2002-03-25 23:52:06# 127. lþ. 104.8 fundur 641. mál: #A löggilding nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum# (EES-reglur) frv. 69/2002, iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[23:52]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli sem iðnrh. fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, með síðari breytingum. Frv. er á þskj. 1036 og er 641. mál þingsins.

Í frv. eru lagðar til minni háttar breytingar á lögunum vegna upptöku tilskipunar 2001/19/EB frá 14. maí 2001 í íslenskan rétt, en tilskipunin snertir viðurkenningu á starfsheitum ýmissa stétta á grundvelli almennra tilskipana og tilskipana um einstakar stéttir. Í lögunum er vísað í tvær tilskipanir, annars vegar tilskipun 85/384/EBE varðandi arkitekta og hins vegar tilskipun 89/48/EBE varðandi aðrar starfsstéttir, t.d. verkfræðinga og tæknifræðinga. Er gert ráð fyrir að ekki verði aðeins vísað í upphafleg númer tilskipana heldur jafnframt í síðari breytingar á þeim.

Jafnframt eru í frv. tekin af tvímæli um skyldu til rökstuðnings ef synjað er um leyfi til að bera starfsheitið arkitekt og að umsækjendum um leyfi til að bera starfsheitið arkitekt sé rétt að leita til dómstóla vegna synjunar er þeir kunna að fá, svo og ef ákvörðun er ekki tekin innan tilsetts frests sem nánar er tilgreindur í tilskipuninni.

Í athugasemdum með frv. kemur fram að menntmrn. muni flytja sérstakt lagafrv. sem snertir aðra þá tilskipun sem greint er frá í lögunum um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, þ.e. tilskipun 89/48/EBE, enda snertir sú tilskipun viðurkenningu á menntun og prófskírteinum almennt. Er vísað til þess frv. varðandi nánari upplýsingar um þá tilskipun. Frv. er ekki talið munu hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs.

Hæstv. forseti. Ég vænti þess að frv. verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnn.