Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 22:46:31 (6664)

2002-03-25 22:46:31# 127. lþ. 104.5 fundur 630. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gróðurhúsaafurðir og garðávextir) frv. 84/2002, KÓ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[22:46]

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Sú löggjöf sem við ræðum fjallar um breytingar á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Sá kafli sem hér um ræðir er um gróðurhúsaafurðir.

Ég vil taka fram að í raun er hér um algjöra tímamótalöggjöf að ræða varðandi íslenskan landbúnað. Það eru algjör nýmæli að tollar skuli vera teknir af, öll innflutningshöft, og íslenski markaðurinn opnaður fyrir landbúnaðarvörum eins og gert er með þessari lagabreytingu. Það eru algjör nýmæli. Slík löggjöf í landbúnaði hefur aldrei verið lögð fram á Íslandi. Og ég held að hv. þm. Pétur Blöndal þyrfti aðeins að kynna sér meira hvað verið er að gera og hvað mun gerast í framhaldi af þessari löggjöf vegna þess að sú sjálfvirkni sem hann hefur hér rætt um er ekki innbyggð. Það er staðreynd málsins.

Við bjuggum við það í landbúnaði okkar, og m.a. þeirri grein sem hér um ræðir, að það voru boð og bönn. Það var hér lagasetning sem hljóðaði upp á boð og bönn. Það var einungis heimilt að flytja inn þær vörur sem ekki voru til á tilteknum tímum árs. Það voru reglur sem við kölluðum boð og bönn. Síðan gengum við í EES. Þá var opnað fyrir ákveðinn innflutning án tolla á tilteknum tímum. Þar á eftir samþykktum við GATT-samninginn og hann nær yfir allar landbúnaðarvörur þar sem gert er ráð fyrir tollun. Þar eru tollar verndin fyrir viðkomandi land.

Síðan erum við með þessari löggjöf að breyta umfram. Við göngum langt fram yfir það sem WTO-samningurinn gerir ráð fyrir. Hann gerir einungis ráð fyrir því að hann lækki í þrepum næstu áratugina, að tollarnir lækki í örfáum prósentum á næstu árum, og hafði tekið langan tíma að ná samstöðu um hversu stórt skrefið í tollalækkunum inn í framtíðina skyldi vera. Í sjálfu sér mætti meta það til fjár. Í staðinn er farin sú leið sem hér er verið að tala um. Allir tollar eru teknir af og verslunin gerð frjáls. Hvergi er meira frelsi með viðskipti í landbúnaðarvörum en segir til um í þessu frv. Ég tel þetta vera djarft frv. af hálfu hæstv. landbrh. og þeirra samtaka sem komu að þessu áliti, Samtaka atvinnulífsins, ASÍ og BSRB. Þar hefur verið samstaða um málið. Þetta eru stærstu samtök landsins og ég tek mjög mikið mark á vilja þeirra í þessu efni.

Ég vil einnig að það komi fram að þessar vörur eru að 85% leyti að stofni til íslensk framleiðsla: íslenskt vinnuafl, íslenskt hráefni, íslenskur hiti og íslensk orka. Þegar hv. þm. Pétur Blöndal talar um krónur og aura á hverja garðyrkjustöð vil ég geta þess að á bak við þessar krónur eru 1.500 störf. Í þessari atvinnugrein erum við ekki að ræða um bú eins og við ræddum fyrr í kvöld og í dag þegar við töluðum um sauðfjárbú sem velta 3--4 milljónum hvert og eitt. Við erum að tala um fyrirtæki sem velta 20--60 milljónum á ári þannig að um allt aðra stærðargráðu er að ræða í þessari atvinnugrein.

Rétt er að fram komi að á þessum tíu árum er innbyggð í þennan samning 2,5% rýrnun á þeim fjármunum sem í samningnum eru. Í honum er ákveðin hagræðingarkrafa og fjárhæðirnar eru ekki verðtryggðar að fullu. Einungis varðandi þá fjármuni sem ætlaðir eru til lýsingar --- ef lýsing eykst, sem við vonum svo sannarlega að verði, mun sú upphæð vera fljótandi og hækka.