Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 23:42:42 (6676)

2002-03-25 23:42:42# 127. lþ. 104.7 fundur 640. mál: #A niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar# (heildarlög) frv. 78/2002, GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[23:42]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Ástæða þess að ég kvaddi mér hljóðs við þessa umræðu var ræða míns ágæta flokksfélaga, hv. þm. Péturs H. Blöndals. Ég vil ekki að sú ræða verði eina framlag Sjálfstfl. við þessa umræðu. Það gæti skilist svo að hv. þm. hefði verið að túlka stefnu Sjálfstfl. Svo er alls ekki. Ég hygg að hann sé sá eini úr þingflokki okkar með þá skoðun sem hann setti hér fram og einn um andstöðu við þetta frv. Sama á reyndar við um það sem hann sagði um jöfnunargjöld. Hann nefndi olíu, sement og fleira sem hann hefur oft nefnt á Alþingi áður en hann er nokkuð einn um þá skoðun líka. Það er hin almenna skoðun í mínum flokki að olía eigi að kosta það sama í Reykjavík og á Raufarhöfn og sementið eigi að kosta það sama á Akranesi og á Akureyri. Þetta vildi ég láta koma fram í tilefni af orðum hv. þm. þannig að það skiljist ekki svo að hann hafi verið að boða stefnu flokksins.

Framlög til niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar hafa farið vaxandi á undanförnum árum. Þessi framlög voru um 700 milljónir á síðasta ári og á fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir að þau verði 853 milljónir úr ríkissjóði, afsláttur Landsvirkjunar 100 milljónir og afsláttur Orkubús Vestfjarða og Rafmagnsveita ríkisins um 20 milljónir, auk minni háttar niðurgreiðslu hjá öðrum veitufyrirtækjum þannig að gera má ráð fyrir að niðurgreiðsla á rafhitun til húshitunar og afsláttur orkufyrirtækja sé allt að 1 milljarður á þessu ári.

Eins og kemur fram í greinargerð hefur á þessum tæpu 20 árum, frá 1982 til ársloka 2000, sem þessir styrkir hafa verið í gildi verið varið til þeirra 9 milljörðum kr. og það er augljóst að þetta hefur verið til mikilla hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Við þessa umræðu hefur verið nefnt að hér sé um byggðamál að ræða sem er auðvitað hárrétt. Þetta er mikið byggðamál og rétt að minna á að í þeirri byggðaáætlun sem Alþingi samþykkti fyrir árin 1999--2001 var mörkuð sú stefna að nýta fé sem ætlað er til niðurgreiðslu á rafhitun til íbúðarhúsnæðis til þess að lækka stofnkostnað nýrra hitaveitna og stuðla með þeim hætti að aukinni notkun jarðvarma til húshitunar.

[23:45]

Í byggðaáætluninni var miðað við að styrkir til einstakra hitaveitna gætu numið sömu fjárhæð og sem nam fimm ára niðurgreiðslu rafhitunar á dreifiveitusvæðum nýrra veitna. Þetta er eitt af því fjölmarga sem gekk eftir í byggðaáætluninni og hefur heppnast afskaplega vel. Eins og kemur fram í frv. og grg. með því hafa frá því úthlutun styrkjanna hófst 1999 sjö veitur fengið slíka styrki upp á 216 milljónir, frá 6,6 og upp í 103,5 milljónir hver. Ég held að þetta hafi í a.m.k. sumum tilfellum sem ég þekki til ráðið úrslitum um að menn hafa treyst sér til að ráðast í byggingu hitaveitu.

En ég tek undir það með hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að menn hafa velt vöngum yfir því hvort slíkt niðurgreiðslutímabil ætti að vera lengra en fimm ár og ég tel að það eigi að skoða það. Menn hafa stungið upp á sjö árum og jafnvel tíu árum. Eins og kom fram í máli hans er ríkissjóður til lengri tíma litið að spara peninga með slíkum niðurgreiðslum og ég held að ef þetta tímabil væri örlítið lengra mundi það kannski liðka enn frekar fyrir byggingu slíkra hitaveitna.

Gerð er hér grein fyrir helstu breytingum sem verða við þetta frv. frá núgildandi reglum og það er náttúrlega það fyrsta að mögulegt verður að greiða niður hitun með olíu hjá þeim sem eiga ekki kost á annarri hitun. Og að eigendur smávirkjana eigi kost á niðurgreiðslum á rafhitun og þá verði notkunin að vera mæld. Eins ef notuð er varmadæla við hitun íbúðar. Þá flokkast orkan inn á hana sem raforka til hitunar og nýtur niðurgreiðslna, en slík notkun hefur ekki verið niðurgreidd til þessa. Hitaveitur sem ekki eru opinberar veitur geta fengið styrk til stofnunar nýrrar veitu eða stækkunar eldri veitu. Fleira er smávægilegt sem breytist.

Það er eitt sem hefur verið rætt nokkuð oft í fjárln. og víðar varðandi þessar niðurgreiðslur, hvort þær eigi ekki líka að gilda um þá sem búa við dýrustu hitaveitur, því það er auðvitað alveg sami bagginn fyrir íbúðareigendur að borga háa húshitun hvort sem það er frá hitaveitu eða með rafmagni eða olíu. Ég hefði haldið að það ætti að skoða hvort ekki ætti að láta þetta gilda yfir hitaveitur líka.

Þetta var nú það sem ég vildi láta koma fram við umræðuna, herra forseti, en ég styð þetta frv. eindregið.