Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 21:47:38 (6646)

2002-03-25 21:47:38# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, GAK
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[21:47]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um það efni sem við höfum rætt lengi dags en ég verð þó að segja að ég deili þeim áhyggjum með hæstv. landbrh. sem hann lýsti áðan þegar þessi 600 ærgildi verða uppkeypt, þegar hin frjálsa verslun í sauðfjárbúskapnum hefst, því að það er alveg hárrétt sem kom fram í máli hæstv. landbrh. að ekki fara endilega bændurnir sjálfir inn í þessi kaup. Það hefur sýnt sig, t.d. í mjólkurframleiðslunni, að sveitarfélög og afurðastöðvar hafa farið inn í kaupin til þess, eðlilega, að reyna að tryggja búsetu og mjólkurframleiðslu í landshlutum sínum eða landsvæðum. Þar af leiðandi hefur verðþróun iðulega verið með öðrum hætti en menn áttu von á. Heilt á litið er þetta að breytast og ná einhverju jafnvægi.

Ég verð hins vegar að lýsa því að ég held að varðandi sauðfjárbúskapinn geti komið upp nákvæmlega sama staða og hefur komið upp varðandi mjólkurframleiðsluna og hefur reyndar líka komið upp í sjávarútveginum, að byggðirnar standi frammi fyrir því að þurfa að fara inn í þessar atvinnugreinar. Það er, hygg ég, mál sem mörg byggðarlög standa frammi fyrir innan skamms, að þurfa að fara inn í þessar atvinnugreinar, sauðfjárbúskapinn, mjólkurframleiðsluna og sjávarútveginn, með fjármagn því þar eru núna öll kerfin byggð upp á því að selja einhvers konar ígildi. Það er nákvæmlega það sem sveitarfélögin standa frammi fyrir núna. Þegar búið er að kvótasetja t.d. í öllum kerfum í fiskveiðiflotanum eiga menn ekki margra annarra kosta völ en fara með fjármuni í þessi kerfi til að tryggja búsetuna, tryggja viðveruna og atvinnustigið. Eðlilega gætu sveitarstjórnir og landsvæði ekki horft á það aðgerðalaus, t.d. á norðanverðum Vestfjörðum, ef tveir mjólkurbændur mundu hætta. Þá er ég hræddur um að afurðastöðinni á Ísafirði yrði sjálfhætt. Og í byggð þar sem sauðfjárbúskapur hefur látið á sjá á undanförnum árum endar auðvitað með því að sveitarstjórnirnar þurfa að horfast í augu við þetta. Þá er það kerfi sem menn settu upp sem frjálsa verslun milli aðila búið að fá á sig allt annað eðli vegna þess að menn sem búa á þessum landsvæðum horfa á það bara ískalt: Ætlum við að halda velli í þessum kerfum eða ætlum við ekki að gera það? Þá endar það með því, meðan menn eru með peningastyrki í gangi, að menn fara með fjármagn inn í þessar greinar til að hjálpa þeim sem þar eru fyrir að lifa af til að hjálpa sjálfum sér að lifa af. Þetta held ég að við verðum að hafa í huga þegar við erum að tala um þessar þrjár gömlu undirstöðugreinar, mjólkurframleiðsluna, sauðfjárbúskapinn og sjávarútveginn. Þess vegna deili ég áhyggjum hæstv. landbrh., eins og ég skildi hann áðan, því að þetta er einmitt sú þróun sem blasir við, og undan því verður ekki vikist hjá mörgum sveitarstjórnum að fara með peninga inn í þessar greinar til að tryggja að það sem eftir er í viðkomandi grein í viðkomandi byggðum haldi velli. Þannig lít ég á málin.

Þess vegna stendur mér ekki alveg á sama þegar verslun með sauðfjárbúskapinn hefst því að ég held að við sjáum alls ekki fyrir hvaða afleiðingar það getur haft.