Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 21:39:43 (6639)

2002-03-25 21:39:43# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[21:39]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég finn það alltaf betur og betur að hv. þm. hefur verið í Framsfl. í gamla daga. Auðvitað er það svo, hv. þm., að mjólkin á aðeins einn markað í dag, þ.e. innan lands. Lambakjötið á líka mjög stóran markað innan lands. Í engu landi í veröldinni borðar hver maður jafnmikið af lambakjöti og á Íslandi. Þess vegna er það, eins og fram hefur komið í þessari umræðu, besti, stærsti og mikilvægasti markaður sauðfjárbænda.

Ég er alveg tilbúinn, hv. þm., að skoða hvernig salan fer fram, hvort óeðlilegir aðilar muni ráða verðinu á ríkisstuðningnum á milli bænda. Ég held að það sé mjög mikilvægt að fara yfir það einnig í mjólkinni hvort sú þróun er eðlileg að aðilar komi inn sem ráði verðinu eins og raun ber vitni.