Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 21:19:47 (6633)

2002-03-25 21:19:47# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[21:19]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Það er gaman þegar umræður taka á sig hugsjónablæ og menn lifa sig inn í skoðanir sínar og flytja góðar ræður. Ég get tekið undir hvert einasta orð sem hv. þm. sagði í máli sínu. Þetta er kjarni málsins og þarna hafa afurðastöðvarnar sem eru í eigu bændanna að sumu leyti brugðist í markaðssetningu sinni. Það er þessi tíska sem menn þurfa að skapa. Það eru þau sjónarmið sem hv. þm. kemur hér inn á sem selja vöruna frá hjarta til hjarta, frá manni til manns, að leggja áherslu á sérstöðuna, markaðssetja það út frá samkeppni í bragði og gæðum. Ég bý við það á mínu heimili að konan mín biður alltaf um gimbur þegar ég kaupi skrokk þannig að sjónarmið okkar fara mjög saman í þessu.

Hver segir að það séu ekki einmitt verkefni bændanna sjálfra? Eitthvert verkefni verða þeir að hafa í þessu eins og hv. þm. Pétur Blöndal segir. Á það ekki að vera metnaður þeirra að berjast á markaðnum? Eiga þeir þá ekki um leið og þeir eru komnir í slíkt kerfi, og fá mikla peninga út á, að standa sig á markaðnum og taka við og búa til þann fjölbreytileika?

Ég hygg að það geti orðið eins og í gæðastýringunni í hestamennskunni, að þegar þetta kerfi verður komið á muni margir íslenskir bændur, sem eru stórvel gefið fólk sem kann á alla hluti í dag, tölvur o.s.frv., búa til gáttir út í veröldina og hér innan lands. Unga fólkið ferðast um landið í gegnum tölvur, fer heim á bæinn, heimsækir bóndann, sér hvernig bú hann stundar, sér við hvaða aðstæður lömbin bíta grasið, sér lækina seytla úr hlíðinni og sér það frelsi sem sauðkindin í landinu býr við. Það heillar íslenska neytendur en það mun ekki síður heilla þá mörgu neytendur í víðri veröld sem í vaxandi mæli vilja kaupa vöru á háu verði frá slíkum löndum þannig að auðvitað byggist þetta allt saman á þessu.

Bændur hafa mætt því af hörku. Ég hef veigrað mér við að setja reglugerð á sem nú er að ganga yfir Evrópu um að hægt sé að rekja lambið úr kjötborði og heim að bæ. Þeir telja það mjög flókið kerfi og óþarft. En svo verðum við líka að átta okkur á því að ef við eignuðumst markaði erlendis, og íslenski neytandinn er bara neytandi heimsins með svipaðar kröfugerðir, þá verður margt af því sem við erum að setja hér í gang að vera til staðar til þess að menn fái ekki á sig árásirnar eins og gerðust úti í Evrópu núna með íslenska lambakjötið sem hafði klikkað í meðhöndlun margra afurðastöðva, þó ekki allra. Bændurnir eiga afurðastöðvarnar og bera ábyrgð á þeim. Þeir eiga þær. Kannski er það einhver mesti skaði sem hefur verið gerður á Alþingi Íslendinga að kippa þeim frá markaðnum með lögum 1985 og segja að bændur skuli bara fá allt sitt greitt burt séð frá því hvort varan selst eða ekki. Ég er þeirrar skoðunar að þeir þurfi í gegnum afurðastöðvar sínar að vera nærri markaðnum af tilfinningu, hafa það sem sitt markmið að selja sem mest af kjöti á innanlandsmarkaði. Ég hygg að lögin frá 1985 þar sem ákveðið var að þeir skyldu bara slátra í sláturhúsunum og fá að fullu greitt fyrir áramót hafi skapað þá þróun að þeir standa fjær markaðnum í dag en þeir ættu að gera. Ég hef trú á því að þeir komi núna af fullum þunga inn í afurðastöðvar sínar með falli Goða og taki á, ekki síst í þeim anda sem hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson flutti áðan og reyndar ýmsir fleiri hafa komið inn á.

Herra forseti. Ég ætla svo sem ekki að lengja umræðuna mikið. Ég vil þó segja að samningurinn sem nú er unnið eftir og verið er að greiða bændum eftir var auðvitað á margan hátt tímamótasamningur. Grunnupphæð beingreiðslna í fyrri samningi var 1 milljarður 878 millj. Í nýja samningnum er það 1 milljarður 972 millj. Áður voru greiðslur á ærgildi 4.747 kr. Nú eru þær eftir nýja samningnum 4.986 kr. 60 millj. á ári til viðbótar í sérstakar jöfnunargreiðslur til þeirra sem ekki hafa haft greiðslumark eða hafa haft góðar afurðir eftir sitt fé, oft ungt fólk sem er að setjast að í sveitum. Þetta fá einungis þeir sem hafa 18,2 kg innlegg eftir veturfóðraða á.

Stefnt var að því að kaupa upp 42 þúsund ærgildi. Það er á því stigi að 600 ærgildi eru eftir eða svo. Þegar búið var að kaupa 25 þúsund ærgildi var andvirði þeirra dreift jafnt á alla bændur eða 125 millj. nýtt fé til þeirra sem gerir að meðaltali 11% hærri greiðslur til bænda en áður var.

Síðan hefur það verið mjög gagnrýnt af mörgum bændum, sem var yfirlýsing ríkisstjórnar og samþykkt á Alþingi og fagnað sérstaklega við yfirlýsingu þess sem hér stendur, að andvirði í peningum 7.500 ærgilda skuli fara til sérstakra sauðfjárbyggða, til fólks sem hefur enga aðra atvinnumöguleika. Það er sannarlega byggðaaðgerð, líklega einar 35 millj. á ári. Byggðastofnun mun hjálpa til við að velja svæðin og þeim peningum verður úthlutað til fólks. Í rauninni er sá peningur óviðkomandi samningnum sjálfum. Hann er fyrst og fremst yfirlýsing ríkisstjórnar og Alþingis um að það vilji koma til móts við fólk sem býr við þær aðstæður í byggðarlögum sínum að í rauninni er ekki um neina aðra atvinnumöguleika að ræða til að bæta tekjur sínar en sauðfjárrækt. Þessu vildi ég koma á framfæri.

Síðan vil ég í lokin þakka, þó að hv. þm. Drífa Hjartardóttir gagnrýni þessa stöðu og frv., þá lýsir hún því yfir að hún muni ekki tefja málið, hún muni vinna faglega með það í landbn. (Gripið fram í: Gerbreyta því.) með því fólki sem þar er. Samningum verður aldrei gerbreytt. Auðvitað mun hv. þm. fara yfir málið með þeim sem samninginn gerðu, bæði ríkinu og forustumönnum bænda, en samningum verður aldrei gerbreytt. Blek er gert með þeim hætti að erfitt er að rifta því. Og það er erfitt, hv. þm., þegar 66% bændanna hafa samþykkt samninginn að rjúfa hann með þeim hætti þannig að ég fagna þeirri yfirlýsingu hv. þm. að ætla að vinna svona með málið og fara þá yfir hinar viðkvæmu hliðar og það sem gagnrýnt hefur verið, bæði hér og annars staðar. Það er mjög mikilvægt.

Hér eru ýmsir, eins og hv. þm. Drífa Hjartardóttir, sem telja að frelsið sé fyrir öllu eins og sala án beingreiðslu. Ég er ekki alveg sáttur við það sem gerst hefur í mjólkinni. Það hefur gríðarleg byggðaröskun fylgt því háa söluverði á kvótanum í mjólkinni og ungu bændurnir í þeirri atvinnugrein hafa verið að skuldsetja sig verulega. Standast þeir framtíðina eða standast þeir hana ekki með allar þær skuldir á herðunum? En þar hefur verið mikil þróun og þar hefur verið mikil hagræðing eins og sagt er. Það kann vel að vera að þegar það frelsi tekur gildi von bráðar, þegar 45 þúsund ærgildi hafa verið keypt, þá eru menn fyrst og fremst að kaupa peninga ríkissjóðs hver af öðrum, en það verður auðvitað með þeim hætti að byggðin grisjast og það er kannski mikilvægt líka í þessu efni að þeir sem vilja búa eftir samningnum geti styrkt bú sín þó ég eigi þann draum að sjá 100% bænda taka þátt í gæðastýringunni. Ég vil fá að setja það hér fram að ég býst við því að þegar samningurinn fer að virka komi líka gagnrýni frá þinginu, þó að það heimti frelsið um að selja ríkisstuðninginn, að nú sé sauðfjárbúunum að fækka verulega í landinu. Það mun fylgja þeirri þróun. En þá verður líka mikilvægt að horfa til annarra áttta og þingið hefur tekið þátt í því af myndarskap í fjárlögum sínum að styðja bændur til annarra verka eins og skógræktar, landgræðslu, ferðaþjónustu o.s.frv.

Hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir talaði um flugufregnir frá Hvolsvelli eins og þar hefði verið haldinn frekar ómerkilegur fundur. (SJóh: Nei, ég sagði það ekki.) Hún hafði heyrt einhverjar flugufregnir af honum, það er rétt hjá hv. þm., af svona 250 manns. Það var mjög gagnlegur fundur. Haldnar voru þar 30 ræður og flestar þeirra góðar og menn komu inn á það sem þeir voru að hugsa. Menn hreinsuðu andrúmsloftið og fóru yfir rökin. Ég er ekki að segja að menn hafi orðið um allt ásáttir, en mér fannst samt, eins og kannski hér í umræðunni í dag, að meginatriðið væri það samt sem áður að menn væru ekkert langt hver frá öðrum. Menn vilja hafa einhverja hluta samningsins öðruvísi. Sumir vilja náttúrlega fá að vera algerlega í friði með sitt. Það er mjög heiðarleg afstaða. Það er auðvitað voðalega gaman að fá að búa uppi í dal og vera algerlega í friði og enginn að skipta sér af manni eða gera neinar kröfur til manns. Það er ábyggilega mjög skemmtilegt líf að sumu leyti. En lífið er ekki svona. Lambakjöt er bissniss, markaðsmál og atvinnuvegur sem verður bæði innbyrðis að gera kröfur til sín og taka þátt í því þjóðfélagi sem þróast hér og eiga möguleika á þeim mörkuðum sem gefast.

Mér hefur orðið tíðrætt um bændur í Norður-Þingeyjarsýslu. Ekki hefur heyrst mikið af kvörtunum frá þeim en þeir keyra eftir þessu kerfi. Ég vek athygli enn og aftur á því. Ég bind auðvitað vonir mínar við að um þennan samning verði mikil samstaða. Oft eru deilur um hlutina þegar verið er að ná samningum en um leið og það er í höfn einhenda menn sér í málið og sjá að það er ekkert flókið. Ég sagði áðan að auðvitað hafi einn og einn maður farið offari og fundið þessum samningi allt til foráttu, jafnvel gefið út heilar bækur sem hefur verið dreift á alla bæi til þess að berjast gegn samningnum. Þetta hefur gerst. (Gripið fram í: Hver er það?) Þetta er staðan sem við er glímt í málinu að einhverjir menn sem urðu undir í þeirri atkvæðagreiðslu sætta sig ekki við hana og vilja vinna samningnum allt það ógagn sem þeir geta og helst ógilda hann. Ég ætla ekkert að vera að elta ólar við þá menn. Þeir geta gert það. En ég vil fyrst og fremst styðja bændurna til að reyna að ná öflugri búskap, meiri árangri með afurðir sínar og ég hef farið yfir það, hæstv. forseti, að samningurinn er þegar farinn að virka á þessum sviðum. Búið er að löggilda hann. Álagsgreiðslurnar hafa orðið mjög mikið mál, en þær eru mikilvægar í þessum samningi og lykillinn að því að menn taki þátt í ræktunarbúskapnum, gæðakerfinu. Síðan er náttúrlega margt sem snýr að kröfum neytenda sem mun rætast. En aðalmálið verður síðan að bændurnir vinni úr þeim samningi. Hann er þeirra og markaðssetningin á afurðunum er þeirra og þeir verða auðvitað að fylgja samningnum eftir.

Ég vil að lokum, hæstv. forseti, þakka þá ágætu og fjörmiklu umræðu sem hér hefur farið fram í dag og vænti þess að málið verði skýrt fyrir þinglok, í hvaða farvegi það er, svo hægt verði að halda áfram fyrirhuguðum námskeiðum og fullgilda þennan samning á öllum sviðum þannig að menn viti við hvað þeir búa. Ég treysti á Alþingi Íslendinga í þeim efnum.