Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 14:11:36 (6708)

2002-03-26 14:11:36# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[14:11]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Að því er varðar starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar er alveg ljóst að stefna í þeim málum þarf að vera í stöðugri endurskoðun. Það er utanrrn. að standa fyrir slíkri stefnumörkun en það hefur verið og verður gert í náinni samvinnu við stjórn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Stjórn hennar er kosin af Alþingi og þar eiga fulltrúar flokka aðild að. Hins vegar er sjálfsagt varðandi þessi mál að ræða þau jafnframt ítarlega við utanrmn. og fara yfir þau jafnvel með reglubundnu millibili þannig að þetta geti farið sem best úr hendi.

Þverpólitísk samstaða hefur verið um starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og ég tel mikilvægt að viðhalda þeirri samstöðu. Ég er þess vegna reiðubúinn til að hafa samráð um þessa stefnumótun, bæði við utanrmn. og flokka á Alþingi og kannski ekki síst við stjórn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands þar sem viðkomandi flokkar eiga fulla aðild að. Síðast þegar þessi stefnumörkun átti sér stað var hún unnin af Jónasi Haralz með miklum ágætum. Hann hafði veg og vanda af því. Ég tel mikilvægt að nýta reynslu slíkra manna og hann reyndist okkur afskaplega vel. Við höfum einmitt hugsað okkur í sambandi við endurmat í þessu máli að nýta þar fyrst og fremst reynslu aðila sem hafa starfað fyrir Íslands hönd á vettvangi þessara mála án þess að endanlega hafi verið gengið frá því enn sem komið er.