það gaman og eru hræddir við að fara í próf, kannski menn sem hafa ekki verið mikið fyrir bóknámið hingað til en kunna afar vel að framleiða gott lambakjöt.