Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 11:08:20 (6683)

2002-03-26 11:08:20# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[11:08]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa ræðu. Hún tók á mörgum málum sem vöktu athygli mína, lagði áherslu á það að leggja hinum fátækari ríkjum meira lið og tel ég aldrei vera nóg að gert í þeim efnum. Hluti hinnar sjálfbæru þróunar er að ganga ekki á rétt fátækari þjóða og það er skylda okkar að hjálpa þeim eins og við getum og stuðla að því að vestræn ríki og ríku þjóðirnar gangi ekki á auðlindir þeirra. Þá er ég að hugsa um auðhringi og önnur stór fyrirtæki sem hugsa kannski síður um hag þegna þessara fátæku landa. Það kemur okkur til góða sem búum í hinum ríku löndum. Mér finnst aldrei nógu oft minnst á þetta, herra forseti.

Svo langar mig til að vekja athygli á einu í sambandi við ræðu hæstv. ráðherra. Þegar rætt er um hafið og að ganga vel um það finnst mér oft skorta á að rætt sé um hvers konar veiðarfæri skipin nota. Ég var á fundi vestur á fjörðum um daginn og þar ræddu saman eldri menn, gamlir sjómenn og útgerðarmenn, og lýstu áhyggjum sínum yfir því hvernig veiðarfæri væru að breytast og hvernig þau væru farin að skemma botn hafsins sem hefur aftur þau áhrif að fiskstofnar komast ekki vel upp og e.t.v. alls ekki.