Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 12:43:18 (6699)

2002-03-26 12:43:18# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[12:43]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir spurðist fyrir um það hvort það væri líklegt að á næstu ráðstefnu Alþjóðhvalveiðiráðsins í Japan yrði Íslendingum hafnað á nýjan leik. Íslensk stjórnvöld líta þannig á að við séum aðilar að Alþjóðahvalveiðiráðinu. Við teljum að sú aðgerð sem hafi átt sér stað á síðasta fundi hafi verið ólögmæt og við komum þar fram í einu og öllu sem fullgildir aðilar. Við höfum litið þannig á að við værum fullgildir aðilar.

Aðildarumsókn okkar var hafnað afskaplega naumlega. Aðeins einu atkvæði munaði og mér finnst afskaplega ólíklegt að aðildarríkin muni leggja í að hafna okkur á nýjan leik. Sjútvrn. og utanrrn. hafa unnið sameiginlega og skipulega að því að ræða við aðildarríki Alþjóðahvalveiðiráðsins og við höfum fulla ástæðu til að ætla að komist verði hjá því að sambærileg uppákoma eigi sér stað á fundinum í Japan. Það mundi skaða Alþjóðahvalveiðiráðið til langrar framtíðar og það er alveg ljóst að um yrði að ræða meiri háttar uppnám af þeim sökum.

Í ljósi þeirra viðræðna sem hafa átt sér stað á undanförnum mánuðum höfum við fulla ástæðu til að ætla að svo verði ekki og það komi aðeins fram full viðurkenning á starfi Íslands og þátttöku Íslands í þessum samtökum og að þar muni þjóðirnar ekki síst hafa í huga framtíð Alþjóðahvalveiðiráðsins sem er mikilvægt að þeirra mati að geti starfað sem eðlilegast í framtíðinni.