Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 23:38:31 (6675)

2002-03-25 23:38:31# 127. lþ. 104.7 fundur 640. mál: #A niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar# (heildarlög) frv. 78/2002, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[23:38]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það er eiginlega eitt atriði sem fékk mig til að taka hér til máls en áður en ég kem að því langar mig að taka undir það sem hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson talaði um. Það er þessi vandi sem er fólginn í viðvarandi orkusóun og við finnum oft fyrir, t.d. í Reykjavík. Hér er hitastig í húsum miklu hærra en við eigum að venjast annars staðar og það er öruggt að mikinn hita mætti spara án þess að það kæmi niður á vellíðan fólks. Ef ég man rétt hefði verið hægt að fresta virkjun á Nesjavöllum um tíu ár ef sambærileg orka hefði verið notuð á Reykjavíkursvæðinu og við kyndingu íbúða annars staðar á landinu. Slík var orkusóunin á þeim tíma, kannski hefur það lagast síðan, en enn þann dag í dag sjáum við einfalt gler í gluggum á Reykjavíkursvæðinu og einhvern hóp af húsum sem ekki hefur verið einangraður. Allt er þetta vegna þess að verð á orkunni er mjög hagstætt og lágt en þetta er fylgifiskurinn.

En ástæða þess að ég vildi taka til máls er 12. gr. frv. Ég tek fram að ég styð frv. og er í raun og veru mjög sáttur við áherslurnar í þessum málum. En í 12. gr. frv. er verið að tala um fjárhæð styrkja til nýrra hitaveitna. Ég hef þá skoðun að fimm ára niðurgreiðslur sem hafa verið veittar sem styrkir séu ekki í öllum tilfellum nægilega mikill styrkur og mjög skynsamlegt geti verið að íhuga möguleika til að koma á nýtingu á heitu vatni eða öðrum kostum þó að það mundi kosta meiri niðurgreiðslur en svarar til fimm ára niðurgreiðslu. Ég gæti reyndar tekið dæmi um það og ég tel ástæðu til að skoða þessi mál betur.

Í raun og veru þarf svo sem ekki mikinn rökstuðning fyrir þessu. Ríkið er búið að taka upp þá stefnu sem liggur hér fyrir og rétturinn til niðurgreiðslunnar er þá sá að ríkið spari sér styrki um fimm ár sem þýðir að eftir fimm ára tímabil fer ríkið að græða þennan styrk sem annars hefði verið greiddur inn á svæðið. Stundum er hægt að hagnast á hlutunum þótt síðar verði. Ég fer fram á það að í hv. nefnd fari menn svolítið yfir þetta og velti fyrir sér hvort ekki eigi að vera einhvers konar undantekningarákvæði til að koma til móts við möguleika til að koma á hitaveitu eða nýta orkugjafa þó að það gæti kostað fleiri ár en þarna kemur fram.

Þetta var erindi mitt í ræðustólinn, hæstv. forseti, að hvetja nefndarmenn til að skoða þetta vandlega. Ég geri ráð fyrir að hægt sé að benda mönnum á ýmis dæmi um að þetta gæti verið herslumunurinn sem til þyrfti.