Vörur unnar úr eðalmálmum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 22:51:58 (6665)

2002-03-25 22:51:58# 127. lþ. 104.6 fundur 620. mál: #A vörur unnar úr eðalmálmum# (merkingar og eftirlit) frv. 77/2002, iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[22:51]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um vörur sem unnar eru úr eðalmálmum. Í frv. er lagt til að settar verði reglur um merkingar og eftirlit með vörum sem unnar eru úr eðalmálmum í atvinnuskyni en engar slíkur reglar eru í gildandi löggjöf.

Tilgangur frv. er í fyrsta lagi að vernda neytendur með því að tryggja frekar en nú er gert að sú vara sem þeim er boðin sé í samræmi við lýsingu seljanda. Í öðru lagi er frv. ætlað að tryggja að vörur sem unnar eru úr eðalmálmum á Íslandi fáist markaðssettar í öðrum löndum.

Löggjöf um eftirlit með eðalmálmum er í gildi annars staðar á Norðurlöndum. Í þeirri löggjöf hafa verið settar reglur til samræmis við alþjóðlegan samning um eftirlit með merkingum og merkingar á vörum unnum úr eðalmálmum frá 1972 sem löndin eru aðilar að. Kveða lögin m.a. á um hvað skuli teljast til eðalmálma, hvernig beri að merkja vörur unnar úr eðalmálmum í atvinnuskyni, eftirlit með því að reglum laganna sé fylgt og kröfur sem gerðar eru til innfluttra vara úr eðalmálmum. Við smíði þessa frv. var fyrst og fremst höfð hliðsjón af danskri og sænskri löggjöf.

Vínarsamningurinn, þessi samningur frá 1972, var undirritaður af Austurríki, Finnlandi, Noregi, Portúgal, Svíþjóð, Sviss og Stóra-Bretlandi en þá voru öll þessi lönd innan EFTA. Síðar bættust Danmörk, Írland og Tékkland við. Þá eru nokkur ríki áheyrnaraðilar og er búist við að sum þeirra gerist fullgildir meðlimir samningsins innan skamms. Ísland er hvorki aðili að samningnum né áheyrnaraðili.

Samningurinn kom til framkvæmda árið 1975. Markmið hans er að örva viðskipti með vörur unnar úr eðalmálmum, stuðla að sanngjörnum viðskiptaháttum og vernda hagsmuni neytenda. Með samningnum var komið á sameiginlegum eftirlitsstimpli sem nefndur er CCM. Aðildarlönd samningsins hafa samþykkt að heimila markaðssetningu á vörum í löndum sínum sem bera þann stimpil án frekari prófana enda séu þær almennt hæfar til sölu í landinu.

Ég vík að drögum að tilskipun Evrópusambandsins um eðalmálma.

Unnið hefur verið að tilskipun um eðalmálma hjá Evrópusambandinu. Um er að ræða drög að nýaðferðartilskipun með það að markmiði að samræma löggjöf aðildarríkjanna á þessu sviði. Upphafleg drög framkvæmdastjórnarinnar eru frá 1993 en nýjasta útgáfan er frá 1996. Drögin ná til vara sem unnar eru úr gulli, silfri, platínu og palladíum og er kveðið á um mismunandi styrkleika þessara málma í vörunni. Einnig er í drögunum kveðið á um markaðssetningu þessara vara og frjálst flæði þeirra, kröfur sem þarf að uppfylla í því sambandi og hvernig staðið er að merkingu og eftirliti. Kveðið er á um skyldur stjórnvalda varðandi útgáfu á stimplum og að komið verði á fót eftirliti með þessum vörum. Ekki hefur náðst samkomulag aðildarríkja Evrópusambandsins um þessi drög. Meðal þess sem ríkin greinir á um er eftirlitsþátturinn, þ.e. hvort prófa eigi vörurnar áður en þær eru settar á markað eða hvort beita eigi eftirliti á markaði. Ekki er fyrirsjáanlegt hvort eða hvenær tilskipun verður sett um þetta efni hjá Evrópusambandinu.

Það frv. sem hér liggur fyrir skiptist í fjóra kafla:

Í I. kafla er gildissviðið afmarkað. Nær frv. til framleiðslu, innflutnings og viðskipta með vörur unnar úr eðalmálmum í atvinnuskyni. Einnig eru helstu hugtök skilgreind, m.a. afmarkað hvað teljast skuli til eðalmálma. Um er að ræða gull, silfur, platínu og palladíum sem hefur ákveðinn hreinleika. Höfð var hliðsjón af danskri og sænskri löggjöf við skilgreininguna. Þá er mælt fyrir um að viðskrh. fari með yfirstjórn samkvæmt lögunum.

Í II. kafla er kveðið á um hvernig vörur unnar úr eðalmálmum skuli merktar og hvaða kröfur skuli gera til vara sem fluttar eru inn frá Evrópska efnahagssvæðinu. Stimplar samkvæmt frv. skiptast í skyldustimpla og valfrjálsa stimpla. Allar vörur unnar úr eðalmálmum í atvinnuskyni verða að bera nafnastimpil, sem hefur verið samþykktur, merktur og skráður hjá Löggildingarstofu, og hreinleikastimpil. Valfrjálsir stimplar eru staðarmerki og ártöl. Gert er ráð fyrir að settar verði reglur um gerð og útlit þessara stimpla. Vörur sem ekki geta talist unnar úr eðalmálmum samkvæmt skilgreiningum frv. mega ekki bera stimpla sem rugla má saman við framangreinda stimpla.

Í III. kafla er mælt fyrir um eftirlit og gjaldtöku. Löggildingarstofu er falið eftirlit með merkingum á vörum unnum úr eðalmálmum en Löggildingarstofa getur falið öðrum opinberum aðila eða faggiltri skoðunarstofu að annast eftirlitið á sína ábyrgð.

Í IV. kafla eru ýmis ákvæði. Þar er að finna refsiákvæði, reglugerðarheimild og gildistökuákvæði.

Hæstv. forseti. Svo sem fram hefur komið í máli mínu er sú krafa í mörgum nágrannaríkja okkar að vörur unnar úr eðalmálmum séu merktar samkvæmt opinberum reglum. Haustið 2000 fór Félag íslenskra gullsmiða þess formlega á leit við viðskrn. að það ynni að lausn á þeim vanda sem skortur á reglum á þessu sviði veldur íslenskum gullsmiðum við útflutning. Í framhaldinu var unnið að þessu frv. í viðskrn. í samráði við Félag íslenskra gullsmiða og Löggildingarstofu. Hér er um þarft frv. að ræða, bæði fyrir framleiðendur og neytendur.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til, hæstv. forseti, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.