Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 21:37:25 (6637)

2002-03-25 21:37:25# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[21:37]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Það vill svo til, hæstv. forseti, hvað mjólkina varðar að bændurnir hafa ekki ráðið miklu um verðið á kvótanum. Því miður hafa aðrir ráðið þar miklu um, mjólkurbú, sveitarfélög o.s.frv., þannig að þar hafa aðrir aðilar tekið að sér að vera milliliðir en þar áttu að vera. Þau viðskipti áttu að vera milli bændanna sjálfra. En því miður hefur verðið verið keyrt upp í gegnum þetta miðstýrða kerfi þar sem mjólkurbúin og sveitarfélögin hafa ráðið meiru en bændurnir og verðið er auðvitað tilbúið á þeirra borði, því miður. Þess vegna væri það auðvitað verðugt verkefni landbn. að fara yfir þá þróun og fara yfir það hvernig ríkisstuðningurinn í sauðfénu verður seldur í framtíðinni. Það eru slík verkefni sem hv. þm. á að taka fyrir í nefndinni.