Vörur unnar úr eðalmálmum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 22:59:44 (6667)

2002-03-25 22:59:44# 127. lþ. 104.6 fundur 620. mál: #A vörur unnar úr eðalmálmum# (merkingar og eftirlit) frv. 77/2002, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[22:59]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sú sem hér stendur ákveður ekki á hvaða tíma sólarhrings mál eru tekin fyrir á hv. Alþingi. Ég gleðst hins vegar yfir því að málið náði að komast að og verða tekið fyrir í dag þar sem ég tel að hér sé um þarft mál að ræða.

Eins og kom fram í máli mínu var það á árinu 2000 sem þess var farið á leit við viðskrn. að unnið yrði að lagasetningu til þess að styrkja stöðu þeirra sem vinna í þessari iðngrein, m.a. vegna þess að það hefur orðið þeim til vandræða við markaðssetningu á vöru sinni erlendis að ekki hafa nein lög gilt í sambandi við stimpla og þar af leiðandi hefur þeim reynst erfitt að sanna að þeir séu með 100% vöru. Sú er aðalástæða flutnings málsins fyrir utan að þetta er neytendamál. Með því að taka upp þetta fyrirkomulag geta þeir sem kaupa vöruna verið sannfærðir um að þeir séu að kaupa það sem sagt er því að eftirlitið með þessu verður strangt og þar af leiðandi trúi ég að hér sé um þarft mál að ræða. Hvað varðar kostnað við fyrirkomulagið er hann að mestöllu leyti greiddur af greininni.