Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 14:13:43 (6709)

2002-03-26 14:13:43# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, ÞSveinb (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[14:13]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. svörin. Það er vissulega gott að það eigi að leita samráðs, m.a. við utanrmn. Einnig geri ég mér að sjálfsögðu grein fyrir því að stjórn Þróunarsamvinnustofnunar var kosin af hinu háa Alþingi.

Hins vegar held ég að okkur greini ekki á um markmið þessarar vinnu heldur leiðina að því. Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, vegna þess vægis og þess gildis sem þróunarsamvinnan hefur í utanríkisstefnu Íslendinga --- það mun aðeins aukast á komandi árum og áratugum --- að nú sé tímabært að setja þennan undirbúning til langs tíma í annað form en það sem hæstv. utanrrh. hefur hugsað sér með einhvers konar þverpólitísku nefndastarfi. Að sjálfsögðu er stjórnmálaflokkunum öllum í sjálfsvald sett hverja eða hvernig þeir skipi í slíkar nefndir en ég hygg að mikla og vandaða þverpólitíska vinnu þurfi til að móta þessa stefnu til langframa. Ég hefði kosið að gera það með öðrum hætti en þeim sem hæstv. utanrrh. hefur lýst hér. Hins vegar er það að sjálfsögðu skref í rétta átt. Í ljósi þess hversu mikilvæg þessi stefna er og hversu mikilvægur þessi málaflokkur er að verða í utanríkisstefnu Íslands finnst mér að leggja þurfi meiri vinnu í þetta.