Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 23:12:55 (6671)

2002-03-25 23:12:55# 127. lþ. 104.7 fundur 640. mál: #A niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar# (heildarlög) frv. 78/2002, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[23:12]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Í Sovétríkjunum hinum gömlu tíðkuðust slíkar niðurgreiðslur og jöfnunarstyrkir út um allt. Það er ein aðalástæðan fyrir því hvað efnahagslífið varð óhagkvæmt vegna þess að það svaraði ekki því kalli sem markaðurinn gefur með réttu verði. Verðið verður rangt. Og verðið á raforku til húshitunar á Íslandi er rangt, það er ekki rétt verð. Menn eru að borga minna en það kostar að framleiða viðkomandi vöru, þ.e. rafmagnið.

Við erum með flutningsjöfnuð mjög víða, bæði á sementi, mjólk og bensíni, og allt er þetta skaðlegt fyrir þjóðarbúið í heild sinni vegna þess að það hvetur menn til neyslu. Menn fá ekki styrkinn nema að nota einmitt þetta rafmagn sem er boðið svo ódýrt. Þetta þýðir að neyslan verður of mikil. Það verður svo dýrt fyrir þjóðfélagið að framleiða vöru dýrum dómum og selja hana ódýrt. Og hver eiga að vera viðbrögð markaðarins sem sum okkar trúa á að séu í gildi? Ég hef meira að segja heyrt hæstv. iðnrh. segja að markaðskerfið sé svo yndislegt í Evrópu að ástæða sé til að skoða það. Þar hefur hæstv. ráðherra trú á markaðnum. En markaðurinn á einmitt að segja fólki með réttu verði hver neyslan á að vera. Og verðið er ekki rétt þegar það er niðurgreitt í stórum stíl eins og hér er gert ráð fyrir.