Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 11:56:19 (6693)

2002-03-26 11:56:19# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[11:56]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ætli menn reyni ekki að segja að samningar sem þeir eru að fara að bera undir þjóðaratkvæði og eru að reyna að fá samþykkta séu góðir. Það væri sérkennilegur leiðtogi þjóðar sem kæmi með niðurstöðu úr samningum heim í farteskinu og segði svo: ,,Ég vil að þið samþykkið þennan samning, en hann er mjög vondur.`` Þykir hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni það sérkennilegt að ráðamenn á Möltu reyni nú að fegra heldur sinn hlut ef þeir ætla að reyna að fá þetta samþykkt? Hvað gerðu Norðmenn? Þeir reyndu eins og þeir mögulega gátu að sannfæra norsku þjóðina um að samningurinn frá 1994 væri góður. En hann var auðvitað vondur. Hann var hörmulega lélegur. Þriggja ára tímabundin aðlögun fyrir svæði norðan 62. gráðu dugði ekki eins og hv. þm. veit mjög vel.

Ég bið hv. þm. að vera ekki að leggja mönnum neitt orð í munn eða gera mönnum upp meiningar. Hef ég staðið hér og sagt að Evrópusambandið væri vont? Það mátti ráða af orðum hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Það er ekki þannig. Hvers vegna eru menn að fara út í svona frasagerð?

EES-samningurinn er ekki gallalaus og það liggur alveg fyrir. En hann er sá grundvöllur sem við höfum í dag og við höfum sagt: Gott og vel, byggjum þá á því að svo miklu leyti sem þessir hlutir koma til með að breytast á komandi árum, vitum þá í hvaða átt við viljum þróa þessi samskipti. Þar kemur setningin inn um að leitast við að þróa þessi samskipti við Evópusambandið eftir því sem þau taka breytingum á komandi árum í átt til einfaldari tvíhliða samninga um viðskipti og samvinnu af því að það sýnist okkur henta betur smáríkinu Íslandi í samskiptum við þennan stóra aðila. Viðskiptakjörin eru til staðar og ég held að menn geri yfirleitt ekki því skóna að þau komi til með að versna.

Varðandi aftur fiskstofnana þá er það nú í fyrsta lagi þannig að það á eftir að semja um kolmunnan og ekki bara hann. Hefur ekki hv. þm. áhuga á því t.d. að við náum samningum um smokkfisk og um túnfisk? Hv. þm. hefur áhuga á tegundunum í miðsjávarrýminu. Ætli það eigi ekki eftir að skjóta upp kollinum á komandi árum og áratugum ýmis óleyst deilumál og samskiptamál þar sem sjálfsákvörðunarréttur og samningsréttur reynist mikilvægur?