Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 13:50:20 (6704)

2002-03-26 13:50:20# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[13:50]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að enginn deili um að þar er um lýðræði að tefla og einræðistilburði í Zimbabwe sem enginn vill sætta sig við. En að frjáls markaður framkalli velferð, ég held að þeim finnist það ekki endilega í Argentínu eftir nánast gjaldþrot þjóðarinnar en Argentínumenn, og það er athyglisvert, fóru í einu og öllu að þeim skilyrðum sem Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn settu. Þeir voru búnir að einkavæða og markaðsvæða nánast alla grunnþjónustu samfélagsins, vatnsveiturnar, raforkuverin, og niðurstaðan varð þessi, nánast þjóðargjaldþrot. Það sem ég hef gagnrýnt er einmitt þetta sem hæstv. utanrrh. er að segja okkur núna að eðlilegt sé, eða þannig skil ég hann, að setja þjóðfélögunum, þessum fátæku þjóðum slík skilyrði. Hann vísar í breytingar á grunnþjónustunni. Nákvæmlega í þessa veru hefur Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sett skilyrði. Áður hét það ,,Structural Adjustment Programs`` nú heitir það ,,Poverty Reduction Agreement``, þ.e. samkomulag um að ná að draga úr fátækt. Þetta eru sömu tónarnir og við heyrum í ræðu hæstv. utanrrh.

Ég er með fréttatilkynningar úr ræðum sem hæstv. utanrrh. flutti einmitt á fundi Alþjóðabankans í Hong Kong árið 1997 þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

,,Utanríkisráðherra lýsti fullum stuðningi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna við sérstakt átak Alþjóðabankans til að auka fjárfestingar einkaaðila í orkumálum, samgöngu- og fjarskiptakerfum þróunarríkjanna.`` Og fyrr í ræðunni, ég er búinn að fara mjög rækilega yfir þetta, er vísað í grunnþjónustuna. Þetta er ástæðan fyrir því, herra forseti, að fátækustu þjóðir heimsins hafa ekki treyst sér til að taka tilboði um niðurfellingu skulda vegna þess að þeim eru sett slík skilyrði og Ísland tekur því miður þátt í þessu.