Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 11:47:33 (6689)

2002-03-26 11:47:33# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[11:47]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég neyðist náttúrlega til að leiðrétta það að það sé stefna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að vera andvíg nýtingu tiltekinna auðlinda. Mér leiðist að hæstv. utanrrh. skuli þurfa að koma með slíkar klisjur hér. En það er ekki þar með sagt að ekki geti verið ágreiningur um það í pólitík hvernig beri að nýta tilteknar auðlindir og hvaða skilyrði sú nýting verði að uppfylla. Það er það sem þetta mál snýst um.

Öræfi landsins geta verið auðlind í margvíslegum skilningi. Ein aðferðin til að nýta þau er kannski að byggja þar uppistöðulón og malbika þau og leggja um þau línur. Önnur aðferð getur verið að nýta þau sem útivistarland, njóta þeirra á annan hátt o.s.frv.

Fyrst og fremst er það krafa okkar að öll auðlindanýting uppfylli tiltekin skilyrði um umgengni við umhverfi og náttúru, en að því uppfylltu erum við ekkert öðruvísi nýtingarsinnar í þeim skilningi að gæði slíkra auðlinda séu nýtt í þágu velferðar mannsins, að sjálfsögðu.

Það sem ég geri hins vegar athugasemdir við, þó auðvitað megi deila hér um túlkun á þessum orðum, er að þetta hljómar pínulítið eins og að það markmið að hámarka efnahagslega velferð sé einhvers konar yfirmarkmið. Ég tel að til þess að allt sé í jafnvægi og í sátt við þá hugsun sem lögð er til grundvallar sjálfbærri þróun þá verði menn að átta sig á því að önnur markmið eru jafnrétthá, t.d. þau að gæta umhverfisins og náttúrunnar og spilla ekki lífsgæðum komandi kynslóða. Ég hef ekki áhuga á því að leggja utanrrh. orð í munn eða gera honum upp skoðanir. En það þarf a.m.k. að vera algjörlega skýrt að til þess að önnur markmið séu ekki fyrir borð borin getur þurft að setja skorður hinum efnahagslegu kröfum um sífellt aukinn hagvöxt og aukna auðlindanotkun. Það var sú athugasemd sem ég var í raun og veru að gera hér.