Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 23:14:34 (6672)

2002-03-25 23:14:34# 127. lþ. 104.7 fundur 640. mál: #A niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar# (heildarlög) frv. 78/2002, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[23:14]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Já, markaðskerfið virkar þannig að Jórunn frænka mín í Grímsey, jafnaldra móður minnar, flytur burt úr eyjunni nokkra mánuði á hverjum vetri af því að hún hefur ekki efni á því að eiga heima heima hjá sér og býr hjá dóttur sinni sem er á hagstæðara svæði. Þannig hvetur verðlag á olíu þessa ágætu konu til þess að neyta ekki heldur gera annað. Hún hefur nefnilega ekki komist að þeirri niðurstöðu að minni hiti sé hollur fyrir sig, enda kannski komin á þann aldur.

[23:15]

Herra forseti. Ég held það sé einmitt þetta ástand sem við viljum ekki. Ég held að við hljótum flest að vera sammála um að við viljum ekki búa þannig að fólkinu okkar að það geti ekki verið heima hjá sér af því það hafi ekki efni á því. Það hefur nefnilega gerst á undanförnum árum að olía hefur hækkað svo mikið í verði að fólk hefur átt fullt í fangi með að kynda hús sín eins og þarf hér norður við ysta haf, og það jafnvel þó húsin séu byggð þannig að það sé enginn gluggi á tveimur hliðum til þess að einangra nú betur.

Nei, herra forseti. Ég held að við viljum miklu frekar sjá það fyrirkomulag að við reynum að mæta fólki þannig að það eigi þess kost að búa mannsæmandi búskap í sínum húsum hvar sem það hefur valið sér búsetu, jafnvel þó að þannig hátti til að það eigi engan annan kost til upphitunar en olíu.

Þess vegna fagna ég þessu frv. Ég fagna því að hér skuli vera komið inn ákvæði um að þeir sem kynda hús sín með olíu fái niðurgreiðslu ef upphitunarkostnaðurinn verður þeim þungbær engu síður en þeir sem þurfa að kynda með rafmagni eða með óhagstæðum hitaveitum.

Ég er sammála því að binda þessi ákvæði í lög fremur en reglugerð. Við erum að tala hér um mjög mikla fjármuni. Eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra erum við að tala hér um upphæðir sem á hverju ári geta verið um 1 milljarður þegar hvort tveggja er tekið saman, niðurgreiðsla hins opinbera og afslættir orkufyrirtækjanna. Þetta skiptir máli, herra forseti, og ég hygg að það sé rétt sem hæstv. ráðherra sagði að um það sé býsna víðtæk pólitísk samstaða að standa að málum í þessa veru. Menn kunna að hafa mismunandi skoðanir á einstaka áherslum, en ég held að við séum mörg hver hér sammála um að við eigum að nýta þessa leið til þess að jafna lífskjörin, til þess að vega á móti hinum neikvæðu hliðum markaðskerfisins þegar það virkar orðið eins og ég lýsti hér áðan.

Ég skal taka undir það með hv. þm. Pétri Blöndal að auðvitað getur verið hætta á óhagkvæmni þegar niðurgreiðslum er beitt og þess vegna eru að mínu mati stofnstyrkir til hitaveitna þar sem þess er kostur eða styrkir til framkvæmda sem nýtast heilu samfélögunum í framhaldinu betri kostur ef hægt er að koma því við. En menn verða auðvitað að vera með ákveðinn sveigjanleika og víðsýni í þessum efnum til þess að geta mætt þeim aðstæðum sem uppi kunna að vera, svo ólíkar sem þær eru.

Hæstv. ráðherra nefndi það áðan að það sem hér væri verið að gera eða hefði verið gert á undanförnum árum öllu heldur hefði verið samkvæmt stefnu í byggðamálum. Menn hafa ekki verið alveg sammála um það hvort ætti að skilja olíuhitunarsvæðin út undan hafi verið samkvæmt þeirri stefnu. En við skulum láta það liggja milli hluta. Ég sé hér í frv. samkvæmt því bráðabirgaákvæði sem hér er númer II að hvenær svo sem þetta frv. verður afgreitt þá er fyrirhugað að niðurgreiðsla á olíu til hitunar íbúðarhúsnæðis þeirra sem ekki eiga kost á hitun með hitaveitu eða raforku skuli greiðast vegna ársins 2002.

Herra forseti. Það kemur jafnframt fram að hér er einungis um að ræða 60 íbúðir eftir því sem best er vitað þannig að við erum svo sem ekki að tala um neinn óskaplegan fjölda. En það eru ákveðin atriði sem koma fram í þessu frv. og stundum koma fram hér við umræður sem er hins vegar ástæða til að halda á lofti og það er að hlutur jarðhita í orkunotkun til húshitunar skuli vera orðinn tæplega 90%. Það mætti stundum halda, herra forseti, miðað við það hvernig menn haga máli sínu úr ræðustól Alþingis, að stærstur hluti íbúa landsbyggðarinnar byggi á köldum svæðum, að einungis í póstnúmeri 101 nytu menn sæmilegrar hlýju á heimilum sínum.

En það er ekki svo og eins og hér kemur fram eru 88% húshitunar á Íslandi komin til vegna jarðhita. Þetta er mjög mikilvæg staðreynd. Hún segir okkur að unnið hafi verið mjög vel og ötullega að hitaveituvæðingu landsins. Hún segir okkur að velflestir íbúar landsins búa við orku til húshitunar sem kemur frá jarðhita og er, að við höldum, næstum endurnýjanleg. Menn þekkja kannski ekki til fullnustu hversu lengi sú orka nýtist sem þannig er fengin. En alla vega eru menn að þreifa sig áfram hvað varðar þekkingu á þeim sviðum. Sömuleiðis erum við hér að tala um aðferð til að hita húsnæði sem veldur lítilli sem engri mengun, engri brunahættu og er í alla staði afskaplega jákvæð. Menn þurfa helst að búa erlendis um tíma til þess að átta sig á öllum þeim kostum og hlunnindum sem því fylgja að búa á hitaveitusvæði.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta frv. Mér fannst hins vegar að rétt væri að sýna því þann sóma að taka þátt í umræðunni. Eftir andsvar hv. þm. Péturs Blöndals var eiginlega ómögulegt annað en að leggja aðeins orð í belg. Eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra fjallar þetta frv. um hluta af aðgerðum ríkisins á undanförnum árum. Hluti verður síðan í öðrum frv. sem e.t.v. munu líta dagsins ljós einhvern tímann á hinu háa Alþingi ef marka má orð hæstv. ráðherra. Ég hygg að ekki verði mikill ágreiningur um þetta mál þó svo að gagnrýnisrödd hafi þegar komið fram. Það mun að sjálfsögðu verða skoðað í iðnn. og sent til umsagnar, kallað eftir viðhorfum ýmissa aðila til þess. En mér sýnist að hér hafi þannig verið staðið að málum að ekki ætti að þurfa að vera mikill ágreiningur um málið, a.m.k. ekki miðað við að hér erum við að tala um orkumál, en það er tilfinning mín, herra forseti, að þau hafi verið og muni verða í næstu framtíð einhver stærstu ágreiningsmál þingsins.