Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 13:56:59 (6707)

2002-03-26 13:56:59# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[13:56]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Mig langar til að byrja á því að vitna beint til orða í framsöguræðu hæstv. utanrrh. en þar segir, með leyfi forseta:

,,Markaðurinn er oft blindur gagnvart afleiðingum sínum. Því verða stjórnvöld að sjá til þess að alþjóðaviðskiptakerfið stuðli að sjálfbærri þróun, en grafi ekki undan henni.``

Ég vitna til þeirra m.a. í ljósi þeirra orðaskipta sem fóru fram rétt áðan milli hæstv. utanrrh. og hv. þm. Ögmundar Jónassonar því að auðvitað er alveg ljóst að átakið við niðurfellingu skulda fátækustu ríkja heims og við að nútímavæða efnahagskerfi þeirra hefur verið mjög umdeilt. Skilyrðin sem hafa verið sett sumum þessara ríkja hafa hreinlega verið þannig að ekki hefur verið hægt að fullnægja þeim með góðu móti. Við verðum að ræða hlutina, herra forseti, eins og þeir eru. Átakið sem slíkt, markmið þess er göfugt og gott en það er ekki alltaf sama hvaða leiðir eru farnar að markmiðinu.

Herra forseti. Reynsla síðustu áratuga hefur sýnt okkur með óyggjandi hætti að kenningar frjálshyggjunnar um að vaxandi hagvöxtur og velsæld muni að lokum skila sér til þeirra sem búa við mesta fátækt og oft algera örbirgð eiga við lítil rök að styðjast. Meðaltölin blekkja, herra forseti. Þótt þjóðarframleiðsla reiknuð á hvert mannsbarn aukist í mörgum löndum er ekki þar með sagt að velferð og hagsæld í þeim samfélögum, velferð og hagsæld íbúa þeirra landa batni og aukist almennt séð.

Misskipting þess mikla auðs sem jarðarbúar eiga hefur líklega aldrei verið meiri en nú í upphafi 21. aldarinnar. Um fimmtungur mannkyns, herra forseti, 1,3 milljarðar manna, dregur fram lífið á 100 kr. á dag og 70% þeirra eru konur, herra forseti.

Á fundi Sameinuðu þjóðanna í Monterrey í Mexíkó á dögunum hvatti Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, til þess að aðstoð við fátækustu ríki heims verði aukin um helming. Fram hefur komið í fréttum af fundinum að þrátt fyrir að ríki Evrópusambandsins og Bandaríkin hafi heitið auknum stuðningi á næstu árum er aðeins um fjórðung þeirrar upphæðar um að ræða sem Kofi Annan telur nauðsynlegt að lögð verði fram í því skyni. Það eru því fleiri en Íslendingar sem þurfa að stórauka framlög sín til fátækra þjóða á næstu árum, enda erum við í hópi ríkustu þjóða heims og það þarf að gera með ýmsum hætti, herra forseti.

Oft er það svo að verkefnin virðast óendanleg og stundum óyfirstíganleg þegar kemur að þróunarsamvinnu og alþjóðlegri samvinnu og aðstoð við fátækustu ríki heims. Víst er það að flestum á jörðinni eru búin ólíkt bágari kjör en okkur sem búum á Íslandi. Ég vil vitna til upplýsinga frá Worldwatch-stofnuninni í Bandaríkjunum, um stöðu kvenna, með leyfi forseta:

[14:00]

Hálf millj. kvenna deyr árlega af völdun þungunar og barnsburðar --- það eru 500 þús. konur, herra forseti. Flest þessi dauðsföll hefði auðveldlega mátt koma í veg fyrir með betri heilsugæslu og hreinlæti. Fleiri konur en karlar eru fórnarlömb eyðni í heiminum, alnæmis, 20--50% allra kvenna í heiminum verða fyrir ofbeldi af hálfu ástvinar eða einhverra sem nálægt þeim standa í fjölskyldunni á lífsleiðinni. 2 millj. stúlkubarna eru umskornar á hverju ári. Af þeim tæpa milljarði manna sem ekki kann að lesa eru 2/3 hlutar konur. Í flestum löndum heims er fátæktin kvengerð hvort sem um er að ræða fátækustu löndin ellegar þau sem betur eru sett. Og það á líka við á Íslandi, herra forseti.

Með heildstæðri stefnumótun, pólitískri framsýni og úthaldi má bæta kjör kvenna og barna, og þar af leiðandi allra um allan heim með harla einföldum aðferðum. Mæðraskoðun og mæðraeftirlit er grundvallaratriði. Ungbarnaeftirlit og bólusetning gegn þeim sjúkdómum sem bólusett er gegn, t.d. á Íslandi, er algert grundvallaratriði. Umskurði stúlkubarna verður að hætta. Efla verður grunnheilsugæslu sem helst þarf að vera ókeypis. Efla þarf aðgengi allra að ódýrum og góðum lyfjum við þeim sjúkdómum sem hrjá stærstan hluta mannkyns. Þeir eru malaría, berklar, alnæmi og sjúkdómar í öndunarvegi. Aðgangur að hreinu vatni er algert lykilatriði. Það má einnig segja um lestrarkennslu barna, stúlkna og drengja, en 2/3 þeirra sem eru ólæsir í heiminum eru konur eins og ég gat um.

Þá þurfum við einnig að huga að reglum um eignarhald og erfðareglum í samfélögum. Þær eru mjög flóknar og menningarbundnar að sjálfsögðu, eins og við vitum, en víða er eignarhald á landi fátæku fólki mestur fjötur um fót í lífsbaráttunni, t.d. í Suður-Ameríku þar sem nokkrir vellauðugir landeigendur halda fólki í raun í ánauð á landi sínu.

Þegar rætt er um frjáls viðskipti og opnun markaða, herra forseti, er nauðsynlegt að hafa það í huga að þeir sem þurfa að vinna verkin þar eru ekki fátækustu ríkin heldur þau ríkustu sem þurfa að opna markaði sína fyrir vörum úr suðrinu. Þar eru miklir hagsmunir í húfi, ég geri mér grein fyrir því. En ríkjum verður aldrei hjálpað úr þessari fátækt ef þeim er ekki gert kleift að selja vörur sínar á alþjóðlegum markaði eftir sanngjörnum viðskiptareglum, herra forseti. Þess vegna er afnám viðskiptahindrana og tolla ekki síst fátæku fólki í hag.

Í haust verður haldin heimsráðstefna Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg í Suður-Afríku og búist er við tugþúsundum þátttakenda. Á fundi umhvn. á dögunum kom fram að í undirbúningi er að senda embættismenn allt að fimm ráðuneyta til ráðstefnunnar, og a.m.k. tveir hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar þykjast munu taka þátt í henni. Hæstv. forseti Alþingis hefur svarað beiðni umhvn. um stuðning við þátttöku í ráðstefnunni, þ.e. stuðning við þátttöku þingmanna í ráðstefnunni, og svaraði hann því erindi neitandi í desember sl.

Það verður ekki sagt, herra forseti, að metnaðinum sé fyrir að fara á Alþingi Íslendinga þegar kemur að þátttöku þingmanna í einhverri mikilvægustu ráðstefnu sem haldin hefur verið um árabil. Við sem hyggjum á þátttöku í ráðstefnunni um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg munum því ekki verða hluti sendinefndar Alþingis eins og starfssystkin okkar í nágrannalöndunum. Á þjóðþingum Norðurlandanna er hins vegar alsiða að senda þingmenn til slíkra ráðstefna. Hins vegar munum við fara á eigin vegum með þeim ráðum sem til eru, og verður vafalaust ekki skotaskuld úr því.

Séu fjármunir ekki fyrir hendi, herra forseti, hlýtur það að vera í verkahring forsn. Alþingis að sækja þá svo hægt sé að sinna alþjóðasamstarfi með viðunandi hætti og þannig að sómi sé að. Ég vil ítreka það í þessari umræðu að ég held að það sé mjög mikilvægt að þingmenn á hinu háa Alþingi taki þátt í þeim umræðum sem þarna munu fara fram, taki þátt í ráðstefnunni og verði því vel í stakk búnir til þess að meta gildi hennar og grípa til þeirra aðgerða sem þarf að grípa til í framhaldi af henni hér á landi og annars staðar.

Ársrit Worldwatch-stofnunarinnar bandarísku um ástand heimsins árið 2002 er tileinkað þessari ráðstefnu, hæstv. forseti. Hér má lesa í ansi greinargóðum texta um helstu umfjöllunarefni ráðstefnunnar og ég hvet alla þingmenn, hvort sem þeir eiga sæti í umhvn. eða ekki, til að lesa það plagg og kynna sér vel hver helstu umfjöllunarefni ráðstefnunnar verða. Þau eru í raun helstu umfjöllunarefni okkar í alþjóðastjórnmálum og þau efni sem við þurfum að móta stefnu til í utanríkismálum.

Ég hef á liðnum vetri, herra forseti, verið nokkuð hugsi yfir hlutverki Alþingis við mótun utanríkisstefnu Íslands og þátttöku alþingismanna í alþjóðlegu samstarfi eins og ég hef áður greint frá hvort heldur það er í þar til gerðum stofnunum eða á öðrum vettvangi. Þegar ég spurði hæstv. utanrrh. um hugsanlega þátttöku þingmanna í nýrri stefnumótun öryggismála sem ég tel vera nauðsynlega, ekki síst í ljósi atburðanna 11. sept. sl., varð fátt um svör en helst mátti skilja á hæstv. utanrrh. að embættismenn ráðuneytisins væru fullfærir um þá vinnu. Ekki ætla ég að bera brigður á hæfni embættismanna hins háa utanrrn. en um það snýst málið einfaldlega ekki.

Nú hefur hæstv. utanrrh. ákveðið að láta framkvæma nýja úttekt á stefnumiðum Þróunarsamvinnustofnunarinnar en á bls. 73 í skýrslu utanrrh. segir, með leyfi forseta:

,,Í ljósi þess að árið 2003 er síðasta árið sem fellur undir stefnumið ríkisstjórnarinnar frá árinu 1997 um aukningu framlaga til ÞSSÍ hefur utanríkisráðherra ákveðið að láta framkvæma nýja úttekt á starfsemi stofnunarinnar sem yrði grundvöllur fyrir nýrri langtímaáætlun hennar.``

Það er ástæða til að fagna því að hæstv. utanrrh. skuli ætla að láta að gera þessa úttekt. En að gefnu tilefni leyfi ég mér að spyrja með hvaða hætti þessi vinna eigi að fara fram og hvort hæstv. utanrrh. hafi hugsað sér að alþingismenn og/eða utanrmn. muni taka þátt í þessari vinnu. Um það er engum blöðum að fletta, herra forseti, að þróunarsamvinna byggð á markmiðum sjálfbærrar þróunar er ein af stærstu athöfnum alþjóðasamvinnunnar og utanríkismála okkar á næstu árum og áratugum. Slík stefnumótun er pólitískt verkefni og hún á helst af öllu að vera þverpólitískt verkefni, herra forseti.

Á undanförnum missirum hefur nokkuð verið rætt um ógnina sem stafar af mansali og kynlífsþrælkun kvenna og barna, stúlkna og drengja, um allan heim. Ég vil í því sambandi taka fram að það er ekki nóg að styðja aðgerðir gegn kynlífsþrælkun og vændisiðnaðinum á erlendum vettvangi ef við tökum ekki til heima hjá okkur. Það er til lítils að fordæma það sem gerist eða getur gerst í útlöndum ef menn líta sér ekki nær, herra forseti, og það er kominn tími til að hv. þingmenn svari þeirri spurningu hvort hið háa Alþingi vilji leyfa það að á Íslandi sé hægt að kaupa sér aðgang að líkama, með öðrum orðum hvort líkamar séu til sölu á Íslandi.

Ég veit að almennt þykir fólki ekki auðvelt og ekki þægilegt að svara þessari spurningu en þetta er grundvallarspurning í umfjöllun um kynlífsþrælkunina og vændisiðnaðinn sem því miður grasserar hér eins og annars staðar.

Að lokum fagna ég því, herra forseti, að hæstv. utanrrh. hafi gert sjálfbæra þróun að sérstöku umræðuefni í ræðu sinni. Kjarni sjálfbærrar þróunar er að sjálfsögðu félagslegt réttlæti öllum til handa og efnahagslegur jöfnuður. Ég hef sagt það áður og mun segja það aftur hér: Sjálfbær þróun er jafnaðarstefna í framkvæmd með tilliti til fólks og umhverfis. Markmið hennar nást ekki nema okkur takist að útrýma fátækinni með öllum tiltækum ráðum. Fátæktinni, herra forseti, verður ekki útrýmt nema konum sé tryggt efnahagslegt sjálfstæði hvar sem þær eiga heima, og tryggður sjálfsákvörðunarréttur yfir líkama sínum og lífi.

Við skulum hafa þær í huga, herra forseti, stelpurnar sem heimsóttu okkur í dag í tilefni þess að hvatt var til þess að stúlkur á aldrinum 9--15 ára kæmu með foreldrum sínum eða öðrum skyldmennum í vinnuna. Við skulum hafa þær í huga og þá björtu framtíð sem blasir við þeim hér á Íslandi. Svo skulum við hafa það líka í huga að það eru milljarðar annarra stelpna úti um allan heim sem eiga það sama skilið, sömu réttindi og sömu tækifæri, og um það snýst í raun og veru sú umræða sem hér fer fram, að veita öllum þessum stúlkubörnum sömu tækifæri.