Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 23:09:18 (6669)

2002-03-25 23:09:18# 127. lþ. 104.7 fundur 640. mál: #A niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar# (heildarlög) frv. 78/2002, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[23:09]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Við ræðum frv. um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar og eins og öll niðurgreiðsla skekkir hún neyslu, þ.e. fólk sem mundi hugsanlega vilja nota aðra orkugjafa til að hita upp híbýli sín, kol, rekavið, heimarafmagn eða eitthvað slíkt, hættir við vegna þess að það er dýrara en að fá hitun með niðurgreiðslu. Niðurgreiðslan hvetur fólk sem sagt til neyslu á þeirri niðurgreiddu vöru sem um er að ræða í óhófi, umfram það sem kannski þarf. Það letur fólk líka til að einangra híbýli sín.

Á móti þessu koma mörg ákvæði sem eiga að vinna á móti því, t.d. styrkur til nýrra hitaveitna. Og nú erum við komin í þá stöðu að farið er að styrkja sveitarfélög og aðra til þess að gera eðlilegar og arðbærar framkvæmdir.

Herra forseti. Ég er með eina spurningu til hæstv. iðnrh.: Hefur verið hugleitt að hverfa af þessari braut og veita mönnum hreinlega styrki fyrir að búa á ákveðnum stöðum og síðan geti þeir notað þá peninga annaðhvort til þess að kaupa raforku á réttu verði eða aðra orkugjafa á réttu verði eða hreinlega nota minni orkugjafa með því að einangra betur eða hafa lægri hita í híbýlum sínum sem er talið vera mjög hollt?

Ég spyr hvort menn ætli virkilega að halda áfram um alla framtíð þeirri stefnu að vera með niðurgreiðslur út og suður sem er þjóðhagslega mjög óhagstætt.