Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 13:52:34 (6705)

2002-03-26 13:52:34# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[13:52]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Lokið er við niðurfellingu skulda hjá 26 þróunarríkjum. Þetta kemur fram í skýrslu minni á bls. 75, og um er að ræða 40 milljarða bandaríkjadollara. Reiknað er með því að það átak taki til meðferðar skuldastöðu 38 landa og áfram verður unnið í þeim anda. Var það rangt af Íslandi á sínum tíma að fara í forustu ásamt öðrum Norðurlöndum í slíkt átak? Þetta hefur tekist afskaplega vel. Það er alveg rétt að sett voru ákveðin skilyrði. En þegar um svona háar fjárhæðir er að ræða, þá er náttúrlega nauðsynlegt að menn líti til þess að þetta geti orðið viðkomandi fólki framtíðarlausn og þeir leiðtogar og kjörin stjórnvöld í þeim löndum taki tillit til lýðræðislegra stjórnarhátta og leysi mál með þeim hætti sem best gengur í heiminum.

Það er alveg rétt að ég sem utanrrh. hvatti til þess 1997 að erlendir aðilar fjárfestu í þeim löndum. Það er það sem þau lönd þurfa á að halda og ég er ekkert einn um það að hvetja til slíkra fjárfestinga. Ég veit ekki betur en það geri öll ríki heims meira eða minna því að þróunarríkin þurfa á því að halda að þar skapist stöðugleiki og þar skapist tækifæri til fjárfestinga. Þetta eru mjög fátæk ríki og eina leiðin til þess að þau geti staðið betur er a.m.k. ekki síst að fá inn til sín erlenda fjárfestingu.